Aðalfundur kjördæmasamtaka ungliða í NA

Sjálfstæðisflokkurinn

Aðalfundur kjördæmissamtaka ungra sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi fór fram sl. laugardag í Kaupangi. Þar hittumst við og ræddum málefni kjördæmisins í aðdraganda kosninga og gengum endanlega frá öllum hliðum varðandi kjördæmasamtökin sem formlega var stofnað til á kjördæmisþingi í Norðausturkjördæmi að Skjólbrekku í september 2005. Með ræðu sem ég flutti þá kynnti ég stofnun samtakanna og jafnframt að það væri vilji okkar allra að vinna meira og betur saman, formenn allra félaga, stjórnarmenn í SUS og trúnaðarmenn ungliða í kjördæminu. Er þetta mikilvægt skref og nú höldum við í verkefnin, enda er kosningaveturinn hafinn.

Ég stýrði fundinum á laugardag og var í pontu nær samfellt í um tvo klukkutíma. Fyrir fundinum lágu lagatillögur sem voru unnar fyrir fundinn, en eftir var það verkefni að setja sambandinu lög. Var á fundinum kynnt tillaga stjórnarinnar og fór ég lið yfir lið yfir þau. Var það notaleg yfirferð og voru góðar umræður meðal fundarmanna um þessi mál. Finnst mér vera notalegur andi í þessum hópi. Við viljum vinna sameinuð að okkar málum og það er mikilvægt að efla samstöðuna vel. Þetta er besta leiðin til þess að okkar mati. Á fundinum voru umræður um starfið síðasta árið, hvað megi bæta og hvað sé framundan. Ekkert nema verkefni eru framundan og við erum tilbúin til verka.

Að fundi loknum fórum við og fengum okkur góðan kvöldverð og enduðum kvöldið með því að kynna okkur menningarlífið í bænum. Þetta var því virkilega góður dagur og okkur líst vel á verkefnin framundan. Líst mér vel á að stýra þessu verkefni með öðrum góðum félögum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband