Uppgjöf Björns Inga - tími Framsóknar liðinn

Björn Ingi Stórmerkileg tíðindi felast í því að eini kjörni fulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík gefi út yfirlýsingu um að hann geti jafnvel ekki lengur starfað innan hans eins og Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi, gerði í kvöldfréttum Sjónvarps. Má vel vera að þetta sé aum smjörklípa til að þagga niður fatamálið margfræga, sem hann hefur ekki getað svarað almennilega fyrir nema með útúrsnúningum, en þessi yfirlýsing er stórtíðindi engu að síður.

Ekki mun þessi yfirlýsing gera neitt annað en að veikja undirstöður þessa elsta starfandi stjórnmálaflokks landsins, enn frekar en orðið er, sem er greinilega kominn að fótum fram eins og hvert annað gamalmenni seint og um síðir. Björn Ingi opnar sjálfur í vörn sinni í fatamálinu uppgjöf lykilforystumanns á baklandi sínu innan eigin flokks og opnar með því umræðuna um endalok flokksins algjörlega upp á gátt. Það er greinilega lítið eftir af forystu fyrir það fólk og uppgjöfin ein eftir. Hún vekur athygli. Í kommentum og póstum til mín í gær og í dag hef ég fundið fyrir því að framsóknarfólk reynir að neita að flokkurinn sé að sligast. Það verður erfitt eftir þessa yfirlýsingu, spái ég.

Það fer ekki framhjá neinum manni að Framsóknarflokkurinn er á krossgötum þessar vikurnar. Innri sundrung og óeining er að sliga hann, flokkurinn hefur misst sérstöðu sína síðustu árin og minnir nú æ frekar á flakandi sár. Uppgjöf Björns Inga Hrafnssonar á eigin baklandi og flokkssveit vekur spurningar um það hvort að hann hafi þegar metið það svo veikt að hann geti ekki farið fram aftur í kosningum í nafni þess og sé farinn að líta í kringum sig eftir öðru plássi fyrir sig. Honum tókst með herkjum að ná kjöri í borgarstjórnarkosningunum fyrir tveim árum og greinilegt er á öllu að liðsheildin er það veik núna að hann myndi ekki geta náð kjöri aftur út á hana.

Svo aumt er þetta orðið. Það er stóra yfirlýsing dagsins. Og þetta mun eflaust hafa áhrif um landið allt. Þegar að Framsókn hnígur til viðar í þéttbýlinu er orðið illa komið fyrir þessum elsta starfandi stjórnmálaflokki landsins. Svona er þá komið fyrir höfuðborgarvæðingu Framsóknarflokksins í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Aumt er það orðið.

Mun þessi flokkur lifa fram að næstu kosningum - mun hann verða 100 ára - lifir hann til 2016? Stórar spurningar... en það er ekki nema von að spurt sé eftir atburðarás dagsins.

mbl.is Björn Ingi úr Framsóknarflokki?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hvað gerir Björn Ingi? Verður hann utan flokka eða finnur hann sér annað fley?

Sigurður Þórðarson, 19.1.2008 kl. 22:29

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hann fær sér vinnu í Dressmann eins og Ommi steingur uppá.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.1.2008 kl. 22:53

3 identicon

Ekki grátum við þó hann hverfi úr stjórnmálum, svo mikið er víst.

En Framsóknarflokkurinn rotnaði innanfrá eins og augljóst er orðið. Björn Ingi lék sendisveininn lengi vel í þeirri spillingu allri. Ég hafði á tímabili trú á honum en hann tapaði sjálfstæði sínu þegar hann sveik meirihlutann í borginni.

Björn Ingi sveik Sjálfsstæðisflokkinn og nú toppar hann sjálfan sig og svíkur fólk í Framsókn sem reynir að koma spilltum mönnum, eins og honum,  frá. Guðjón er að stinga á gamalt kýli og Björn Ingi þolir ekki sannleikann. Flokkurinn þarf slíka hreinsun!

Flestir fagna því að svona stjórnmálamaður  snúi sér að öðru en að vinna í almanna þágu. Slíkur eiginhagsmunarsinni eins og Björn Ingi hefur ekkert erindi í stjórnmál Stefán.

En er ekki óþarfi að ræða þetta frekar, hvað þá að gera Björn Inga að aðalfrétt RÚV? Maðurinn er að gera rétt með því að finna sér annað starf. Hann er vonandi að átta sig á því að fólk er ekki fífl.

 Flokkurinn þarf að laga verulega til hjá sér til þess að halda lífi.

Guðjón leggur sig fram við það. Vonandi tekur formaður Guðni af skarið og hendir honum út. Hann svíkur ekki bara samstarfsfólk heldur líka samflokksfólk með því að misnota sjóði flokksins.

Gott hjá Guðjóni að vara við spillingunni.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2008 kl. 23:02

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jónína: Þakka þér fyrir þetta góða komment bloggvinkona. Tek undir hvert orð. Vel skrifað.

Siggi: Kannski er hann að meina það að hætta. Það er öllum ljóst að staða hans er allt önnur eftir að meirihlutinn féll og það þrengist um hann. Hann hefur enga oddastöðu lengur og það er greinilegt að þeir sem áður fóðruðu hann eru farnir að narta í hann. Hvert á hann annars að geta farið? Ekki mun Sjálfstæðisflokkurinn taka við honum aftur, þar á bæ verður honum ekki treyst aftur.

Ásdís: Kannski, það væri skemmtilegt að sjá.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.1.2008 kl. 23:25

5 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Úrslit B-lista í kosningunum 2007:
Utan höfuðborgarsvæðisins: NV: 18,8% - NA: 24,6% - S: 18,7%
Höfuðborgarsvæðið: SV: 7,2% - RS: 5,9% - RN: 6,2%

Framsóknarflokkurinn náði fínum árangri utan höfuðborgarsvæðisins .  Hann náði hins vegar engum árangri á höfuðborgarsvæðinu.  Lausn flokksins hlýtur að liggja í muninum þarna á milli.  Hver er ástæða þessa mikla munar milli þessara tveggja svæða?

Var svona rosalegur munur á forystumönnum og frambjóðendum þessara svæða?  Eru það málefnin sem fara svona rosalega ólíkt ofan í íbúa þessara svæða?  Er svona rosalegur munur á stemningunni í félagsstarfinu milli þessara svæða?  Tiltölulega lítill hópur fólks tekur þátt í innanfélagsstarfi stjórnmálaflokka.  Hversu mikil áhrif hafa þau yfirleitt á gengi flokkanna?

Það væri mjög þarft verk fyrir Framsóknarflokkinn að keyra t.d. 4 rýnihópa, þá sem kusu hann af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og þá sem kusu hann ekki af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.  Kannski eru þeir búnir að því.

Það eru hins vegar afarsérstök vinnubrögð hjá Ólafi að senda bréf merkt "Trúnaðarmál" á mörg hundruð manns þar sem talað er um kjaftasögur án þess að hann komist að því í bókhaldi flokksins hvort hún sé sönn eða röng og segi það líka.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 19.1.2008 kl. 23:29

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Það er nú varla góð framtíð fyrir Framsóknarflokkinn ef hann ætlar að byggja sig bara upp úti á landi. Við þeirri sveitapólitík var Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, að vara í grein rétt fyrir áramót, sem var augljóst skot á forystu Guðna Ágústssonar. Með þessari stöðu sem við blasir nú er það hrunið sem Halldór Ásgrímsson vann að, að höfuðborgarvæða flokkinn. Alveg gjörsamlega búið að mistakast.

Framsókn var nú fjarri því með kjarnafylgi í síðustu kosningum úti á landi. Hann fékk bara einn þingmann í Norðvestri, tvo þingmenn í Suðrinu en fékk þrjá þingmenn hér, sem var stuðningsyfirlýsing við forystu Valgerðar Sverrisdóttur. Prósentulega var það þó áfall fyrir Framsókn hér í fylgisvöggu sinni, enda var flokkurinn að tapa stórt t.d. fyrir austan þar sem enginn frambjóðandi átti í fyrsta skipti í sögu flokksins möguleika á þingsæti.

Það eru spennandi tímar framundan fyrir Framsóknarflokkinn. Það er þó ljóst að flokkurinn er búinn að vera með mælingar upp á tíu prósent, plús eða mínus. Væri allt annað ef að hann væri í stjórnarandstöðu að mælast með 15-20% plús. Þetta heldur sér enn þrátt fyrir tæplega níu mánuði í stjórnarandstöðu.

Það er þó sérstaklega spennandi að sjá hvað er að gerast í Reykjavík. Eru bissness-mennirnir í flokknum; Finnur, Helgi og fleiri af þeim væng ekki bara að dömpa Binga sem kandídat, nota Guðjón Ólaf sem forystumann í því. Ef svo er eru það skilaboð um að þeir ætli ekki að styðja hann meira.

Voru þá slitin á meirihlutanum til einskis unnin til að friða bissnessmenn flokksins.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.1.2008 kl. 23:39

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hann gæti reynt fyrir sér hjá Íslandshreyfingunni.

Sigurður Þórðarson, 20.1.2008 kl. 00:54

8 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Framsóknarflokkurinn fékk 4 kjördæmakjörna menn í kosningunum 2003 í NA en einungis 2 slíka 2007 hinsvegar fékk hann uppbótarmanninn sem áður var frá VG. Það var að vísu mjög sanngjarnt því þeir áttu mest af ónýttum atkvæðum í því kjördæmi en eins og allir vita fer uppbótarþingmennska ekki eftir því heldur ónýttum atkvæðum á landsvísu og síðan eftir kjördæmum. Oft hefur uppbótin því lent á færri atkvæðum en raunin varð að þessu sinni í NA kjördæmi.

Hvað varðar Björn Inga í Reykjavík þá náði hann ótrúlegum árangri miðað við kannanir fyrir kosningar og líklegt má telja að það sé hluti þess fylgis sem skilaði sér til Framsóknarmanna í Alþingiskosningum. Fylgi þeirra þar hafði hreinlega hrunið. Í Reykjavík var Halldór Ásgrímsson formaður flokksins í framboði í kosningunum 2003 og náði þar inn uppbótarmanni það gerðist ekki núna. Nú var Jón Sigurðsson í hans stað sem hafði skyndilega komið inn í formennsku flokksins án þess að hinn almenni flokksmaður hefði valið hann. Á sama tíma var sótt hart að Jónínu Bjartmarz vegna tengdadóttur hennar sem síðar var dæmt ómaklegt ef ég man rétt. Niðurstaðan var sú að flokkurinn helmingar fylgi sitt í báðum Reykjavíkurkjördæmunum.

Ljóst er að Framsóknarflokkurinn lenti í ógöngum í tengslum við formannsbreytingarnar og einnig er það gríðarlega mikil vinna að vera með svo hátt hlutfall þingmanna flokksins á ráðherrastólum eins og flokkurinn var með og því fáir sem þurfa að vinna öll þau verk sem þarf að vinna innan eins stjórnmálaflokks. Það má vera að það fari í skapið á fólki að fáir menn þurfi að vinna mikið þegar þeir eru minnihlutaflokkur við stjórnartaumana en það er örugglega ekki létt fyrir þá sem í því standa. Fyrir okkur sem erum í stjórnmálum á landsbyggðinni er það hinsvegar verðugt umhugsunarefni.

Fámennir flokkar komast oft í lykilstöður sem er einmitt markmiðið með framboði þeirra oft á tíðum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í samstarfi við Framsóknarflokkinn svo árum skiptir eða á meðan það var mögulega hægt. Því er ekki hægt að halda öðru fram en að Sjálfstæðismönnum hafi þótt sérstaklega vænt um þann flokk. Ekki reyndu þeir samstarf við aðra hvorki á landsvísu eða í Reykjavíkurborg ef þeir mögulega gátu myndað starfhæfan meirihluta með þeim. Þeir sem fyrst og fremst hafa stuðlað að völdum Framsóknarflokksins fyrir utan fylgismenn flokksins sem hafa ljáð þeim atkvæði sín eru því Sjálfstæðismenn.

Sjálfstæðismenn ljáðu Framsóknarmönnum styrk sinn og þeir hið sama á móti saman stjórnuðu þeir landinu um langa hríð og borginni eitt augnablik. Mér finnst eins og þið talið um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið eins og saklaus sveitastúlka í þessu öllu saman. Er það líklegt?

Lára Stefánsdóttir, 20.1.2008 kl. 01:16

9 Smámynd: Katrín Ósk Adamsdóttir

Er ekki Sjálfstæðisflokkurinn alltaf eins og saklaus sveitamær ?

Katrín Ósk Adamsdóttir, 20.1.2008 kl. 02:01

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þessi teoría stenst ekki. Flokkurinn var þjaklaður af spillingarmálum einkum formannsins í mörg ár. Jónínumálið lækkaði flokkinn ekki í skoðanakönnunum.

Sigurður Þórðarson, 20.1.2008 kl. 03:39

11 Smámynd: Óðinn Þórisson

Stefán, sammála þér og ekki meira um það að segja en læt eftirfarandi fylgja með.

"Björn Ingi lagði á það áherslu frá upphafi að við værum öll vinir fyrst og síðan samstarfsmenn"
"Óskar Bergsson var mættur og hann lét eins og allt væri í lagi og ekkert hefði í skorist. Þegar nokkur tími var liðinn án þess að Björn Ingi léti sjá sig kom Óskar og sagði "krakkar þetta er búið, samstarfinu er slitið"
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi dv. 04.01.2008

Óðinn Þórisson, 20.1.2008 kl. 10:05

12 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég hef ekki trú á neinum samsæriskenningum eða plotti í Framsóknarflokknum án þess að ég viti svo sem nokkuð hvað þar er að gerast.
Hins vegar held ég að þessi yfirlýsing Björns Inga einkennist mest af stundarpirringi fremur en ígrunduðum hugsunum. Staða Framsóknar er nógu slæm og fréttaflutningur af þessu bréfi Guðjóns er sannarlega ekki til að bæta hana.

Ég hefði viljað sjá þetta bréf í heild sinni. Hvernig um skrif Guðjóns hefur verið fjallað gefur að ég held tilefni til mistúlkunar enda alltaf hægt að rífa svona texta úr samhengi. Þessa tilfinningu fékk ég eftir að hafa lesið Fréttablaðið í morgun en í einhverjum smápistli þar eru birtar setningar úr þessu bréfi sem virkuðu ekki á mig eins og tilgangurinn með því væri að skaða. 

Kolbrún Baldursdóttir, 20.1.2008 kl. 10:29

13 Smámynd: Halla Rut

Hvað gerir maðurinn ekki til að láta vorkenna sér?  Grátur hans virkar ekki eins og tár Hillary Clinton enda eru tár Bjössa komin vegna eigin gjörða en ekki velvilja til þjóðarinnar.

Halla Rut , 20.1.2008 kl. 12:00

14 identicon

Björn Ingi er einungis að undirbúa jarðveginn að hann yfirgefi Framsókn. Ég held að engin eftirsjá verði af honum, hann sveik Sjálfstæðismnn og núna ætlar hann að svíkja sinn eigin flokk. Ég held að hver flokkur sé fegin að losna við þannig fylgismenn sem ekki er hægt að treysta fyllilega og hann virðist með þessari yfirlýsingu sinn ekki vera trauststins verður. Svarar ekki ásökunum nema á þann veg að hann sé hryggur,,, segir ekki einu sinni að þetta sé rangt ef það er rangt þá.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 13:30

15 identicon

Vá,

Orð Guðjóns Ólafs Jónssonar um Björn Inga Hrafnsson í Silfrinu núna rétt áðan munu skapa mikla ólgu á næstu dögum.

Ég iða í skinninu af tilhlökkun.

Ívar (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 13:40

16 identicon

Ekki batnaði staða Framsóknarflokksins eftir þá yfirlýsingu Guðjóns Ólafs að hann væri með mörg hnífasett í bakinu. Hvað heitir þetta á nautabanamáli? Náðarstungan, morte corda?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 13:48

17 identicon

Einhversstaðar stendur, "sér grefur gröf þó öðrum grafi". Ég er ansi hræddur um að Bingi falli nú á sljálfs sín bragði. Sjaldan hef ég orðið vitni af jafn miklum vingli eins og þessi maður er búinn að haga sér undanfarið. Það er engin eftirsjá af honum og verð ég feginn þegar pressan íslenzka verður Bingalaus. Farið hefur fé betra. Fólk eins og hann á ekki skilið að vera fulltrúi, það er að segja lýðræðiskjörinn fulltrúi fólksins. Eitthvað annað vakir fyrir fyrir honum, hvað það er veit ég ekki frekar en þið, það er allavega ekki velferð almennings. Þakka greinina Stefán og öll kommentin og greinargóð svör. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 00:01

18 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Góð analýsa hjá henni Láru og Sigurði Viktor hérna fyrir ofan.  Það er nú reyndar gaman að heyra allt þetta tal um að nú sé Framsókn búin að vera. Ef þetta er dauðastríð þá er það ansi fjörugt.  Ég held að það sé  svona úlfúð vegna þess að þetta er flokkur sem hefur misst völd og ítök  en vegna þeirrar stöðu sem hann var í þá dróst að honum fólk sem þráði völd og ítök og getur ekki sætt sig við að þessi tími er liðinn.

Ég held að það sé alveg þörf fyrir samvinnuflokk með öflugt hugsjónastarf. En flokkur sem er bara búinn til sem einhvers konar eignarhaldsfélag þar sem eignirnar eru allar gufaðar upp er ekki líklegur til afreka. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.1.2008 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband