Verður Bobby Fischer jarðaður á Þingvöllum?

Bobby Fischer Nú hefur stuðningsmannahópur Bobby Fischer tjáð þá skoðun sína að jarðsetja eigi skákmeistarann í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, þar sem Einar Benediktsson og Jónas Hallgrímsson hvíla. Eflaust verður lífleg umræða um þá skoðun þeirra. Þó að margir hafi virt framlag Fischers til skáklistarinnar var hann mjög umdeildur og eflaust deildar meiningar um hvort að Fischer eigi að hvíla á Þingvöllum.

Væntanlega mun unnusta skákmeistarans ráða því hvað verður um jarðneskar leifar hans og hvort hann verði jarðsettur hér. Ég vonast til að hann muni hvíla hér. Hér dvaldi hann síðustu þrjú ár ævi sinnar, hér fékk hann að deyja sem frjáls maður, eftir að við björguðum honum frá þeim örlögum að deyja sem fangi í fjarlægu landi. Þó að það hafi verið umdeild ákvörðun tel ég að leiðarlokum að það hafi það verið rétt skref. Það hefði verið vont að láta hann grotna í fangelsi, en það hlutskipti blasti við Fischer er Davíð Oddsson lagði honum lið.

Það hefur verið mikil umfjöllun um andlát skákmeistarans í öllum fjölmiðlum á alþjóðavettvangi í gær og í dag. Það verður ekki um það deilt að Fischer var einn þeirra samferðarmanna okkar sem vakti mesta athygli, hvað svo sem okkur fannst um skoðanir hans. Ég var ekki einn þeirra sem deildi hugsjónum hans og skoðunum, en mér fannst mikið til listagáfu hans í skákinni koma. Það er það sem hans verður minnst fyrir að leiðarlokum og það er framlag sem ber að virða. Margir misskildustu snillingar heimsins voru snartjúllaðir en nutu virðingar þrátt fyrir allt, einkum á kveðjustundu.

Þó að Bobby hafi verið gloppóttur snillingur hafði hann snilligáfu - hann var ein stjarnan í Íslandssögunni. Þó að hann hafi aðeins í þrjú ár verið íslenskur ríkisborgari; verið í raun með sama bakgrunn sem Íslendingur og þriggja ára barn á leikskóla, hafði hann markað söguna hér fyrr og nú. Sigur hans í einvígi aldarinnar í skák árið 1972 færði honum merkan sess og fyrir það verður hans minnst. Vonandi mun hann hvíla í íslenskri mold, hér vann hann sinn glæstasta sigur og hér fékk hann að lifa frjáls maður á ævikvöldi sínu.

mbl.is Fischer hvíli í íslenskri mold
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Hvar er að finna hugmyndir eða áform um að Fischer verði jarðsettur í þjóðargrafreit á Þingvöllum/Þingvelli? Erum við, ég og hin sem erum ekkii alveg með á nótunum, að missa af einhverju miklvægu?

Herbert Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 19:49

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2, þar var þetta nefnt sem ein af hugmyndum stuðningsmannahóps Bobby Fischer. Fyrsta frétt á Stöð 2 fyrir rúmri klukkustund.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.1.2008 kl. 19:53

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það væri sannarlega við hæfi og vonandi verður það gert.

Sigurður Þórðarson, 19.1.2008 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband