12.1.2008 | 14:17
Mac is back - fetar McCain í fótspor Reagans?
Fyrir nokkrum mánuðum höfðu flestir afskrifað John McCain sem alvöru forsetaefni; töldu hann of gamlan til að verða valdamesti maður heims - missti starfsfólk og átti erfitt með að safna peningum. Hann hefur nú náð forystunni í kapphlaupinu um útnefningu Repúblikanaflokksins í skoðanakönnunum eftir sigurinn í New Hampshire og virðist líklegur til að fara alla leið. Sigri hann í forkosningum í Michigan og Suður-Karólínu verður erfitt að stöðva hann. Segja má að reynsla McCain af því að vera í slagnum sé að reynast honum besta lexían á mikilvægasta hjallanum.
John McCain mun marka söguna nái hann útnefningu repúblikana og verði frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum í nóvember. Hann verður 72 ára í ágúst og yrði elsti forseti Bandaríkjanna ef hann næði kjöri í kosningunum. Ronald Reagan, 40. forseti Bandaríkjanna, var 69 ára er hann náði kjöri á forsetastól í nóvember 1980 og var að verða 78 ára er hann yfirgaf Hvíta húsið í janúar 1989. Svo virðist sem að McCain sé á þessu stigi baráttunnar að marka sig sem manninn með reynsluna og ætli sér að reyna að vinna útnefninguna með því þema. Það var honum mjög mikilvægt að vinna New Hampshire og það hefur gefið honum betra forskot í að halda í næstu fylkin.
Sögusagnir hafa verið um það hvort að McCain myndi aðeins sitja á forsetastóli í eitt kjörtímabil yrði hann kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hann yrði áttræður ef hann myndi sitja á forsetastóli í átta ár, til ársins 2017. Það varð umræðuefni fyrir rúmri viku hvort að hann færi ekki fram aftur og athygli vakti að hann útilokaði ekki þann möguleika í viðtali. Síðar var þeim möguleika þó neitað formlega af starfsmanni framboðs hans. Kjaftasagan lifir góðu lífi. Það var reyndar mjög merkilegt að sjá McCain fagna sigri í New Hampshire. Allt yfirbragð hans og frasar minntu mjög á Ronald Reagan. Hann virðist ætla að fara fram á því að vera trausti gamli maðurinn með yfirsýnina, rétt eins og Reagan var í baráttunni um útnefningu repúblikana fyrir þrem áratugum.
Það virkaði fyrir hann, þó gamall væri og McCain virðist á sigurbraut. Og nú verður leikurinn virkilega spennandi. Það hefur ekki fækkað mikið í hópi repúblikana í framboði, en nú fer hringurinn að þrengjast. Flestir búast við að Fred Thompson muni draga sig í hlé eftir forkosningarnar í Suður-Karólínu, en litlar líkur eru á því að hann vinni fylkið og geti markað sig sem alvöru frambjóðanda. Mitt Romney er í raun búinn að vera tapi hann í Michigan, en McCain ætlar sér sigur þar. Ég tel að Romney hafi í raun klárast í New Hampshire. Hann ætlaði sér að fá byr í seglin með sigri þar og í Iowa. Það mistókst og ég tel að það sé aðeins tímaspursmál hvenær að hann dregur sig í hlé.
Að mínu mati eru aðeins þrír eftir sem alvöru keppinautar um útnefningu repúblikana; John McCain, Mike Huckabee og Rudy Giuliani. Huckabee varð alvöru keppinautur með sigrinum í Iowa og það var mikilvægt fyrir hann að vera þriðji í New Hampshire, fá betri útkomu en Giuliani. Hann hefur allavega sterkan grunn til að haldast áfram í slagnum og gæti verið í honum fram að ofur-þriðjudegi 5. febrúar. Giuliani þarf að sigra í Flórída eftir hálfan mánuð til að haldast í slagnum; hann hefur veðjað á stóru fylkin. Það gæti þó farið svo að hann hellist úr lestinni taki McCain næstu fylki og nái þar með meira forskoti en raunin er nú.
Það er vissulega pólitískt kraftaverk að John McCain hafi tekist að eiga endurkomu í þessum forkosningaslag. Hann var talinn dauðadæmdur fyrir nokkrum mánuðum en hefur skyndilega alla möguleika á að ná alla leið í baráttunni um Hvíta húsið. Með sigrinum í New Hampshire hefur hann sýnt að möguleikarnir eru alveg fyrir hendi um að hann verði frambjóðandi flokksins á eftir George W. Bush, sem hann sigraði í fylkinu fyrir átta árum en tapaði fyrir síðar meir í baráttunni. Það væru merkileg tíðindi. Og yrði hann frambjóðandinn yrði afsannað að stjórnmálamenn á áttræðisaldri séu úr leik.
Samkvæmt könnunum nú eru John McCain og Hillary Rodham Clinton líklegust til að berjast um Hvíta húsið í árslok. Bæði eru þrautreyndir stjórnmálamenn sem myndu sækja af kappi inn á miðjuna í forsetakosningum. Það yrði spennandi barátta fyrir áhugamenn um stjórnmál. En þau hafa nýlega unnið forkosningar og hafa bylgjuna með sér um stundarsakir. Það reynir fyrr en síðar á það hvort að þau hafa kraftinn til að halda þeirri bylgju og ná alla leið í baráttunni.
Það yrði vissulega áhugavert að sjá slag þessara reyndu pólitísku bragðarefa, sem bæði hafa mikla reynslu. McCain hefur verið í öldungadeildinni fyrir Arizona í tvo áratugi, frá því að pólitíski klækjarefurinn Barry Goldwater hætti, og Hillary hefur verið í pólitík í yfir þrjá áratugi - lengst af konan við hlið mannsins á valdastóli en síðar sem pólitíkusinn; sem ríkisstjórafrú í Arkansas, forsetafrú og að lokum öldungadeildarþingmaður fyrir New York.
Það verður líflegur slagur muni þessir þrautreyndu vinnufélagar í öldungadeildinni takast á. Það yrði slagur um breytingar, enda bæði úr öðrum áttum en Bush Bandaríkjaforseti. En samt yrði það barátta um aðrar áherslur. En það hefur svosem verið vitað lengi að þetta yrðu kosningar breytinganna, þar sem þetta eru fyrstu kosningarnar frá 1928 þar sem hvorki forseti eða varaforseti eru í forkosningaferlinu.
![]() |
Skoðanakannanir staðfesta breytta stöðu McCains og Clinton |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.