Reffileg Jóhanna stýrir þingfundi

Jóhanna Sigurðardóttir

Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú setið lengst allra þingmanna á Alþingi Íslendinga. Hún stýrði því fyrsta þingfundi við setningu 133. löggjafarþings löggjafarsamkundunnar. Jóhanna stýrði fundi með reffilegum og flottum hætti áðan, en ég fylgist með öðru auganu með þingsetningu sem nú stendur yfir í Alþingishúsinu. Jóhanna hefur verið, rétt eins og Halldór Ásgrímsson var áður og svo margir fleiri sem lengi hafa verið, reynslumikill forystumaður innan þings og verið litríkur stjórnmálamaður. Hún hefur setið samfleytt á þingi frá árinu 1978 og verið alla tíð mjög áberandi í þingstörfum og lagt sig alla í verkefni stjórnmálanna og verið hugsjónapólitíkus. Það er alltaf þörf á þeim.

Ég var svona að fara yfir það í huganum hvenær að mér fannst Jóhanna ná hápunkti sínum sem stjórnmálamaður. Það var sennilega þegar að henni tókst að sigra prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík í janúar 1999. Einhvernveginn tókst henni það sem allir töldu ómögulegt eftir eiginlega misheppnaða stofnun Þjóðvaka og hið skaðlega tap fyrir Jóni Baldvin í formannskjöri Alþýðuflokksins árið 1994 að byggja sig upp að nýju sem forystukonu á vinstrivængnum. Með því tókst henni að sópa vinstrinu að baki sér. Hún gekk að nýju í Alþýðuflokkinn í aðdraganda prófkjörsins og lagði hann að fótum sér með alveg stórglæsilegum hætti. Það var hennar toppur. Það er mjög einfalt mál.

Jóhanna stóð sig mjög vel við stjórn fundarins og var reffileg sem ávallt. Hún flutti hugljúf minningarorð um Magnús H. Magnússon, fyrrum ráðherra, varaformann Alþýðuflokksins og bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, sem lést í sumar. Magnús, sem var faðir Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, var einn hinna litríku höfðingja Alþýðuflokksins og það var því táknrænt og flott að það skyldi verða Jóhanna, sem varð eftirmaður hans á varaformannsstóli Alþýðuflokksins árið 1984, sem flutti þessi minningarorð.

Ólafur Ragnar Grímsson flutti ræðu með sínum hætti við þingsetningu. Fannst ummæli hans um utanríkismál athyglisverð í ljósi þess úr hverju hann er gerður í stjórnmálum og þær skoðanir sem hann lét í veðri vaka á þingmannsárum sínum. Ég hef aldrei metið forseta Íslands utanríkispostula og ekki breytti þessi ræða þeim skoðunum. Mér fannst hann þó tala mjög virðulega um Halldór Ásgrímsson sem stjórnmálamann. Eins og Ólafur Ragnar og Jóhanna sögðu réttilega er Halldór einn risanna í stjórnmálasögu landsins, eftir langan ráðherraferil sinn, og hann mun hljóta þann sess.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband