Pólitísk staða Vilhjálms - snýr Guðmundur aftur?

Vilhjálmur Þ. Það fer ekki á milli mála að REI-skýrslan er áfellisdómur yfir stjórnsýslu REI-málsins og hversu illa það var unnið. Það hlýtur að verða spurt um pólitíska stöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, formanns borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóra, í kjölfar þessarar skýrslu, enda er alveg ljóst að þessi mistök voru gerð á vakt hans sem borgarstjóra á meðan að málið var keyrt framhjá öðrum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Það er afleitt að vafi sé uppi um umboð Vilhjálms á eigendafundi OR. Mér finnst þetta mál hafa skaddað Vilhjálm Þ. gríðarlega mikið sem stjórnmálamann. Það er sjálfstæðismanna og sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík að svara því hvort hann njóti trausts eftir þetta hneykslismál og geti tekið aftur við embætti borgarstjóra eftir þrettán mánuði. Hann þarf að sækja sér traust aftur til að geta tekið við embættinu aftur. Mér finnst það í sannleika sagt ekki sjálfgefið eftir svo alvarleg pólitísk mistök. Það þarf í það minnsta að gera málið almennilega upp og fá að vita með vissu hvort Vilhjálmur hafði ekki vit á að kynna sér lykilgögn málsins eða laug að borgarbúum.

Í þessum efnum verður spurt um pólitíska ábyrgð og ennfremur ábyrgð þeirra sem stýrðu borgarreknu fyrirtæki augljóslega á villustigum. Að mínu mati þarf ábyrgð á þessu máli bæði að fara inn í fyrirtækið og ekki síður þarf það að vera gert upp á vettvangi stjórnmálanna. Það verður eflaust horft til þess hvort að Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI og áður OR, muni geta setið áfram sem yfirmaður á Bæjarhálsi. Hörð orð gengu á milli hans og Vilhjálms í REI-málinu í haust þar sem þeir vörpuðu ábyrgð á málinu á hvorn annan. Það gengur engan veginn og þarf að skýra mál í kjölfar þessarar skýrslu. Geta þessir menn unnið saman?

Þetta mál er skaðlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Vissulega mistók Sjálfstæðisflokknum að vinna hreinan meirihluta í borgarstjórn í kosningunum 2006, en sem stærsti flokkurinn í borgarstjórn leiddi hann borgina áfram eftir að samstaða R-listans brast og flokkunum sem hann mynduðu mistókst að halda meirihluta. Eftir tólf ára minnihlutasetu hafði hann öll tækifæri til að standa sig vel, gera betur en R-listinn og stjórna borginni af krafti þegar að hann hlaut til þess styrk og stuðning að leiða meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Eftir stendur að Vilhjálmur gerði alvarleg mistök sem leiðtogi og borgarstjóri.

Sjálfstæðisflokknum mistókst að standa undir trausti kjósenda í Reykjavík í þessu máli og stýrði Orkuveitu Reykjavíkur í sömu vandræði og sama verklagið og einkenndi R-listann. Það er hin stóra niðurstaða málsins. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík þarf að vinna sig frá þessu máli og vinna sig frá augljósum mistökum og hreinsa sig af þeim spillingarfnyk sem leggur af málinu. Skýrslan er niðurstaða pólitísks stýrihóps. Eflaust hefði verið betra að fá óháða aðila til verksins, en eftir stendur að þetta er heiðarleg niðurstaða og ég trúi henni. Það vita allir að mistök voru gerð og alveg út í hött að afneita þeim.

Pólitísk staða Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar verður að ráðast á næstu dögum. Ennfremur verður spurt um stöðu mála hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Getur Guðmundur Þóroddsson tekið sisvona aftur við forstjórastöðu hjá OR á Bæjarhálsinum? Þetta eru stórar spurningar og heiðarlegast væri að taka vel til hjá Orkuveitunni og reyna að koma málum áfram með þeim hætti að hreinsa til hjá Orkuveitunni, skapa trúverðugleika þar eftir allt klúðrið.

Það sem er verst í þessu máli er að lögfræðingur FL Group átti beina aðkomu að þjónustusamningi REI og Orkuveitu Reykjavíkur um að REI fengi fyrsta valrétt á öllum verkefnum Orkuveitunnar erlendis. Það er algjörlega til skammar að þetta gerist undir forystu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og er dökkur blettur yfir forystu hans á þessu kjörtímabili hversu sterk ítök fyrirtæki úti í bæ höfðu yfir stöðu mála.

Pólitíska ábyrgð málsins ber Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sem gerði afgerandi mistök. Hann hefur gengist við þeim mistökum, enda ekki annað hægt. Það er hans og sjálfstæðismanna að svara því hvort hann eigi að taka ábyrgð á þeim mistökum.

mbl.is Efast um umboð borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kári Tryggvason

Tek undir hvert orð. Maður hefur varla undan að lesa frá þér pistlana, þeir koma á klukkutíma fresti

Kári Tryggvason, 7.2.2008 kl. 16:18

2 identicon

Sammála - Villi hefði rekið menn fyrir minna.  Það trúir því heldur enginn að vanur stjórnmálamaður týni minnisblaði.

Johnny B Good (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 16:30

3 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Borgarstjórar hafa nú verið látnir fjúka fyrir minna. Ef þessi afglöp Vilhjálms eru borin saman við mál Þórólfs Árnasonar hjá Esso, þá á Vilhjálmur ekkert erindi aftur í stól borgarstjóra. Borgarfulltrúum þótti sjálfsagt að Þórólfur tæki pokann sinn þegar kom í ljós að hann var innviknaður í samkeppnisbrot Olíufélagana, þó svo að ábyrgð hans væri afskaplega takmörkuð í því máli og töluvert langt um liðið frá því að hann gegndi starfi þar. Mér finnst ábyrgð þeirra vera meiri sem kjörnir er heldur en þeirra sem ráðnir eru utan frá. Ef Vilhjálmur vill vera “maður að meiri” eins og sagt var um Þórólf þegar hann sagði af sér, þá ætti hann að sjá sóma sinn í því að segja af sér sem borgarfulltrúi.

Helgi Viðar Hilmarsson, 7.2.2008 kl. 16:39

4 identicon

Nú er VÞV gamall persónulegur vinur en pólitísk ábyrgð hefur ekkert með vinatengsl að gera. Ég tel að ábyrgðin sé ekki eingöngu á höndum embættismanna. Jafnvel þó VÞV haf ekki vitað eða ekki um þetta klúður á sá stjórnmálamaður að segja af sér.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 16:40

5 identicon

Og ekkert var Villa að Kenna

Allir borgarfulltrúar sjálfstæðisflokksins bera fyllsta traust til hans samber yfirlýsingar í fjölmiðlum .

Guði sé lof fyrir að Björn Ingi skyldi slíta samstarfinu við sjálfstæðisflokkinn

Sá gjörningur hans varð þó til að Hannes Smári og hans kúmpánar náðu ekki að sölsa undir sig OR eða dótturfyrirtæki.

Þar fyrir utan útaf hverju eru þessar yfirlýsingar þess niðurdregna um að Orkuveitan verði í almannaeign

Hefur einhver flokkur utan Samstarfsflokks hans lýst yfir vilja til að einkavæða

þessi fyrirtæki 

sæmundur (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 17:48

6 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

SAMMÁLA 

Ásdís Sigurðardóttir, 7.2.2008 kl. 19:00

7 Smámynd: Óðinn Þórisson

það verður örugglega fundað í valhöll um helgina og farið vel yfir málin. það verður mjög erfitt fyrir vþv að sitja áfram, krafan um að hann hætti er mjög mikil hjá sjálfstæðismönnum - ég dreg í efa að hann njóti enn trausts til að leiða borgarstjórnarflokk sjálfstæðisflokksins áfram eins og ekkert hafi gerst.

Óðinn Þórisson, 7.2.2008 kl. 19:25

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Vilhjálmur svaraði þessu vel áðan i Kastljósi,það er að segja þegar hann komst að fyrir spyrjandanum Sigmari,sem vildi takan af lifi i beinni/Ótrulegt viðtal og spyrillin hlutdrægur mjög!!!en þetta er semsagt svar Villa að vera áfram og láta okkur fólkið i Borgini dæma þetta i nælstu kosningum/er það ekki rétt/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 7.2.2008 kl. 20:33

9 identicon

Heill og sæll, Stefán Friðrik og aðrir skrifarar !

Já ! Skjálfið Sjálfstæðismenn, skjálfið. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þótt armur sé, ætti alls ekki einn að víkja, miklu fremur flokksforystan ÖLL, með ''lóðs'' ykkar Hannes Hólmstein Gissurarson, í broddi fylkingar !

Með beztu þjóðernissinna kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 21:49

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Villi treysi sínum mönnum og var blekktur.

Sigurður Þórðarson, 7.2.2008 kl. 22:32

11 identicon

Mikil er trú þín Haraldur !

Á fyrstu dögum sínum sólunduðu niðurdreginn og minnislausu mistökin hundruðum milljóna í fúaspýtur.

Stýrihópurinn skilar skýrslu sem þrátt fyrir samræmt orðalag og pólitísk orðagjálfur leiðir í ljós að Vilhjálmur sem man ekki og minnist ekki er ábyrgur en

samt segir hann borgarlögmann hafa ráðlagt sér eða einhver annar hafi sagt sér eða hann ekki séð eða tekið eftir

En það svarar mér enginn hversvegna "niðurdreginn" telur ástæðu til að lýsa því stanslaust yfir að OR verði í almenningseigu 

Þessum manni viltu gefa annað tækifæri

Þrátt fyrir að hafa ekki kosið Björn Inga  eða haft nokkurt álit á honum

Þá er ég honum þakklátur sem borinn og barnfæddur Reykvíkingur fyrir að

hafa bjargjað OR og Rei frá Gráðugum kaupsýslumönnum og haldið þessu í almenningseigu 

Sæmundur (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband