Prodi hættir - Berlusconi með pálmann í höndunum

Berlusconi og ProdiSilvio Berlusconi er með pálmann í höndunum nú eftir að Giorgio Napolitano, forseti Ítalíu, gafst upp við að endurmynda vinstristjórn í landinu og boðaði til kosninga í apríl. Innan við tveim árum eftir að Ólífubandalagið vann nauman sigur á hægriblokk Berlusconis hefur samstaða hennar brostið og stjórnmálaferli Romano Prodi, fráfarandi forsætisráðherra og fyrrum forseta ESB, er lokið með skipbroti stjórnar sinnar.

Allar kannanir benda til þess að Berlusconi muni vinna góðan og traustan sigur í þingkosningum og endurheimta þau völd sem hann hafði fyrir þingkosningarnar 2006. Hann sat á forsætisráðherrastóli í fimm ár og náði að tryggja lengsta stöðugleikatímabil ítalskra stjórnmála frá stríðslokum. Vinstristjórn Prodis entist aðeins í tvö ár, rétt eins og gerðist áður er hann var forsætisráðherra 1996-1998, en þá náði vinstriblokkin að endurmynda sig og klára tímabilið. Nú er hún sundruð og ekki til stórræðanna. Og Prodi fer út úr stjórnmálum með öðrum hætti en hann stefndi að.

Það er fyrir löngu orðin pólitísk hefð að kenna óstöðugleika í stjórnmálum við ítalskt ástand. Sú var enda tíðin að forsætisráðherrar komu og fóru á Ítalíu og meirihlutar riðluðust til og frá. Stöðugleikinn var allt að því enginn. Það varð þegar ljóst með úrslitunum 2006 að þetta yrði erfitt hjá Prodi. Hann hafði ekki ráðandi meirihluta í öldungadeildinni og það reyndist ekki duga honum í nema rúmlega 20 mánuði. Þó að vinstrimaðurinn Napolitano væri allur af vilja gerður að koma í veg fyrir kosningar með forsetavaldi sínu og reyndi að endurmynda stjórn undir forsæti þingforsetans kom allt fyrir ekki. Hann hefur nú gefist upp við að blokkera kosningar.

Berlusconi barðist fyrir kosningum. Það var ekki hægt að mynda starfhæfa stjórn eftir að Ólífubandalagið missti meirihlutann í öldungadeildinni og því fór sem fór. Nú mun koma í ljós hver hugur ítölsku þjóðarinnar er. Margir töldu Berlusconi búinn að vera þegar að hann tapaði naumt fyrir Prodi í apríl 2006. Hann vildi lengi vel ekki viðurkenna tapið. Hann sagði alltaf að stjórnin myndi ekki ná að sitja hálft tímabilið. Þar varð hann sannspár. Prodi, einn harðasti keppinautur hans í ítölskum stjórnmálum, hafði fyrir löngu tilkynnt að hann stefndi ekki á kosningar 2011. Hann yfirgefur sviðið mun fyrr en ella og fer beygður af velli.

Það eru spennandi vikur framundan í ítölskum stjórnmálum. Það verður sannarlega áhugavert að sjá hvort að Berlusconi nær þeim góða sigri og kannanir spá honum. Það yrði glæsileg endurkoma fyrir þetta sjötuga pólitíska ljón. Berlusconi er reyndar fæddur árið 1936, rétt eins og John McCain. Báðir eru þeir að sýna að pólitíkin er ekki búin fyrir sjötugt. Virðist vera góður árgangur allavega.

mbl.is Prodi gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband