Umhverfisstefna í felulitunum

ISG

Fyrir nokkrum vikum kynntu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og félagar hennar svokallaða umhverfisstefnu, sem gerði ekki ráð fyrir nýjum stóriðjukostum næstu fimm árin. Þar var Kristján L. Möller reyndar með kökkinn í hálsinum við að tala sér þvert um geð, en hvað með það. Vandræðin voru ekki fullnumin þar, fjarri því. Kynningunni hafði varla lokið á blaðamannafundinum þegar að flokksfélagar Ingibjargar Sólrúnar sem eru í forystusveit Samfylkingarinnar um allt land voru komnir í fjölmiðla með grátstafinn í kverkarnar lafmóðir við að tilkynna nú kjósendum sínum að auðvitað yrði stóriðjukosturinn heima í héraði fyrstur á dagskrá. Þetta ætti ekki við það.

Það var með ólíkindum að horfa á þennan vandræðagang Samfylkingarinnar. Þau komu í fjölmiðla eitt af öðru: Örlygur Hnefill Jónsson, varaþingmaður á Húsavík, Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs á Akureyri, Jón Gunnarsson, alþingismaður í Reykjanesbæ, Anna Kristín Gunnarsdóttir alþingismaður í Skagafirði, og svona mætti lengi telja. Ekki fyrr hafði heldur kynningunni lokið en farið var að rifja upp afrek Samfylkingarinnar innan R-listans, t.d. í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur þar sem farið var yfir fjölda virkjunarkosta og verkefna á vegum fyrirtækisins. Þessi umhverfisstefna fuðraði því hratt upp eins og flugeldur á hinu fallegasta gamlárskvöldi.

Í dag berast fréttir af því t.d. að skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt að í aðalskipulagi verði gert ráð fyrir og sýnd möguleg svæði til virkjunar Héraðsvatna, einkum við Villinganes og Skatastaði. Hverjir fara nú annars með völd í Skagafirði? Jú, það eru Samfylking og Framsóknarflokkur. Samfylking mun t.d. stýra fyrrnefndri bæjarnefnd sem samþykkti þetta. Það fer því ekki saman tal og ákvarðanir innan Samfylkingarinnar. Annars er þessi stefna greinilega vandræðabarn flokksins og virðist hvorki falla í kramið né vera sett fram að vilja og með áhuga flokksmanna. Það sést altént vel af öllum vinnubrögðunum.

Er annars rétt sem sagt er að umhverfisstefnan brjóstumkennanlega hafi verið samin af einum manni í starfi á flokkskontórnum? Heyrast hafa sögusagnir um að Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hafi verið settur beinlínis í þetta verk að búa til stefnu um málið. Hann virðist hafa verið kallaður til verka til að reyna að muna hversu margir stóriðju- og virkjunarsinnar væru í Samfylkingunni. Þar sem ég starfa í flokki er fyrirbæri sem heitir landsfundur þar sem starfa málefnanefndir sem móta drög að ályktunum sem fara svo fyrir landsfundinn. Það er hið sanna lýðræði, ekki það að skipa einvald við alla stefnumótun.

Vandræði Samfylkingarinnar virðast sér fá mörk eiga þessar vikurnar. Þessi umhverfisstefna í felulitunum er eitt klúðrið. Á meðan að andstæðingar hlæja að henni eru forystumenn flokksins um hinar dreifðu byggðir að sverja hana af sér eins og erfðasyndina. Þessi fagurgalastefna flokkast því sem hver önnur mistök höfuðborgarmiðuðu forystunnar sem er að reyna að vera hip og kúl á kostnað landsbyggðarforystunnar. Skondið fyrirbæri þessi stefna í felulitunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband