Undarleg fréttamennska

Alþingi

Það var mjög undarleg fréttamennska sem blasti við okkur áhorfendum kvöldfrétta Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um varnarumræðurnar á þingi. Það eina sem vísað var til í þessari frétt voru einhliða ummæli þriggja þingmanna Samfylkingarinnar. Glefsur komu úr ræðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, og Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Annað var það nú ekki. Það vekur mikla athygli að ekkert kom úr ræðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, né heldur Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Um var að ræða eitt sjónarhorn á öryggis- og varnarmálin.

Spurning vaknar við þetta við stöðu fréttastofu NFS þegar að svo einhliða og undarlegt sjónarhorn er sett á stöðu mála. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að skoðun Samfylkingarinnar komi fram en það er stórundarlegt að ekki sé víðara sjónarhorn á hinar löngu og ítarlegu umræður í þinginu. Það vekur mikla athygli að Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sé enn þingfréttamaður Stöðvar 2. Móðir hennar, Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrum alþingismaður Alþýðubandalagsins og Samfylkingarinnar, er í prófkjörsframboði fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi. Undarlegt var að Þóra Kristín skyldi fjalla um framboðsmál sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi um síðustu helgi.

Mér finnst svona einhliða sjónarhorn vart boðlegt og það kastar rýrð á fréttastofuna sem trúverðuga. Það á að vera markmið þeirra sem segja fréttir að báðar hliðar komi fram og þeim sé gert jafnt skil og ekki hallað í aðra áttina. Það sem sást í fyrrnefndri frétt telst ekki eðlileg fréttamennska og vekur margar spurningar að mínu mati.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband