Slæm staða Framsóknarflokksins

Jón Sigurðsson

Það vekur mikla athygli að sjá nýjustu könnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna. Staða Framsóknarflokksins batnar ekki í henni, svo vægt sé til orða tekið. Fylgi flokksins mælist nú 9% á landsvísu. Fylgi flokksins mælist mest hér í Norðausturkjördæmi. Þar er það 20%. Næstmest er það í Norðvesturkjördæmi en þar er mælingin upp á 16%. Í Suðurkjördæmi mælist Framsóknarflokkurinn með 14%. Það er því greinilegt að stærst mælist flokkurinn á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu myndi flokkurinn einfaldlega þurrkast út. Í Reykjavíkurkjördæmunum báðum er fylgið 5%. Verulega athygli vekur að minnst er fylgið í Suðvesturkjördæmi, aðeins 4%.

Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa á að sjá að fylgi Framsóknarflokksins er minnst í kjördæmi heilbrigðisráðherrans Sivjar Friðleifsdóttur, sem gaf kost á sér til formennsku flokksins í ágúst. Ekki er hægt að segja að staða formanns flokksins sé sterk þrátt fyrir það. Í Reykjavík norður, þar sem flest bendir til að hann fari fram að vori er flokkurinn prósentustigi stærri en í kraganum. Merkilegt er svo að sjá að í könnun um mælingu á ráðherrum styðja fleiri framsóknarmenn Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, og Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins en formann sinn. Þetta hlýtur að vera vandræðaleg útkoma.

Framsóknarflokkurinn á erfiðan vetur fyrir höndum. Þar munu örlög þessa aldna flokks ráðast. Staða hans virðist heilt yfir verulega döpur, en þó sterkust í landsbyggðarkjördæmunum. Í Norðaustri t.d. missir hann töluvert fylgi en heldur þó meiru en margir áttu von á. Í þéttbýlinu er aðeins sviðin jörð sem blasir við flokksforystunni. Í Suðurkjördæmi er staðan líka ekki beysin fyrir Guðna Ágústsson. Þetta verður vetur örlaganna fyrir Framsóknarflokkinn. Þar mun reyna á ráðherra flokksins og formanninn, sem flytur í dag jómfrúrræðu sína á Alþingi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband