Blóðrautt sólarlag demókrata í Denver í ágúst?

Sífellt fleiri tala um það af alvöru að Hillary Rodham Clinton og Barack Obama berjist um útnefningu demókrata fram á sumarið. Það er freistandi að telja það eftir ofur-þriðjudaginn, þar sem þau hrósuðu bæði sigri; hún í þingfulltrúum en hann í fylkjum. Svartsýnustu menn tala um showdown á flokksþinginu í Denver í Colorado síðla ágústmánaðar. Það yrði vægast sagt mikið uppgjör dragist þetta fram í ágúst.

John F. Kennedy náði útnefningu demókrata ekki fyrr en á flokksþinginu í Los Angeles sumarið 1960 í kosningu upp á hvern þingfulltrúa en vann Hvíta húsið síðar um árið, naumlega reyndar í harðri baráttu við Richard M. Nixon. Kennedy ákvað að fylkja liði með helsta keppinaut sínum á flokksþinginu um útnefninguna, suðurríkjamanninum Lyndon B. Johnson. Sameiginlegt framboð þeirra var feiknasterkt og þeir bættu hvorn annan upp. En það eru aðrir tímar nú en árið 1960 - margir telja draumateymi Hillary og Obama óhugsandi eftir harða baráttu. Hún myndi ekki vilja vonarstjörnu sem skyggði á sig og hann vildi ekki prímadonnu í aukahlutverk. Undir niðri eru væringarnar milli þeirra miklar.

En þessi barátta er greinilega bara rétt að byrja. Það er það jafnt á öllum tölum að óvissan ein er vís. Það fer allt eftir því hvern er spurt hvort þeirra er yfir í slagnum, það hefur hver sitt mat á stöðunni, en það ræðst líka mjög af persónulegri aðdáun á Hillary eða Obama. Það er þó ekkert öruggt í óvissunni og hver verður að fylla í eyðurnar eins og hann vill. Í óvissunni geta falist tækifæri um spennandi slag sem fangar athygli flokks og þjóðar en í því geta líka falist erfiðar átakalínur sem skilja eftir sár, sár sem skaða samstöðu flokksins í helstu átökunum, þeim sem snúa að alvöru andstæðingum í kosningunum í nóvember.

Það eru allar líkur á því að repúblikanar klári sín mál langt á undan demókrötum. Þó að John McCain hafi ekki náð að stinga algjörlega af tók hann það væna forystu að nær vonlaust er fyrir Huckabee og Romney að ná honum. Allt bendir til þess að McCain geti slappað af, unnið sína kosningstrategíu og lagt grunninn að sínum málum fyrir forsetakosningarnar á meðan að Hillary og Obama taka langa rispu í baráttuna um útnefninguna. Og á meðan getur McCain einnig sameinað flokkinn að baki sér. Sumir þar hafa ekki enn áttað sig á því að McCain er frambjóðandinn og enn aðrir geta ekki horfst í augu við það. Það gerist þó fyrr en síðar.

Það sem skiptir máli nú er í sjálfu sér hversu lengi demókrataslagurinn muni standa og hvort þeirra fái meiri byr úr ofur-þriðjudegi. Demókratafléttan varð enn tvíræðari og spennandi. En heilt yfir finnst mér þó að Hillary hafi sigrað. Eftir kannanirnar og bylgjuna sem sýndu styrk Obama náði hún að sigrast á veigamiklum hindrunum sem voru í vegi hennar. Hún tók stóru bitana og getur brosað breiðar. Nú snýst þetta bara um kjörmenn. Fyrst að þetta kláraðist ekki á ofur-þriðjudegi verður þetta hausatalning á flokksþingið; fulltrúar og aftur fulltrúar. Þar verða átakalínur næstu vikna og öll teikn á lofti um að öllum brögðum verði beitt.

Það skyldi þó ekki fara svo að það yrði blóðrautt sólarlag yfir Denver í ágústlok.....

mbl.is Hætta á klofningi demókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Æ, ég vona nú bara að demókratar klofni ekki fyrir kosningar, ég vil fá þeirra mann í forsetastolinn.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.2.2008 kl. 15:59

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sammála þessu 'Asdis!!!!,og ennþá tekurðu vel á málum Stefán og það er ekki komið Blóðrautt sólarlag ennþá,Sátt!!!er betri en tap/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 6.2.2008 kl. 18:11

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Þeri frambjóðendur sem unnu einhverja kjörmenn áður en er nú hættir, halda þeir kjörmönnunum? ef svo er gætu heljarinnar hrossakaup átt sér stað.

Fannar frá Rifi, 7.2.2008 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband