Sigríður Anna Þórðardóttir gefur ekki kost á sér

Sigríður Anna Þórðardóttir

Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður og fyrrum ráðherra, tilkynnti á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í kvöld að hún myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í komandi þingkosningum. Það eru nokkur tíðindi að Sigríður Anna hafi ákveðið að draga sig í hlé, en hún hefur verið öflug í forystusveit flokksins undanfarin 15 ár og gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Hún var kjörin til setu á Alþingi Íslendinga árið 1991. Hún gegndi formennsku í menntamálanefnd Alþingis 1991-2002, utanríkismálanefnd 2002-2003 og umhverfisnefnd 2003-2004. Sigríður Anna var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1998-2003.

Sigríður Anna Þórðardóttir er eini þingmaðurinn í sögu Sjálfstæðisflokksins sem gegnt hefur embætti umhverfisráðherra, en hún sat á ráðherrastóli 2004-2006. Hún var vinnusöm og dugleg sem ráðherra, eins og í öðrum verkum. Fannst mér hún standa sig betur en nokkur annar ráðherra málaflokksins til fjölda ára og hún leiddi fjölda mála innan ráðuneytisins af miklum krafti. Það segir mest um verk hennar að meira að segja stjórnarandstæðingar sáu eftir henni er hún hætti sem ráðherra. Það var okkur sjálfstæðismönnum mikil vonbrigði að hún skyldi ekki verða áfram ráðherra við uppstokkunina innan ríkisstjórnarinnar við afsögn Halldórs Ásgrímssonar í sumar.

Persónulega vil ég þakka Siggu öll verk hennar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, nú við þessi þáttaskil hennar. Hún hefur verið duglegur félagi í flokksstarfinu og lagt sig alla fram í verkin fyrir hönd flokks og þjóðar á sínum stjórnmálaferli. Sérstaklega vil ég þakka allt sem hún hefur gert fyrir mig í minni pólitík, t.d. gestapistilinn góða sem ég bað hana að skrifa til okkar ungliðanna á sus.is fyrir um ári, og lagt af mörkum fyrir okkur flokksfélaga hér fyrir norðan, en hún hélt hér öflugan fund um umhverfismál í samráði við Sjálfstæðisfélag Akureyrar hér í sinni ráðherratíð og sýndi okkur hvers hún mat flokksstarfið hér á svæðinu.

Það er mikil eftirsjá af Siggu að mínu mati og við hæfi að henni sé þakkað fyrir sitt góða verk. Ég vil óska henni alls góðs á nýjum vettvangi, þegar að stjórnmálaferlinum lýkur.


mbl.is Sigríður Anna Þórðardóttir hyggst hætta á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SM

,,Hún var vinnusöm og dugleg sem ráðherra, eins og í öðrum verkum." - Þetta finnst mér mjög patronizing ummæli, kannski sagt af því að hún er kona? Er svona orðalag nokkurn tímann haft við um karlmenn?

SM, 5.10.2006 kl. 11:51

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er einfaldlega sagt vegna þess að hún hefur alla tíð verið mjög vinnusöm og dugleg í sínum verkum. Þetta er bara staðreynd, allavega að mínu mati. Ég hef þekkt þennan stjórnmálamann í áraraðir og tala því um manneskjuna útfrá þeim kynnum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 5.10.2006 kl. 13:20

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband