McCain, Hillary og Romney vinna í forkosningum

Hillary, Romney og McCain Þetta var spennandi forkosningakvöld í Bandaríkjunum. Hillary Rodham Clinton og Mitt Romney sigruðu í Nevada en John McCain náði mikilvægum og sætum sigri í Suður-Karólínu í tvísýnni baráttu gegn suðurríkjamanninum Mike Huckabee, sem gæti orðið til að tryggja stöðu McCain í baráttunni í aðdraganda ofur-þriðjudags eftir hálfan mánuð.

Baráttan um útnefningar flokkanna í forsetakosningunum eftir tíu mánuði er þó enn á fullu og ekkert öruggt enn að heita má, þó frambjóðendum taki nú að fækka. Þó blasir við að barátta demókrata eftir viku í Suður-Karólínu og hjá repúblikunum í Flórída eftir níu daga muni hafa mikil áhrif á framhaldið.


Nokkrir punktar:

- John McCain vann svo sannarlega sætan sigur í Suður-Karólínu. Hann tapaði fyrir George W. Bush í fylkinu fyrir átta árum í svæsnum leðjuslag og vægðarlausu áróðursstríði - náði aldrei aftur flugi í baráttunni fyrir Hvíta húsinu eftir sigra áður í Michigan og New Hampshire. Nú leggur hann fylkið að fótum sér. Sigurinn er taktískt mikilvægur fyrir McCain. Forsetaefni repúblikana hefur ekki verið útnefnt áratugum saman án þess að sigra í Suður-Karólínu. Með þessu fer McCain til Flórída með byr í seglum og stefnir að sigri þar - hefur leitt kannanir í fylkinu nú um tíma. Sigur þar mun tryggja McCain mjög í sessi.

- Mitt Romney vann mikilvægan sigur í forkosningunum í Nevada. Á móti kemur að hann var nærri einn um hituna og hafði sig mest í frammi á meðan að aðrir fókuseruðu á Suður-Karólínu eða Flórída. Sigurinn er gott veganesti fyrir hann í Flórída, svo skömmu eftir að hann tók Michigan, gamla heimafylkið sitt. Hann verður þó að ná góðum árangri í Flórída til að fá byr í seglin fyrir ofur-þriðjudag. Sigrarnir tveir hafa markað Romney sem alvöru frambjóðanda með möguleika, eftir töpin í Iowa og New Hampshire. Hann hefur safnað mestu af þingfulltrúum en þarf að sigra fleiri fylki til að ná alvöru flugi aftur. Flórída er því markmiðið hans nú.

- Mike Huckabee varð fyrir miklu pólitísku áfalli við tapið í Suður-Karólínu. Þó að það hafi vissulega verið naumt var taktískt mikilvægt fyrir hann að taka fylkið. Einkum til að hann fengi á sig sigurblæ í suðrinu. Huckabee er evangelískur suðurríkjapredikari og fyrrum ríkisstjóri í Arkansas (heimafylki Clintons forseta) og þarf auðvitað að sigra í suðurríkjunum til að fólk telji hann eiga alvöru séns. Enn hefur hann bara unnið Iowa en verið þriðji í helstu fylkjum fram að þessu. Nú þurfti hann að vinna til að marka sig áfram sem alvöru kandídat. Hann helst lengur í slagnum, en vindurinn fer fljótt úr seglum hans ef hann nær ekki flugi í Flórída.

- Rudy Giuliani bíður eftir forkosningunum í Flórída, eins og fyrr hefur komið fram á þessum vef. Hann hefur enn ekki safnað neinu af þingfulltrúum að ráði. Hann hefur því færst aftur fyrir aðra frambjóðendur með því að leggja ekki í baráttu í fyrstu fylkjunum í slagnum - hefur enda fengið þar næsta háðuglega útreið og má ekki við mörgum skakkaföllum í viðbót. Það er slappt fyrir hann að hafa ekki fengið meira en fjögur prósent í Nevada t.d. En nú er komið að örlagastundu. Sigur í Flórída getur markað hann aftur sem alvöru frambjóðanda sem gæti gert tilkall til forystu í útnefningaferlinu. Þar reynir á hann.

- Fred Thompson varð þriðji í Suður-Karólínu. Þar ætlaði hann að reyna að eiga endurkomu í slaginn, þurfti að vinna eða ella verða annar. Þessi árangur dugar honum engan veginn til að halda lífi í framboði sínu. Tel öruggt að hann dragi sig út úr slagnum á næstu dögum. Hann þurfti að vera sterkur í suðrinu, enda fyrrum öldungadeildarþingmaður Tennessee, til að geta startað vélinni af alvöru. Það gerðist ekki og hann er úr leik sem alvöru frambjóðandi. Margir bundu vonir við framboð Freds, en hann náði aldrei flugi. Hann kom of seint í slaginn og sýndi aldrei kraftinn og seigluna sem þurfti. Þetta er búið hjá kallinum.

- Ron Paul fékk góða kosningu í Nevada og hefur sýnt vel að hann hefur gott bakland víða. Þó að Paul eigi ekki séns á útnefningu repúblikana verður að dást að því að kallinn hefur seiglu og þrumandi kraft í kosningabaráttu sinni. Hann er ekki að reyna að falla í fastmótað form frambjóðanda og hefur farið eigin leiðir. Það er ekki furða að Paul bendi á að hann sé á pari við Giuliani í slagnum nú, borgarstjóranum fyrrverandi í New York til mikillar skapraunar en flestum öðrum til gleði og gamans.

-----

- Hillary Rodham Clinton vann mikilvægan sigur í Nevada. Það hlýtur að teljast sterkt fyrir hana að takast að sigra með svo góðum mun eftir allt sem á undan var gengið. Obama fékk stuðningsyfirlýsingu stærsta verkalýðsaflsins í fylkinu, en þrátt fyrir það tapaði hann með rúmum fimm prósentustigum. Þessi sigur markar endanlega endurkomu Hillary sem forystuframbjóðanda í útnefningaferli demókrata. Þetta færir henni byr í seglin fyrir kjörið í Suður-Karólínu eftir viku. Sigur þar myndi fara langleiðina með að tryggja hana í sessi fyrir komandi átök og jafnvel tryggja henni útnefninguna. Þar verður hörð og vægðarlaus barátta.

- Barack Obama varð fyrir áfalli í Nevada. Það var vandræðalegt að sjá kosningaherbúðir hans reyna að hrósa sigri í fylkinu vegna skiptingar þingfulltrúa og að hann stæði á pari við Hillary þar og hefði jafnvel unnið. Tölurnar tala sínu máli. Það er greinilega komin upp paník í herbúðum Obama. Eftir sigurinn í Iowa fyrir tæpum þrem vikum fór hann á bylgju stuðnings til New Hampshire. Clinton-hjónunum tókst að stöðva þá bylgju með aðdáunarverðum hætti, þvert á allar kannanir, og virðast hafa náð yfirhöndinni aftur. Það hefur mikið gerst á skömmum tíma, en Obama hefur enn góðan séns og berst meðan að stætt er, fram að ofur-þriðjudegi.

- John Edwards er í raun búinn að vera sem alvöru frambjóðandi. Hann fékk skelfilega útreið í Nevada, aðeins fjögur prósentustig og engan þingfulltrúar, þrátt fyrir að leggja mikið á sig í fylkinu. Edwards mun leggja allt undir í Suður-Kaliforníu eftir viku. Hann tók fylkið í forkosningunum árið 2004 og þarf sigur til að snúa við gæfuhjólinu. Það er eina von hans nú í slagnum, þó ansi veik sé. Hann er fastur milli sögulegra frambjóðenda, fyrstu konunnar og fyrsta blökkumannsins með möguleika á forsetaembættinu. Tel aðeins tímaspursmál hvenær að Edwards dregur sig út úr hinu augljósa einvígi Hillary og Obama.

-----

Áhugaverðar vikur eru framundan í baráttunni um útnefningu flokkanna í forsetakosningunum 4. nóvember nk. Það er ljóst að McCain, Hillary og Romney fara með sterka stöðu í næstu forkosningar flokkanna, sérstaklega McCain sem var mjög sigurreifur í Suður-Karólínu, eftir átta ára sigurbið þar. Nú tekur alvaran við, ofur-þriðjudagur mun verða örlagaríkur en kjörin fram að þeirri vegferð geta þó líka haft þau áhrif að fækki verulega í hópnum. Það er ekki víst að allir fái farmiða fram til þess örlagaríka dags.

mbl.is Clinton og Romney unnu í Nevada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband