Fredrik Reinfeldt tekur við völdum í Svíþjóð

Fredrik Reinfeldt

Fredrik Reinfeldt var í dag kjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar á sænska þinginu. 175 þingmenn kusu Reinfeldt en 169 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn honum. Reinfeldt mun á morgun kynna ráðherralista sinn og flytja stefnuræðu sína í þinginu. Hann verður fjórði forsætisráðherra borgaralegra afla í sænskum stjórnmálum síðustu áratugina. Við embættistöku Reindeldts lýkur valdaferli Göran Persson, sem verið hefur forsætisráðherra í áratug, frá árinu 1996. Valdaferill sænskra jafnaðarmanna hefur staðið í áratugi, að undanskildum tveim tímabilum, 1976-1982 og 1991-1994.

Síðasti hægrimaðurinn sem var forsætisráðherra í Svíþjóð var Carl Bildt á árunum 1991-1994. Thorbjorn Fälldin og Ola Ullsten sátu við völd á árunum 1976-1982. Mikil þáttaskil verða með þessum valdaskiptum. Sænskir jafnaðarmenn hafa haft gríðarleg áhrif og lykilleiðtogar valdaskeiðs þeirra hafa verið gríðarlega valdamiklir. Tage Erlander var t.d. forsætisráðherra Svíþjóðar í 23 ár, 1946-1969 og Olof Palme var forsætisráðherra 1969-1976 og 1982-1986, er hann féll fyrir morðingjahendi í miðborg Stokkhólmar. Kratar voru lengi að fylla skarð hans. Eftirmenn Palmes, Ingvar Carlsson og Göran Persson, voru þó vissulega öflugir leiðtogar.

Sænsk pólitík hefur því lengi verið mjög vinstrilituð og áherslurnar vinstritengdar. Nú breytist það og aftur hefst valdaskeið borgaralegra afla í landinu. Þessar breytingar marka krossgötur fyrir sænska jafnaðarmannaflokkinn. Göran Persson mun hætta sem leiðtogi jafnaðarmanna í marsmánuði. Þar er enginn afdráttarlaus eftirmaður á leiðtogastóli til staðar. Mikið var talað eftir ósigurinn meðal jafnaðarmanna um að Margot Wallström yrði eftirmaður hans. Hún hefur nú með öllu aftekið að hún verði í kjöri. Helst er talað um Thomas Bodström, Carin Jämtin, Wönju Lundby-Wedin, Monu Sahlin, Leif Pagrotsky, og Pär Nuder sem leiðtogaefni nú.

En já, Reinfeldt er tekinn við. Valdaskeiði sænskra krata er lokið í bili og nú geta borgaralegu öflin tekið til við að efna sín kosningaloforð og stýra af krafti. Nú reynir á þau öfl hvernig að þeim muni ganga að vinna saman af þeim krafti sem lofað var.

mbl.is Reinfeldt kjörinn í embætti forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband