Valgerður Bjarnadóttir í framboð

Valgerður Bjarnadóttir

Valgerður Bjarnadóttir, viðskiptafræðingur, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3.- 5. sætið í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík eftir rúman mánuð. Valgerður er dóttir Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra, og eiginkonu hans Sigríðar Björnsdóttur, og því systir Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Valgerður kvæntist árið 1970, Vilmundi Gylfasyni, sem varð einn af litríkustu stjórnmálamönnum á vinstrivæng íslenskra stjórnmála á seinni hluta 20. aldar. Valgerður fylgdi Vilmundi í hans pólitísku verkefnum með gríðarlegum krafti allt þar til yfir lauk með stofnun Bandalags jafnaðarmanna. Vilmundur lést í júní 1983, langt um aldur fram.

Vala er svo sannarlega öflug kjarnakona, það efast fáir um það. Ég kynntist henni fyrst sumarið 1996, þegar að hún var einn kosningastjóra forsetaframboðs Péturs Kr. Hafsteins. Ég studdi framboðið hér fyrir norðan og var að vinna fyrir það. Þá var Vala nýlega flutt aftur heim eftir áratugs vist erlendis, en hún flutti til Brussel eftir að Vilmundur dó. Vala er skarpgreind og öflug kona sem hefur alltaf verið í bakgrunni í stjórnmálaumræðunni. Hún er þó fædd og uppalin inn í íslensk stjórnmál, dóttir eins öflugasta stjórnmálahöfðingja okkar og var gift einum litríkasta leiðtoga stjórnmálanna, miklum hugsjóna- og baráttumanni í áraraðir.

Það eru að mínu mati gríðarlega mikil tíðindi að Vala ákveði sjálf að fara í framboð. Það er alveg ljóst að prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík verður spennandi. Þar eru margir að berjast um svipuð sæti og stefnir í hörkuátök. Innkoma Valgerðar Bjarnadóttur í beina stjórnmálaþátttöku eru stórtíðindi, enda hefur hún í raun verið í stjórnmálum alla tíð en með óbeinum hætti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að henni muni ganga í þessum prófkjörsslag.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband