Prófkjör eða uppstilling í Norðvestri?

Norðvesturkjördæmi

Það stefnir í spennandi kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi á Ísafirði um helgina. Stjórn kjördæmisráðs leggur ekki til eina tillögu um hvernig valið verði á lista. Það verður kosið á milli þess hvort fram fari prófkjör eða stillt verði upp á lista af kjörnefnd. Þetta verður því væntanlega átakaþing, enda eru kjörnir fulltrúar varla sammála um það hvora leiðina eigi að fara. Lengi hafði verið rætt um það að nær öruggt væri að stillt væri upp en eitthvað virðist það hafa breyst og stjórnin leggur ekki fram neina afgerandi tillögu. Fundarmenn fá því valdið í hendurnar. Það má telja að þetta verði því spennandi þinghald.

Þegar liggur fyrir að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fara fram. Í kosningunum 2003 hlutu Sturla Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson. Í næstu sætum á eftir urðu Guðjón Guðmundsson, Adolf H. Berndsen, Jóhanna Pálmadóttir og Birna Lárusdóttir. Í aðdraganda kosninganna var haldið umdeilt prófkjör í kjördæminu. Þar munaði rétt rúmlega 40 atkvæðum að sveiflur yrðu með þeim hætti að Sturla yrði undir fyrir Vilhjálmi Egilssyni, sem varð fimmti, og þeir hefðu sætaskipti. Vilhjálmur tók ekki sætið og umræða varð um brot á prófkjörsreglum vegna utankjörfundarkosningar.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig verður með stöðu mála. Það er ljóst að flokkurinn á tvo ráðherra í kjördæminu. Sturla hefur verið samgönguráðherra frá 1999 og Einar Kristinn sjávarútvegsráðherra frá haustinu 2005. Báðir hljóta þeir að vilja leiða listann. Einar Oddur fer svo aftur fram. Auk þeirra hafa Borgar Þór Einarsson, formaður SUS, Bergþór Ólason, aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, og Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og varaþingmaður, tilkynnt um áhuga sinn á framboði. Það má því búast við spennandi prófkjöri verði sú ákvörðun ofan á. Það eru skýrar fylkingar þarna og spennan um hvaða leið verður ofan á við að velja listann.

Í kosningunum 2003 fékk Sjálfstæðisflokkurinn góða útkomu í Norðvesturkjördæmi. Það var eina kjördæmið þar sem flokkurinn annaðhvort hélt sinni stöðu nokkurnveginn og bætti örlitlu við sig. Það gerðist þrátt fyrir umdeilt og harðvítugt prófkjör sem skilaði fylkingamyndun og illindum. Nú er spennan enn í Norðvestri og verður fróðlegt að sjá hvaða leið verður ofan á um helgina.

mbl.is Kosið á milli tveggja kosta við uppstillingu á lista í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband