Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hafnar

Héðinsfjarðargöng

Það var mikill gleðidagur á Siglufirði á laugardaginn. Þá tendraði Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, fyrstu sprenginguna við Héðinsfjarðargöng. Það er löng barátta að baki hjá okkur Norðlendingum fyrir þessum göngum. Sú barátta var í senn mörkuð bæði af vonbrigðum og áfangasigrum, sem færðu okkur þó sífellt nær lokatakmarkinu. Nú er málið í höfn. Því miður gat ég ekki verið viðstaddur þessa athöfn á Siglufirði , en ég á að hluta ættir mínar að rekja þangað og hef því alla tíð haft taugar þangað, en það er mikil gleði hér með að þetta mál sé nú tryggt og framkvæmdir hafnar.

Göngin verða mikil og öflug samgöngubót fyrir alla hér á þessu svæði. Þau bæði styrkja og treysta mannlífið og byggðina alla hér. Allar forsendur mála hér breytast með tilkomu Héðinsfjarðarganga á næstu árum. Með þeim verður svæðið hér ein heild. Nú þegar hafa Siglufjörður og Ólafsfjörður sameinast í eitt sveitarfélag. Var ég mjög ósáttur við frestun framkvæmda við göngin árið 2003 og andmælti þeirri ákvörðun mjög. Við hér á þessu svæði vorum vonsvikin og slegin yfir þeirri meðferð strax í kjölfar kosninga, þar sem sömu ráðherrar og stöðvuðu málið höfðu lofað því í kosningunum.

Það er alkunn staðreynd að til er fjöldi fólks sem er andsnúið því að göng komi þarna til sögunnar og tengi Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og verði með því öflugur hluti af Norðausturkjördæmi og nái samgöngulegri tengingu við svæðið. Það er eitthvað sem er óþarfi að fara yfir. Það er þó gæfa málsins að fulltrúar allra flokka hafa stutt hana, sem er gleðiefni. Það er mikilvægt að við höfum nú náð þessum áfanga og með því komi góð samgöngutenging til Siglufjarðar, enda má ekki gleymast að stór þáttur þess að Siglufjörður verði afgerandi þáttur kjördæmisins sé að þeim séu tryggðar mannsæmandi samgöngur til Eyjafjarðar.

Að mínu mati eru þessi göng, þessar framkvæmdir, hagsmunamál fyrir okkur öll og mikilvægt að þau komi. Það styrkir allt svæðið hér. Því gleðjumst við öll hér að baráttunni sé lokið og framkvæmdir hafnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vona að það verði gjaldtaka í þessum göngum!

Það hefur reynst mjög vel í Hvalfjarðargöngunum, óþarfa að skattpína landann endalaust.

Erlingur www.haegri.is (IP-tala skráð) 6.10.2006 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband