Persónuleg átök Clinton-hjónanna og Obama

Hillary Rodham Clinton og Barack ObamaÁtökin á milli Barack Obama og Hillary Rodham Clinton um útnefningu demókrata í forsetakosningunum í nóvember er að verða sífellt persónulegri og harðskeyttari, nú þegar ljóst er að um einvígi þeirra er að ræða og John Edwards í raun úr leik. Um mikið er að tefla og mátti eiga von á að öllum brögðum yrði beitt - þó hefur þetta farið lengra en svartsýnustu menn höfðu spáð. Minnir orðið á skítkastið og áróðursmennskuna sem einkenndi slag Bush og McCain hjá repúblikunum árið 2000 - í þeim skilningi að þetta er vægðarlaus rimma.

Það má reyndar fullyrða nú þegar að ekki verða þau saman í framboði í nóvember fyrir demókrata hvort sem vinnur. Eftir allt sem á undan er gengið þessar vikurnar er óhugsandi að Hillary bjóði Obama varaforsetaútnefningu og Hillary mun ekki fara á framboðið með Obama, nái hann útnefningunni. Það er því ekki nema von að það sé viss kurr í demókrötum yfir því að sá frambjóðandinn sem tapar úr þessu fari í fýlu og dragi sína liðsheild út úr baráttunni og gæti með því auðveldað repúblikunum að halda Hvíta húsinu í fjögur ár. Ólgan þessa dagana er orðin svo harðskeytt að vonlítið er að sameiginlegt sögulegt framboð blökkumanns og konu verði niðurstaðan.

Nú er Obama kominn í hörkurimmu gegn Bill Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna, og virðast þeir skiptast á skotum á hverjum degi og þær verða sífellt hvassari. Sannkallaðir þrumufleygar. Obama sakaði Clinton um að breiða lygasögur út um sig og Clinton var fljótur að svara fyrir sig í gærkvöldi. Enginn friður þarna á milli. Hef reyndar ekki séð Clinton í öðrum eins ham og síðan að hann varðist eins og ljón fyrir því að halda forsetaembættinu fyrir áratug og eða frá því úr forsetakosningunum tveim sem hann vann á tíunda áratugnum. Hann logar eins og eldhnöttur og hefur ekki verið meira hvass og lifandi í ótalmörg ár.

Það er ekki óeðlilegt að Clinton grípi til vopna sinna í þessari stöðu. Að mörgu leyti er barist um yfirráðin í Demókrataflokknum í þessum forkosningum. Clinton-hjónin hafa verið helstu stjörnur flokksins í einn og hálfan áratug - sú staða hefur verið í mikilli óvissu síðan að Obama tók Iowa í byrjun mánaðarins. Þeim tókst þó að stöðva hina miklu bylgju til Obama í New Hampshire, þvert á allar skoðanakannanir og gegn spám allra stjórnmálaspekúlanta, sem höfðu spáð Hillary áður rósagöngu í útnefningaferlinu nær allt síðasta ár. Það er þó vissulega enn óvissa yfir því hvað gerist og baráttan er enn á fullu.

Obama gæti með sigri í Suður-Karólínu á laugardaginn náð aftur svipaðri bylgju og það í suðurríkjunum, því svæði sem var Clinton svo fengsælt í forsetakosningunum 1992 og umfram allt tryggði honum sigurinn í hinni sögulegu baráttu við George H. W. Bush og Ross Perot. Blökkumenn í suðrinu hafa fylkt sér jafnan um Clinton-hjónin og fylgdu þeim og Al Gore alla tíð í blíðu og stríðu á átta ára forsetaferli Clintons, en Gore náði ekki sömu tökum á þeim þegar að suðurríkjamaðurinn George W. Bush sigraði fyrir átta árum. Suður-Karólína verður prófsteinn á styrk þeirra og gæti verið örlagaríkt fylki í þessum slag.

Þessi átök eru svo hatrömm að eðlilegt er að spyrja sig að því hvort að demókratar muni eftir allt saman auðvelda repúblikunum baráttuna, fari svo að McCain taki Flórída í næstu viku og raki saman fylgi á ofur-þriðjudegi, eins og sumir spá. McCain yrði frambjóðandi sem myndi sækja á miðjuna og baráttan við hann gæti orðið tvísýn fyrir demókrata, þó hann sé kominn á áttræðisaldurinn. Átökin um blökkumennina er orðinn að slag hvítrar konu og blökkumanns - þau slíðruðu þó sverðin skamma stund eftir hörð orðaskipti í síðustu viku, þar sem deilt var um hvort dýrkaði meir dr. Martin Luther King. Það var mjög barnaleg umræða.

Rimman um Nevada og túlkun á stöðunni þar, þar sem báðir aðilar hrósuðu eiginlega sigri þrátt fyrir sex prósentustiga sigur Hillary, hefur kveikt bálið aftur og það til mikilla muna. Clinton talar eins og leiftrandi predikari og sparar ekki stóru orðin í heift sinni og Obama svarar í sömu mynt. Átökin um leið orðin persónulegri og flóknari en var fyrir aðeins nokkrum vikum. Þarna er barist um völd og áhrif í einum flokki og stjörnuljóminn yfir þeim slag er orðinn of mikill til að allir geti deilt þeim glampa er yfir lýkur.

Þar liggur stærsta átakalínan, það er verið að berjast um yfirráð í flokknum. Þetta á eftir að verða heljar mikið show fyrir okkur sem fylgjumst með bandarískum stjórnmálum, spái ég. Ef þetta er það sem koma skal mun ólgan í slag þeirra Hillary og Obama verða engu vægari en í sjálfum forsetakosningunum síðla árs.


mbl.is Obama í stríð við Clinton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Svona mál hafa reindar komið upp áður á milli Kenedy og Lindon B Jhonson,og kvað gerði ekki Kenedy hann fekk hann i varaforsetan/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 21.1.2008 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband