Merkileg umræða um varnarmál á þingi

Alþingi

Ég fylgdist áðan lauslega með umræðum um varnarmál á Alþingi. Þar flutti Geir H. Haarde, forsætisráðherra, munnlega skýrslu um niðurstöðu varnarviðræðnanna við Bandaríkin og fór yfir stöðu mála á þeim þáttaskilum að bandaríski herinn hélt héðan á brott um síðustu helgi. Það markaði endalok 66 ára hersetu á Íslandi og þar af lykilbreytingar á 55 ára gömlum varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Forsætisráðherra flutti ítarlega ræðu um málið og við tók umræða um stöðuna sem uppi er nú við þessi þáttaskil í varnarmálum landsins. Það var miklu fróðlegra að hlusta á umræðuna, en ég hafði búist við áður, þó að ég átti von á að þar kæmu fram ólíkar skoðanir.

Það fer ekki á milli mála hversu ólíkar meginlínur liggja í öryggis- og varnarmálum milli t.d. Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Þær komu mjög áberandi fram bæði í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi og ekki síður í umræðunni á þingi í dag. Greinilegt er að Samfylkingin firrir sig allri ábyrgð á varnarmálum og spilar sig stikkfría. Þetta eru svosem engin stórtíðindi, en teljast þó stór í sögulegri merkingu sé litið til þess hvaðan að Samfylkingin er ættuð. Einu sinni áður en þetta allrahanda vinstritól var stofnað átti það að sækja rætur inn í gamla Alþýðuflokkinn. Utanríkispólisía Samfylkingarinnar á ekkert skylt við þær rætur. Svo mikið er víst.

Eitt sinn var það nú svo að lýðræðisflokkarnir íslensku studdu allir sem einn það sem vestrænar þjóðir voru að gera og voru með viss áþekk meginstef í utanríkismálum. Nú hefur það greinilega gerst að gamla Alþýðubandalagið hefur náð yfirhöndinni í Samfylkingunni í utanríkismálum. Það blasir við öllum sem horfa á þá stefnu sem frá þingmönnum flokksins kemur. Þar eru enda nú í forystusveit rauðsokkur og gamlir sófakommar. Ég hélt að ég myndi aldrei skrifa eða segja þetta en jæja hér læt ég flakka það: ég sakna áherslna og skoðana gömlu kratanna í utanríkismálum, einkum varnar- og öryggismálum. Þær skoðanir eru orðnar algjört eyland í því vinstrajukki sem Samfylkingin er. Þar eru áherslur og hjal gamaldags sossa í forgrunni og virðast vera ráðandi í stefnutali.

Þetta er merkileg niðurstaða umræðnanna í dag. En mér fannst forsætisráðherra komast vel að orði og fara vel yfir stöðu mála. En enginn hefur reyndar orðað Samfylkinguna og ráðleysi hennar betur en Davíð Oddsson. Hann var flottur á þingi fyrir tveim árum er hann kom í pontu og sagði að Samfylkingin væri eins og hver annar afturhaldskommatittsflokkur. Það er nú sem þá rannsóknarefni fyrir sagnfræðingana að greina hvað varð um kratana og áherslur þeirra í öryggis- og varnarmálum eftir að Alþýðuflokkurinn varð hornreka aumingi innan Samfylkingarinnar.

mbl.is Furðar sig á því að Samfylkingin firri sig ábyrgð á varnarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er eins og Samfylkingin þori ekki að taka afstöðu til stórra mála. Hún vill ná sem flestum atkvæðum í vor með því að móðga sem fæsta, en það sem gerist er að hún heillar engan heldur. Held ég.

Villi Asgeirsson, 4.10.2006 kl. 20:40

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Er alveg sammála þér Villi. Þetta er vandi þeirra umfram allt annað. Þau eiga að vera ferskur jafnaðarmannaflokkur með gildi og áherslur jafnaðarmanna en vera ekki að leika gamla sófakomma og sossa. Mitt mat allavega. :)

mbk. Stefán Fr.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.10.2006 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband