Spennandi kosningabarátta í Bandaríkjunum

Þinghúsið

Það stefnir í spennandi kosningar í Bandaríkjunum til öldunga- og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Repúblikanar eiga í vök að verjast á mörgum vígstöðvum. Ofan á allt annað veikir það stöðu flokksins nú að einn þingmanna repúblikana í fulltrúadeildinni, Mark Foley, hrökklaðist frá þingsetu í kjölfar þess að fjölmiðlar birtu vafasama kynferðistengda tölvupósta og skilaboð sem hann hafði sent til unglingspilta sem vinna sem sendiboðar í þinghúsinu í Washington. Í kjölfar þess hafa raddir orðið háværar um að Dennis Hastert, forseti fulltrúadeildarinnar, víki. Hefur George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, slegið skjaldborg um Hastert og um leið fordæmt Foley.

Kosningar verða í Bandaríkjunum eftir nákvæmlega mánuð. Þetta hneykslismál virðist í fljótu bragði geta skaðað flokkinn það mjög að hann missi fulltrúadeildina hið minnsta. Fari svo að Hastert hrökklast frá forsetaembættinu í fulltrúadeildinni fyrir kosningar mun það aðeins skaða flokkinn. Reyndar má með ólíkindum teljast að Hastert skuli ekki hafa brugðist fyrr við í tilfelli Foleys og farið nánar í saumana hvað varðar óásættanlega framkomu hans. Þetta allt eru erfiðar umræður fyrir repúblikana. Það eina sem þeir geta gert er að verja Hastert og reyna með því að vona að umræðan róist. Ekkert við þetta mál er þó gott og hæglega má fullyrða að jafnt verði í deildinni.

Lieberman og Bush

Staðan í öldungadeildinni er ekki heldur það sterk að öruggt geti talist miðað við umræðuna vestra þessa dagana. Mesta spennan ríkir væntanlega um þingsætið í Connecticut. Í forkosningum demókrata í fylkinu í ágústbyrjun varð Joe Lieberman, öldungadeildarþingmaður, undir í slag við hinn lítt þekkta Ned Lamont. Hann háði baráttuna gegn Lieberman á þeim grunni að þingmaðurinn væri stuðningsmaður Íraksstríðsins og hefði stutt Bush forseta á vettvangi þingsins. Lamont notaði óspart myndskeið frá ræðu forsetans í sameinuðum deildum þingsins snemma árs 2005 þar sem að Bush gekk til Lieberman og kyssti hann á kinnina. Lieberman tapaði kosningunum á Íraksstríðinu.

Staða hans er hinsvegar vænleg í væntanlegum kosningum í fylkinu, þar sem hann fer fram sem óháður frambjóðandi gegn Lamont. Lieberman hefur haft yfirhöndina í nær öllum skoðanakönnunum síðustu vikurnar og stefnir að óbreyttu því í sigur hans. Eins og staðan er t.d. nú hefur Lieberman forskot upp á 5-10%. Flestir forystumenn demókrata sem studdu Lieberman í forkosningunum styðja nú Lamont. Það yrði mikið áfall fyrir demókrata ef Lieberman tekst að halda þingsæti sínu nú sem óháður. Lieberman var varaforsetaefni Al Gore árið 2000 og gæti orðið þeim óþægur ljár í þúfu haldist hann áfram inni. Lieberman hefur setið á Bandaríkjaþingi frá árinu 1989.

En þetta verða spennandi kosningar. Það stefnir í átök á öllum vígstöðvum og verður sérstaklega athyglisvert að fylgjast með hversu illa þetta hneykslismál skaðar repúblikana í fulltrúadeildinni. Stóra spurning baráttunnar er þó hvort repúblikanar halda velli. Það verður sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig fer með öldungadeildina. Ég mun á næstu vikum fara nánar yfir stöðuna vestra, eftir því sem styttist sífellt í kjördaginn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband