Sigríður Ingvarsdóttir gefur kost á sér

Sigríður Ingvarsdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, hefur nú tilkynnt formlega um framboð sitt í 2. - 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum. Sigríður sat á þingi 2001-2003, kom á þing við afsögn sr. Hjálmars Jónssonar, og var þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra. Hún skipaði fjórða sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í kosningunum 2003 og féll af þingi, enda hlaut flokkurinn aðeins tvo menn kjörna í kosningunum. Sigríður hefur verið fyrsti varamaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá afsögn Tómasar Inga Olrich af þingi við lok ársins 2003 og tekið nokkrum sinnum sæti á kjörtímabilinu.

Það er varla undrunarefni að Sigga vilji reyna á framboð og það áttu langflestir hér von á þessu framboði. Skiljanlegt er að hún vilji láta reyna á stöðu sína, verandi í þeirri stöðu sem hún hefur sem varaþingmaður og fyrrum þingmaður af hálfu flokksins. Nú styttist óðum í kjördæmisþing flokksins í Norðausturkjördæmi, en það verður haldið að Skjólbrekku helgina 14. - 15. október nk. Þar verður tekin afstaða til þess hvort prófkjör eða uppstilling fari fram við val á framboðslistanum. Fyrir liggur tillaga stjórnar kjördæmisráðs um að fram fari prófkjör fyrir lok nóvembermánaðar.

Telja má fullvíst að Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, tilkynni um leiðtogaframboð sitt í kjördæminu eigi síðar en á aðalfundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri að kvöldi mánudagsins 9. október. Mikið er ennfremur spáð um á hvaða sæti Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA, sem skipaði sjötta sæti framboðslistans árið 2003, muni stefna, en lengi hefur hann talað um framboð sitt víðsvegar innan flokksins. 

Það er alveg ljóst að margir bíða ákvörðunar þeirra tveggja um framboð. Það ræðst enda margt af því hvernig Akureyringar skipa sér í fylkingar, svo einfalt er nú það bara. Það stefnir í mjög spennandi prófkjör hér að mínu mati. Það verða mjög mikil átök um efstu sæti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband