Jólunum lokið - þrettándastemmningin

Flugeldar Jæja, þá er jólahátíðinni lokið. Þetta voru notaleg og góð jól, eins og oftast nær. Las margar góðar bækur og hafði virkilega gaman af. Að mínu mati eru engin jól án bóka. En nú dimmir aftur yfir, jólaljósin slökkna og skammdegið verður alls ráðandi það sem eftir er mánaðarins. Það er þó bót í máli að daginn lengir sífellt nú og bráðlega mun birtan lýsa upp myrkrið. Þannig að ekki verður myrkrið ráðandi lengi úr þessu.

Mér finnst í sannleika sagt leiðinlegasti tími ársins vera dagarnir eftir jólin, í janúar, þegar að jólaljósin slökkna. Sumir hafa reyndar tekið upp á því að hafa jólaljósin lengur og njóta þeirra fram eftir mánuðinum. Finnst það ekkert verra. Í minningunni hefur janúar verið leiðinlegasti mánuður ársins. Það er eitthvað við þann mánuð sem er átakanlega leiðinlegt, rétt eins og desember er ávallt toppur alls, þegar að gleðin og jákvæðnin eiga að lýsa upp mannlífið með jólaljósunum. Þannig hefur það allavega alltaf verið hjá mér.

Margir vilja kveðja jólin með flugeldaskothríð í takt við það sem var á gamlársdag. Það hefur mikið verið skotið upp hér á Akureyri í dag, greinilegt að margir telja þetta ekki síðri tíma fyrir flugelda en áramótin sjálf. Kannski er það ágætis hefð hjá fólki, hef ekki gert mikið af því sjálfur reyndar. Hinsvegar finnst mér fátt meira óþolandi en þegar að það er verið að skjóta upp flugeldum í tíma og ótíma utan þessara tveggja daga. Sumir hafa tekið upp á því að gera þetta um hánótt jafnvel á virkum degi milli áramóta og þrettándans við lítinn fögnuð flestra. Er ekki mjög hrifinn af flugeldunum utan þessa tíma.

Það er dapurlegt að heyra af því að fólk slasist við flugeldaskothríðina. Það er mikilvægt að fara varlega í þessum flugeldamálum. Það var gott mál þegar að varnargleraugun komu, enda voru mjög margir sem fengu vond meiðsli í andliti í flugeldaskothríðinni. Margt hefur breyst til hins betra og vonandi hafa flestir sloppið slysalaust í gegnum áramótin og þrettándann. Hafa allavega ekki verið margar fréttir um alvarleg meiðsl í flugeldaskothríðinni síðustu dagana, sem betur fer. Vonandi hafa allir farið varlega og sloppið vel frá þessu öllu.

mbl.is Óhapp við þrettándabrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband