Glansandi gott viðtal við Björn í Silfrinu

Björn Bjarnason Það var mjög áhugavert að horfa á ítarlegt og vandað viðtal Egils Helgasonar við Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, í Silfrinu í dag. Þar var farið ítarlega yfir stöðu mála - eins og Björns er von og vísa var ekki töluð nein tæpitunga og talað hreint út um mál. Merkilegust fannst mér afgerandi yfirlýsing Björns um að hann ætlar sér að sitja á þingi út kjörtímabilið. Það hefur mikið verið skrafað um stöðu hans og mjög gott að hann tali hreint út um pólitíska framtíð sína.

Það hefur alltaf mátt treysta því að hann hafi skoðanir og láti í sér heyra um hitamál samfélagsins, á meðan að sumir aðrir ráðherrar eru mun minna áberandi og halda sér einum of mikið til hlés. Hann hefur verið í stjórnmálum af lífi og sál eins og verk hans og netskrif sýna vel, en hann hefur haldið úti heimasíðu af meiri dugnaði en nokkur íslenskur stjórnmálamaður, en margir þeirra verða hreinir aumingjabloggarar þegar að kosningum og prófkjörum sleppir, sem betur fer er þeim þó að fjölga sem nota netið til að tala milliliðalaust til umbjóðenda sinna og landsmanna allra.

Það sem vakti mesta athygli mína er að Björn talaði fjarri því eins og hann sé að fara að hætta á næstu mánuðum. Þvert á móti var hann í stuði í dag, var ekkert að hika við að gagnrýna eitt og annað í borgarmálum og gerði upp við pólitíska andstæðinga, suma undir rós en aðrir fengu væn skot. Sú yfirlýsing sem mér fannst merkilegust, fyrir utan skýr svör um næstu skref Björns í stjórnmálum, snerist um Evrópumál en ég er sammála honum um að það muni hrikta í stoðum flokkanna ef Evrópumál verða sett á dagskrá af meiri þunga en nú er.

Ekki er útlit fyrir að almenn samstaða myndu vera til staðar í þeim um Evrópuáherslur, t.d. í Sjálfstæðisflokknum. Fannst reyndar vanta að Egill myndi spyrja Björn um skoðun Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, hvað varðar Evruuppgjör fyrirtækjanna og tengd mál. Varð ekki var við spurninguna og beið satt að segja eftir henni, en af orðum Björns að dæma er enginn Evrópuhugur í honum og skal engan undra. Það er engin sátt um að Evrópuvæða Sjálfstæðisflokkinn og verður ekki.

Það er orðinn mjög langur tími síðan að Björn hefur verið gestur Egils í Silfrinu. Telst til að hann hafi ekki farið til Egils í vel á þriðja ár, ef mig minnir rétt. Skot hafa verið milli þeirra á netinu og lífleg skoðanaskipti um hin og þessi mál. Það var gott að sjá Björn leiftra af fjöri og orðfimi í Silfrinu. Þetta var gott viðtal. Þeir sem hafa talið að Björn sé búinn að vera í pólitík hafa eflaust orðið fyrir vonbrigðum í dag með þetta góða viðtal.

mbl.is Björgunarsveitarmenn í varalið lögreglu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Björn er vinnusamur maður, setur sig vel inn í mál og gerir sitt besta. Og já, hann sveiflast ekki til eftir tískustraumum. Hann er því vissulega umdeildur, en það má alltaf treysta því að Björn geri ávallt sitt besta. Hann er ekki allra, en vinnur sín verk af heiðarleika og nákvæmni. Það skiptir máli.

Það er enginn ráðherrastóll öruggur. Á þeim tímum þegar að borgarmeirihlutar koma og fara er enginn öruggur með neitt í pólitík. Ekki vantar dæmin um pólitískar sviptingar. En það er sterk yfirlýsing að Björn segist ekki hætta í pólitík á tímabilinu. Með því er þessari stóru spurningu um pólitíska framtíð hans í raun svarað.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.2.2008 kl. 00:06

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ekki svaraði Björn svo sagðist sitja á Alþingi út tímabilið/sagði lifa eg ræð því sjálfur hversu lengi eg verð Ráðherra,þetta er ekki rétt hjá honum Geir Haarde ræður þessu,Mer finnst persónulega komin á hann tími að hætta/er hann búin að gleyma hvernig honum gekk i Borginni/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 4.2.2008 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband