Davíð Oddsson sextugur

Davíð OddssonDavíð Oddsson, seðlabankastjóri og fyrrum forsætisráðherra, er sextugur í dag. Það verður ekki um það deilt að Davíð er einn áhrifamesti forystumaður í íslenskri stjórnmálasögu síðustu áratugina og var t.d. kjörinn stjórnmálamaður 20. aldarinnar í aldamótakönnun Gallups. Hann hefur lengst allra íslenskra stjórnmálamanna gegnt embætti forsætisráðherra, rúm þrettán ár, og var formaður Sjálfstæðisflokksins í einn og hálfan áratug, lengst allra, fyrir utan Ólaf Thors sem var á formannsstóli í hartnær þrjá áratugi.

Það hefur gustað um Davíð Oddsson á litríkum ferli. Hann var umdeildur borgarstjóri - deilt var um fjölda mála í valdatíð hans í borginni og meira að segja um byggingar á borð við Perluna og Ráðhúsið. Davíð var sigursæll stjórnmálamaður. Í 23 ár samfleytt gegndi hann borgarstjóraembætti í Reykjavík og ráðherraembætti. Í hans borgarstjóratíð vann Sjálfstæðisflokkurinn sinn glæsilegasta sigur, er hann hlaut yfir 60% atkvæða og tíu borgarfulltrúa og undir forystu Davíðs Oddssonar sem flokksformanns varð þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stærstur, 26 þingmenn sátu í nafni Sjálfstæðisflokksins á löggjafarþinginu kjörtímabilið 1991-1995.

Davíð Oddsson var allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 til haustdaga 2005, er hann ákvað sjálfur að hætta þátttöku í eldlínu stjórnmálanna, einn af helstu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins og í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og var risi í stjórnmálum alla tíð. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækurnar hafa sannarlega staðfest það, enda var hann við völd allan áratuginn. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði stór spor í íslenska stjórnmálasögu. En hann var jafnan umdeildur og oft bæði vinsælasti og óvinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann tjáði óhikað skoðanir sínar og var óhræddur við að tala tæpitungulaust um menn og málefni. Það var að mínu mati helsti styrkleiki og mesta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem sagði til verka og naut virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Það leikur enginn vafi á því að forystuhæfileikar Davíðs og litríkur karakter hans var einn helsti lykilþáttur þess að Sjálfstæðisflokkurinn endurreisti sig sem stórveldi í íslenskum stjórnmálum í upphafi tíunda áratugarins eftir miklar lægðir um nokkra tíð.

Hvaða skoðun sem menn svosem hafa á Davíð Oddssyni og pólitískum verkum hans verður því ekki neitað að hann hefur markað merkileg skref í hinu íslenska samfélagi; er sigursælasti stjórnmálamaður landsins síðustu áratugina og mikill áhrifamaður fyrr og nú. Það staðfestist ávallt sé litið yfir stöðu mála og það hversu mjög hann getur gert alla þjóðfélagsumræðu algjörlega að sinni með því að tjá sig opinskátt um menn og málefni. Það hefur honum tekist meira að segja eftir að stjórnmálin voru kvödd.

Ég vil óska Davíð og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þennan góða lífsins áfanga sem sextugsafmælið er.


mbl.is Fjölmenni í sextugsafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Verst að ég komst ekki, mig langaði svo.  Til hamingju með höfðingjann.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.1.2008 kl. 19:53

2 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

Til hamingju með afmælið Davíð Oddson.      Aftur á mót  Stefán  er það auðvitað umdeilt  út afhverju Davíð var þekktur af sínum málum í pólítík, sumir eru alsælir með hann enn aðrir eru þvílíkt ósammála því, fanst hann vera orðin eins og Hitler í eigin Ríki  og glöddust yfir því er hann kvaddi Alþingi en  urðu ekki glaðir að hann söðlaði undir sig undir seðlabankastólnum og svona mætti lengi telja.  Enn það er alltaf gaman að eiga afmæli ekki satt og allir eiga þá hamingjuóskir skildar ekki satt ?? ég er svo heppinn að eiga  ellefta  afmælisdaginn minn í ár

Erna Friðriksdóttir, 17.1.2008 kl. 20:08

3 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Kannski full mikið sagt að líkja Davíð við Hitler, en dominerandi var hann meðan hann stjórnaði öllu með sinni bláu hönd. Ég hlustaði á hluta af viðtali við hann á Rás 2 í morgun og það var gott sem hann sagði þar að það væri gott að vera orðinn sextugur sem alls ekki var svo sjálfgefið fyrir fáum misserum. Það verður ekki af honum tekið að hann er klár karlinn þó maður hafi ekki alltaf verið hrifinn af því hvernig hann stjórnaði. Hvernig hann lagði niður stofnanir ef þær voru honum ekki þóknanlegar, var eitthvað sem enginn stjórnmálamaður í dag hefði kjark til að framkvæma.

Gísli Sigurðsson, 17.1.2008 kl. 21:34

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur fyrir kommentin. Davíð er umdeildur stjórnmálamaður, en það deilir enginn um mátt hans og kraft. Nægir bara að líta í sögubækurnar. Þær verða alltaf besti dómarinn um styrk manna á stjórnmálavettvangi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.1.2008 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband