Sorgleg örlög Heath Ledger

Heath Ledger í Brokeback Mountain Mjög sorglegt var að heyra af andláti ástralska leikarans Heath Ledger. Á stuttum leikferli sínum tókst honum að komast í fremstu röð; kom til Hollywood sem vonarstjarna frá fjarlægum slóðum og tókst að fá mörg góð tækifæri og virtist á beinu brautinni með sannkölluðum stjörnurullum í kvikmyndaborginni. Andlát Heath í blóma lífsins er dapurleg örlög fyrir hæfileikaríkan leikara og á eftir að verða mikil umræða um dánarorsök hans.

Heath Ledger fæddist í Perth í Ástralíu í apríl 1979. Hann var ungur og ákveðinn maður, staðráðinn frá æskuárum að verða frægur og skráði sig á leiklistarnámskeið. Þegar að Heath var sautján ára ákvað hann ásamt vini sínum að rífa sig upp og halda til Sydney og freista gæfunnar. Þá stóð hann uppi með tvær hendur tómar og þurfti að vinna sig upp. Hann var eitt af fögru andlitunum, átti auðvelt með að komast langt á þokka sínum og stjörnuljóma. Að vissu leyti var hann ferskt andlit í fjöldanum og fyrstu tækifæri sín fékk hann vegna þess að hann þótti myndarlegur og lofa góðu sem ungstjarna.

Fyrsta hlutverk sitt fékk hann í ódýrri og lítt eftirminnilegri mynd, Blackrock, árið 1997. Rullan var smá og fáum hefði órað fyrir er hún kom út að þessi myndarlegi strákur í jaðarhlutverki ætti eftir að verða heimsfrægur og fá öll heimsins leiktækifæri. Hann vann sig upp hægt og hljótt, fékk fleiri auðgleymanleg aukahlutverk en vakti þó æ meiri athygli í heimalandi sínu og varð kyntákn þar á skömmum tíma, heillaði ástralskar ungmeyjar upp úr skónum og þótti vænn kvenkostur. Stóra tækifærið hans Heath kom árið 1997 er hann lék í framhaldsþáttunum Roar, sem urðu vinsælir um allan heim, t.d. hér á Íslandi, og Ledger varð frægur utan Ástralíu.



Hann ákvað að freista gæfunnar í Bandaríkjunum, rétt eins og margir landar hans sem höfðu náð frægð sem leikarar, stökk í djúpu laugina án þess að vita nema að hann færi kannski með skottið á milli lappanna og niðurlægður aftur heim. Með Roar varð hann heimsþekkt nafn í fyrsta skiptið og vakti athygli. Þættirnir gengu í þrjú ár og urðu aðalstarf hans allan þann tíma og þar til að hann varð stórt nafn í Hollywood. Framundan var átta ára leikferill sem færði Heath öll þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða og frægð og frama með öllum pakka stjörnutilverunnar, með hæðum og lægðum - tæplega 20 hlutverk, sem spönnuðu allan skalann og sýndu allar hliðar á persónu hans.

Fyrsta stóra tækifæri hans til að ná heimsfrægðinni langþráðu, utan Roar, kom í kvikmyndinni 10 Things I Hate About You árið 1999. Myndin varð mjög vinsæl og ungt fólk dáði hana mjög, sló í gegn. Heath átti stjörnuleik í burðarhlutverki Patricks og með honum var ungt fólk, sem hefur orðið misjafnlega mikið frægt en hann varð stjarnan í hópnum og óumdeilanlega andlit myndarinnar. Heath sló endanlega í gegn í stjörnurullunni miklu í The Patriot árið 2000. Ástralski leikarinn og leikstjórinn Mel Gibson sá mikið efni í Heath og valdi hann til að leika son karaktersins síns, Gabriel, í myndinni sem hann auðvitað leikstýrði líka.

Myndin færði Heath stjörnuljómann sem varð honum vegarnestið það sem eftir var ferilsins. Á næstu árum tók hann nokkur mjög góð hlutverk, en líka ekkert sérstök. Nægir þar að nefna hlutverk Sir Thatchers í A Knight´s Tale, Sonny í Monster´s Ball, Ned Kelly, Harry í The Four Feathers, Skip í Lords of Dogtown og auðvitað Alex í The Order. Heath hafði er þarna kom sögu rétt fyrir miðjan áratuginn markað sér stöðu í bransanum sem ungi súkkulaðisæti gaurinn með sjarmann og flotta lúkkið sem var hin sterka ímynd karlmennskunnar. Hlutverkin voru þó misjöfn, í mörgum þeirra þurfti hann að sýna tilfinningar. Hann varð ekki bara sæta andlitið, eins og jafnvel var raunin í upphafi, heldur sýndi alvöru tilfinningar og karakter.



Fyrir þrem árum lék Heath í þeirri mynd sem ég tel að verði einn helsti minnisvarði hans. Það þurfti mikið hugrekki fyrir hann að taka að sér hlutverk Ennis Del Mar í Brokeback Mountain. Rullan var allt annað en hann hafði nokkru sinni leikið áður, það var túlkun á öllum skalanum, með sönnum tilfinningum og sálarflækjum. Ástarsaga var það heillin, ekkert nýtt fyrir hann. En þetta var ástarsaga tveggja kúreka sem kynnast er þeir reka sauðfé yfir fjallið Brokeback - falla fyrir hvor öðrum og eiga erótískt ástarsamband í leyni árum saman og búa sér til annað líf, meðfram því sem þeir eiga með konum sínum, með sannri ástríðu.

Ég tel Brokeback Mountain eina sterkustu mynd áratugarins. Hún var sönn ástarsaga, ekkert öðruvísi en margar en hún tók á áleitnu efni og gerði það heilsteypt og svo innilega traust. Það stóð vissulega í mörgum að fjalla um ást í meinum af þessu tagi. Sumir vildu ekki viðurkenna myndina og vildu ekki veita henni verðlaunasess. Sagan mun held ég dæma hana sem tímamótamynd, enda opnaði hún nýjar hliðar á stjörnutilverunni og sýndi tilfinningar samkynhneigðra með öðrum hætti en margar aðrar myndir - og hún fór víðar en margar aðrar slíkar. Það má deila um hvort boðskapurinn sé réttur, en eftir stendur að sagan er heilsteypt.

Heath Ledger fékk mikið lof fyrir glæsilega túlkun sína. Hann snerti mig mjög mikið með leik sínum, enda tók hann þar meiri hæðir en hann hafði nokkru sinni sýnt áður í leiktúlkun sinni og hann toppaði það aldrei í þeim örfáu myndum sem hann gerði síðar á þessum fáu árum sem hann lifði. Hann hlaut enda mörg kvikmyndaverðlaun og var hrósað mjög. Var hin sanna stjarna myndarinnar og sýndi tilfinningar ráðvillts manns með glæsibrag. Ástarsorg er áleitið umfjöllunarefni en það fékk eiginlega nýja meiningu í Brokeback Mountain og samleikur hans og Jake Gyllenhaal var sannarlega sterkur og eftirminnilegur. Yndislegur leikur hjá þeim.



Heath var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn og átti stærstu stjörnustund sína á ferlinum kvöldið sem óskarinn var afhentur fyrir tveim árum í Los Angeles. Deilt hafði verið mikið um hversu mikla möguleika hann átti á verðlaununum. Margir töldu myndina örugga um öll helstu verðlaunin og íhaldssemi kvikmyndaakademíunnar myndi ekki verða fjötur um fót. Þegar á hólminn kom fór svo að akademían treysti sér ekki til að verðlauna Heath og Jake fyrir glæsilega túlkun sína né heldur að veita myndinni verðlaunin sem besta kvikmynd ársins 2005. Aðeins Ang Lee fékk alvöru verðlaun á hátíðinni. En túlkun Heath mun lifa lengi, enda sönn.

Öll heimsins tækifæri blöstu við Heath Ledger á síðustu árum ævi sinnar og hann nýtti mörg þeirra mjög vel. Hann kynntist stóru ást ævi sinnar, leikkonunni Michelle Williams, við gerð Brokeback Mountain árið 2005, en hún lék konu hans í myndinni. Saman eignuðust þau dóttur og virkuðu sæl og loga af lífi og krafti við afhendingu óskarsverðlaunanna fyrir tveim árum. En upp úr sambandi þeirra slitnaði og undir lokin á ævi sinnar var Heath einn á báti, vann mikið og var með nokkrar myndir í vinnslu og á teikniborðinu er hann féll í valinn.

Það verður mikið talað um andlát Heath Ledger á næstu dögum. Hann var stór og skær stjarna á stjörnuhimninum, var vonarstjarna í bransanum. Andlát hans er óvænt og er mjög mikill harmleikur. Það verður rætt um hvað hafi verið banamein þessa hæfileikaríka leikara og þegar eru sögurnar farnar af stað.



En minningin um glæsilegan og traustan leikara með mikla hæfileika mun lifa, þó stjarna hans hafi slökknað alltof fljótt. Af honum er vægast sagt mikil eftirsjá fyrir kvikmyndaáhugafólk um allan heim.

mbl.is Heath Ledger látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórunn Eva

glæsileg færsla ;)

Þórunn Eva , 23.1.2008 kl. 01:49

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Góð færsla hjá þér. En vænn kvenkostur var hann samt ekki.

Þetta eru hræðilegar fréttir, þessi strákur átti svo bjarta framtíð.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 23.1.2008 kl. 03:19

3 Smámynd: Sigurbjörg Sigurðardóttir

Mér líkar mjög vel um færslu þína,gaman að lesa hana.

Sigurbjörg Sigurðardóttir, 23.1.2008 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband