6.1.2008 | 17:30
Einvígið mikla í New Hampshire

Staðan í New Hampshire er um margt make-or-break fyrir Hillary. Tap mun þyngja róðurinn umtalsvert en sigur snúa við því tafli að hún sé að berjast við ósigrandi sjarmatröll nýrra tíma. Eftir sigursælan stjórnmálaferil er eiginlega hálf óraunverulegt að sjá hnignun Hillary sem stjórnmálamanns síðan í kappræðunum í Philadelphiu. Hún er allt í einu mjög brothætt og hún má ekki lengur við miklu hnjaski án þess að ára hennar sem sigursæls stjórnmálamanns líði endanlega undir lok. Það er eiginlega ótrúlegt að staða hennar sé í vafa í New Hampshire, fylkinu sem færði Bill Clinton endurkomuna í forsetaslaginn 1992 og verið eitt helsta vígi Clinton-hjónanna á litríkum ferli.
Obama er vonarneisti í myrkrinu. Þar liggur farsæld hans síðustu mánuði. Hann er eins og segull, dregur fólk að sér og virðist vera ferskt andlit í fjöldanum. Fari svo að Obama vinni í New Hampshire og nái útnefningunni verður það stóra ástæða þess að Hillary sigldi í strand og Obama varð forystuefni demókrata í þessum kosningum. Eftir átta ára forsetaferil George W. Bush er leitað eftir breytingu í báðum flokkum og virðist það enn betur sjást meðal demókrata sem hafa verið nær alveg valdalausir meginhluta valdaferils Bush, aðeins er ár síðan að flokkurinn náði þinginu aftur, en annars verið í algjöru valdatómi.
Þegar að Obama fór að kanna fyrst framboð sitt fyrir rúmu ári var ekki laust við að það mætti finna strauma ferskleikans. Honum hefur verið líkt við John F. Kennedy og dr. Martin Luther King. Að mínu mati er Obama blanda þeirra beggja, allt að því ósigrandi blanda þeirra. Hann virkar mjög sannur og traustur. Það er svona varla að hægt sé að trúa að hann sé sannur í gegn, en það er erfitt að finna bresti í honum. Enda hafa fregnir um fjölmenna kosningafundi með honum sýnt og sannað að hann er vonarneisti sem getur markað nýja tíma, rétt eins og t.d. Bill Clinton áður, sem var forseti út á þá ímynd sína að vera ferskur.
Stærstu vandræði Hillary á þessum vetrardögum í New Hampshire felast einkum í því að fólk finnur ekki tenginguna við hana. Það veit ekki hvaða kraftur er á bakvið framboð hennar, á meðan að fólk finnur hann hjá Obama. Þetta skilar sér. Tapi Hillary í New Hampshire verður það metið ástæðan. Hillary er særð eftir tapið í Iowa, það sjá allir. Hún hefur haft áru hinnar sigursælu og er ekki vön að lúta í gras. Það hefur skyndilega breyst. Brestir hennar eru of augljósir til að þeim verði neitað. Sigur á þriðjudag getur þó verið plástur á sárið, en tap yrði fleinn á versta stað fyrir hana. Hún má varla við frekari vandræðum.
Það var áhugavert að sjá kappræður demókrata í New Hampshire í gærkvöldi. Þar sameinuðust Obama og John Edwards gegn Hillary, sem varðist af krafti, eins og hennar er bæði von og vísa. Hún er hörkutól og má eiga það að hún hefur náð lengra en mörgum konum hefur í sjálfu sér dreymt. Það hlýtur þó að teljast mikið áfall fyrir konur fari svo að Hillary verði ekki forsetaefni demókrata, engin kona hefur náð lengra í baráttu um forsetaembættið og margar konur voru að vonast til að kona myndi verða í baráttu um Hvíta húsið til enda. Það er allt í óvissu nú og eflaust margar konur hugsi.
Forkosningaslagur demókrata er einvígi Hillary og Obama. Edwards á ekki séns, en berst enn og vonar reyndar greinilega að Hillary bakki út og hann verði mótvægi við Obama. Það er borin von. Ef Obama leggur Hillary verður hann frambjóðandinn, það er ekki flóknara. Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju Mexíkó, sáttasemjari og fyrrum ráðherra í ríkisstjórn Clintons forseta, á ekki von lengur en helst í slagnum til forkosninga í Nevada. Hann átti þó orð gærkvöldsins í kappræðunum er hann sagðist hafa upplifað mildara andrúmsloft í gíslatöku en það sem væri í baráttunni í New Hampshire. Frábært komment.
Það er erfitt að spá um hvað gerist í New Hampshire eftir tvo sólarhringa. Það er þó freistandi að spá því að Obama taki fylkið. Gerist það er pólitísk stórstjarna fædd - stjarna sem gæti bundið enda á stjörnutilveru Clinton-hjónanna í Demókrataflokknum og einu sterkasta fylki stjórnmálaferils þeirra og mannsins sem gerði flokkinn að sínum þar fyrir einum og hálfum áratug og varð í kjölfarið forseti tvö kjörtímabil. Varð sá sigursæli með pólitískasta maka bandarískrar stjórnmálasögu við hlið sér. Og það yrðu stórtíðindi.
![]() |
Obama vinnur á Clinton |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.