7.1.2008 | 16:47
Hillary berst af krafti fyrir pólitísku lífi sínu
Hillary Rodham Clinton berst nú fyrir pólitísku lífi sínu í kappi við tímann í forkosningabaráttunni í New Hampshire. Fari svo að hún tapi stórt þar á morgun, eins og sumar kannanir benda til, verður það mesta áfall stjórnmálaferils hennar og mun veikja hana það mjög að líkur minnki á því að hún verði forsetaefni demókrata. Það eru stórtíðindi miðað við það bakland sem hún fór af stað með í baráttuna; digra sjóði og góða bakhjarla. Tap hennar í þessum slag myndi líka breyta miklu innan flokksins.
Það hefur eiginlega verið óraunverulegt að fylgjast með fréttunum frá New Hampshire. Það finna allir vinda breytinganna blása - þetta eru örlagaríkir dagar. Það er eitthvað stórt um að vera, hið stærsta mjög lengi. Barack Obama er að breyta pólitísku landslagi innan Demókrataflokksins með dramatískum hætti. Það fer ekki á milli mála að stórstjarna er komin til sögunnar; sama hvort hann vinnur eða tapar úr þessu er hann orðinn einn öflugasti stjórnmálamaður nútímans, pólitískur predikari sem talar af innlifun. Hann hrífur fólk með sér, dregur fjöldann að sér, fyrst og fremst er hann að sópa að sér ungu fólki sem sér í honum vonarneista til uppstokkunar eftir tvo áratugi Bush og Clinton í Hvíta húsinu.
Það má reyndar velta því fyrir sér hvort að Hillary sé að græða á því að hafa Bill Clinton með sér á kosningaferðalaginu. Hann er voldugur pólitíker, en er líka táknmynd liðins tíma í bandarískum stjórnmálum. Sá myndir á laugardag frá kosningafundi þar sem greinilegt var að eldmóðinn vantaði algjörlega. Það er eiginlega varla hægt að trúa því að þetta séu sömu Clinton-hjónin sem stálu sviðsljósinu fyrir sextán árum og gerðu flokkinn að sínum með líflegri kosningabaráttu, fullri af eldmóð og baráttuanda. Við sem upplifðum forsetakosningarnar 1992 munum eftir þeim anda. Það er eftirminnilegt að rifja þá baráttu upp, best er henni lýst í The War Room, frábærri heimildarmynd.
Það er alveg gríðarlegt máttleysi yfir Hillary núna. Það vantar neistann, það vantar drifkraftinn á bakvið það sem hún er að gera. Það er eins og nútíminn hafi farið framhjá henni. Hún heldur langar ræður án innlifunar á kosningafundum, talar mikið um reynsluna og fortíðina en gleymir alveg að tala til framtíðarinnar, unga fólksins sem vill styðja hana. Enda sést á könnunum að þetta fólk er að flýja hana, það sér bjartari neista í Obama. Hann er vonarneisti. Ungt fólk studdi Clinton-hjónin í forsetakosningunum 1992 og 1996 vegna þess að þau boðuðu eitthvað nýtt. Nú eru þau táknmyndir fortíðarinnar. Þetta er kaldhæðnislegt.
Fyrir nokkrum mánuðum taldi ég að Hillary myndi ryðja allri samkeppni um útnefninguna úr vegi sínum í upphafi. Fór oft yfir það hér, benti þó líka á að færi hún að hökta og tapa í upphafi yrði róðurinn þungur. Hún virkaði ósigrandi og varð að halda þeirri ímynd. Hún var særð eftir Iowa og það er einhvernveginn eins og neistinn hafi slokknað á leiðinni frá kappræðunum í Philadelphia fyrir nokkrum vikum. Hillary skynjar að þetta er orðin örlagarík barátta, strax í upphafi. Sá strax í gær að hún var búin að breyta um áherslur og farin að fókusera á meiri neista í málflutningi og tala til unga fólksins. Kannski er það orðið of seint.
Verð að viðurkenna að ég þurfti eiginlega að tvítékka fréttirnar af nýjustu könnunum í New Hampshire þar sem Obama var með forskot upp á tveggja stafa tölu. Það eru stórtíðindi af þeirri stærðargráðu að það sé verið að endurskrifa söguna í New Hampshire. Það eru vindar breytinganna sem blása þar. Það verða örlagarík stórtíðindi tapi Hillary stórt og það gæti orðið tap sem markar endalokin fyrir þessa öflugu kjarnakonu sem hefur verið svo dómínerandi á alþjóðavettvangi árum saman. Og hver hefði trúað því fyrir aðeins nokkrum vikum.
Þó að ég hafi ekki alltaf verið sammála Hillary hef ég dáðst að neistanum hennar og eldmóði. Þegar að hún kom hingað til Íslands fyrir um áratug á kvennaráðstefnuna fangaði hún athyglina og allt snerist um hana. Man eftir löngu ræðunni hennar sem hún flutti blaðlaust í Borgarleikhúsinu. Hún einhvernveginn þurfti ekkert fyrir því að hafa, neistaði af krafti. Það var eiginlega ógleymanleg ræða. Hreifst af henni þá, þó ekki væri ég sammála hverju orði. Það hvernig hún talaði og hversu mikill kraftur var í henni situr eftir innst í huganum. Þetta var mikið móment.
Í gær sá ég sömu konu flytja ræðu í Nashua. Það hefur margt breyst. Hún er enn öflug en vindarnir blása í aðrar áttir. Þetta átti að vera árið hennar, árið þegar að fyrsta konan yrði kjörin valdamesti maður heims; stóru þáttaskilin sem markaði upphaf seinni bindis sögunnar um Clinton-veldið. Í staðinn hnígur sólin til viðar. Kvöldrökkrið blasir við hjónunum öflugu frá vonarbænum í Arkansas. Hún er í baráttu lífsins, kannski þeirri sem bindur enda á allt saman. Hann virkar þreyttur og fjarlægur. Það er eins og lánið hafi yfirgefið þau.
Eru þetta virkilega sömu hjónin og voru táknmyndir breytinga á sínum tíma? Það eru sögulegir dagar í New Hampshire. Er gullaldartími Clinton-hjónanna virkilega liðinn? Stór spurning. Fari allt á versta veg á morgun, eins og dökkustu kannanir gefa til kynna, mun allt breytast. Þá færist stjörnuljóminn annað og þeim hefur verið hafnað. Hver hefði trúað þessu fyrir aðeins nokkrum vikum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:55 | Facebook
Athugasemdir
Því miður held ég að ástæða þess að Hillary er að missa af lestini sé sú að Bandaríkjamenn eru því miður ekki reiðubúnir að fá konu í Hvíta húsið sem forseta.
Hef einnig efasemdir um að Obama muni klára dæmið - því ég held einnig að Bandaríkjamenn séu ekki reiðubúnir að fá blökkumann sem forseta í Hvíta húsið - því miður.
Tel því enn að þrátt fyrir allt verði John Edwards næsti forseti - eins og ég bloggaði um í pistlinum John Edwards næsti forseti Bandaríkjanna
Hallur Magnússon, 7.1.2008 kl. 19:36
Verð að fá að vera þér ósammála Hallur, þó ég hafi heyrt þessa kenningu áður, þ.e. að sigurstranglegur demókrati verði að vera hvítur suðurríkjamaður.
Ég bý í New York fylki og fylgist sæmilega með stjórnmálum hér. Hillary er helsta von repúblikana, þeir eiga ekkert svar við Obama. Það er samt einhvernvegin mjög erfitt að útskýra það fyrir Íslendingum hvað hægri mönnum hér er illa við hana.
Obama er ótrúlegur ræðumaður. Ég hef heyrt í honum í eigin persónu en það var ekki fyrr en núna fyrir stuttu að maður áttaði sig því hvað þetta er stórt dæmi. Fólk er farið að líkja honum við JFK og MLK og hann höfðar til fólks vítt og breytt.
Ég held að Bandaríkjamenn séu tilbúnir til að kjósa Obama en ekki Hillary. Þeir eru ekki jafn miklir rasistar og Íslendingar og þeir eru ekki jafn miklir jafnréttissinnar heldur þannig að það verður eitthvað í það að kona verði forseti.
Oddur Ólafsson, 7.1.2008 kl. 20:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.