Hillary Clinton að sigra í New Hampshire

Hillary Rodham Clinton Þegar að yfir 70% atkvæða hafa verið talin í forkosningaslag demókrata í New Hampshire bendir flest til þess að Hillary Rodham Clinton muni sigra Barack Obama þvert á allar kosningaspár síðasta sólarhringinn. Fari svo að Hillary vinni mun það tryggja endurkomu hennar í alvöru slag um útnefningu flokksins í forsetakosningunum í nóvember. Í gær og fyrradag afskrifuðu margir hana og svo virtist sem að mikill ósigur væri í kortunum.

Fyrir sextán árum átti Bill Clinton endurkomu sína í forkosningaslag demókrata í New Hampshire og nefndi sig sem comeback kid á eftir. Eftir þann örlagaríka sigur lá leið hans í Hvíta húsið og hann var forseti Bandaríkjanna í átta ár og gerði Demókrataflokkinn að sínum með eftirminnilegri forystu í litríkri kosningabaráttu í upphafi og endurtók leikinn árið 1996. Fari svo að Hillary sigri í New Hampshire er hún enn í slagnum af alvöru og hefur náð að snúa bylgjunni í Iowa við.

Bill Clinton virkaði á mig í gær á kosningafundinum í Hanover sem allt annar maður en sá sem talaði á laugardag. Hann minnti mig aftur á þann sem sigraði fyrir sextán árum og lagði grunninn að veldi sínu í flokknum. Fyrir aðeins nokkrum dögum var lífleysið algjört og þau voru bæði úr takti. Það mátti finna allt að því feigðarsvipinn yfir baráttunni. Það var slegið í klárinn á sunnudag og þá var haldið í aðra átt. Það virðist hafa virkað og Hillary er komin aftur á beinu brautina.

Í ræðu sinni í dag talaði Clinton um það að sveiflan til Obama hefði hafist á miðvikudaginn og væri byrjuð að réna og hann sagði fundargestum að búast við stórfregnum í kvöld því að bylgjan hefði verið stöðvuð. Það var klókt útspil hjá Hillary að senda Bill til Hanover og svo virðist vera sem að það hafi skipt miklu máli. Gamli góði Bill er enda á við hundrað ræðumenn er hann er í stuði, hefur sama kraftinn. Hann hefur staðið svo margt af sér að það er óvarlegt að útiloka töfra hans, eða þeirra beggja. Og það sýna þau í kvöld. Það er ekkert búið hjá þeim. Þvílíkur viðsnúningur.

Ef marka má tölurnar sem eru að berast hefur McCain náð óháðum kjósendum mun betur til sín en Barack Obama. Sú bylgja tryggir sigur McCain og virðist tryggja um leið að Obama sigrar ekki í kvöld eins og farið var að telja öruggt meira að segja í spádómum færustu stjórnmálaspekinga bandarísku pressunnar. Enda var mikil undrun í kvöld og greinilegt að Hillary hefur enn og aftur náð að sýna að hún er öflug. Það virðist vera sem að tilfinningasemi Hillary í kaffispjallinu með konunum í Portsmouth hafi haft mikil áhrif, einkum á konur.

Bíð enn með frekari greiningu, en Hillary er að vinna í New Hampshire. Stóru tíðindin eru þau að Hillary fékk fleiri atkvæði kvenna. Mikil tíðindi það. Það sem margir töldu óhugsandi virðist vera að gerast og forsetafrúin fyrrverandi er fjarri því búin að vera. Það fer þá kannski svo eftir allt saman að söguritun seinni hluta valdasögu Clinton-hjónanna sé ekki búin?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband