Guðmundur og Róbert í þingframboð

Guðmundur Steingrímsson Róbert Marshall

Fjölmiðlamennirnir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall hafa nú gefið kost á sér í prófkjör Samfylkingarinnar í Suðvestur- og Suðurkjördæmi. Guðmundur, sem er sonur Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, var til fjölda ára virkur í stúdentapólitíkinni en lítið sinnt pólitík síðan. Stefnir hann nú á öruggt sæti í kraganum. Það stefnir í spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni í kraganum, en þegar hafa 14 gefið kost á sér og stefnir í að hið minnsta 15 muni fara fram, ef marka má þá frétt að Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður, fari fram þar ennfremur, en hann er nú varaþingmaður Samfylkingarinnar í borginni.

Róbert Marshall, sem stýrði fréttastöð 365-miðla NFS fram í andlátið, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og gefur kost á sér í 1. - 2. sætið í Suðurkjördæmi. Róbert er þó enginn nýgræðingur í pólitík, enda var hann formaður ungra alþýðubandalagsmanna hér fyrir áratug og var formaður ungliðahreyfingarinnar sem mynduð var úr flokksbrotunum í sameiningarferlinu sem síðar varð Ungir jafnaðarmenn. Róbert er því öllu vanur og heldur ótrauður í slaginn við þá þingmenn Jón Gunnarsson, Björgvin G. Sigurðsson og Lúðvík Bergvinsson. Hann heldur þarna til pólitískra átaka við fjölda reyndra stjórnmálamanna sem lengi hafa verið í stjórnmálum.

Sá sem fagnar minnst leiðtogaframboði Róberts er væntanlega Eyjamaðurinn Lúðvík, en heldur má telja ólíklegt eftir þetta að hann muni leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi við þetta. Má telja mjög líklegt nú að sá sem gleðjist mest við framboð Róberts sé Árnesingurinn Björgvin G. sem mun hafa fullan stuðning Margrétar Frímannsdóttur í væntanlegum leiðtogaslag, en Björgvin hefur starfað í pólitík undir hennar forystu lengi og verið fóstraður til verka þar í hennar leiðtogatíð innan Alþýðubandalagsins í gamla daga.

En þarna verður hörkuslagur og má telja líklegt að naumt verði milli manna og líklegt að gríðarleg uppstokkun verði á forystusveit Samfylkingarinnar. Ofan á allt annað er merkilegt að sjá Guðmund kominn í slaginn, afkomanda framsóknarhöfðingjanna Steingríms og Hermanns, í framboði fyrir jafnaðarmannaflokk. Annars hafa rætur Guðmundar í stjórnmálum alltaf verið til vinstri og allir þekkja vinskap hans og Dags B. Eggertssonar, borgarfulltrúa, sem börðust saman fyrir Röskvu í stúdentapólitíkinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband