Ragnheiður Ríkharðsdóttir í þingframboð

RR

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, hefur nú tilkynnt formlega um framboð sitt í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Stefnir hún á þriðja sætið í prófkjörinu. Ákvörðun Ragnheiðar um framboð kemur ekki að óvörum eftir að Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrum ráðherra, lýsti því yfir á miðvikudagskvöldið að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Sigríður Anna og Ragnheiður hafa verið í stjórnmálum í Mosfellsbæ og greinilegt að Ragnheiður vill fylla skarð Sigríðar Önnu. Ragnheiður verður ekki eini Mosfellingurinn í framboði því að Bryndís Haraldsdóttir, varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, hefur tilkynnt um framboð sitt í 4. - 5. sætið.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur verið lengi í pólitísku starfi. Hún leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Mosfellsbæ til glæsilegs sigurs vorið 2002 þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn hlaut hreinan meirihluta atkvæða. Ragnheiði og sjálfstæðismönnum mistókst naumlega að halda meirihlutanum í kosningunum í vor, en mynduðu meirihluta með vinstri grænum. Samið var um að Ragnheiður yrði bæjarstjóri framan af kjörtímabilsins en svo tæki Haraldur Sverrisson við embættinu í síðasta lagi á miðju kjörtímabili. Mosfellsbær hefur styrkst í bæjarstjóratíð Ragnheiðar og ekki verður deilt um að Ragnheiður hefur verið öflugur og traustur leiðtogi flokksins í sveitarfélaginu.

Það stefnir í spennandi prófkjör í Suðvesturkjördæmi um neðri sætin. Greinilegt er að góð samstaða mun verða um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í fyrsta sætið og Bjarna Benediktsson í annað sætið, en þau eru einu kjörnu þingmenn flokksins í kraganum vorið 2003 sem fara fram aftur. Baráttan verður um þriðja til sjötta sætið. Skv. nýjustu skoðanakönnun Gallups mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 49% fylgi í kraganum sem myndi færa honum sex þingsæti, en þingsætum kragans fjölgar úr 11 í 12 í kosningunum í vor.

mbl.is Ragnheiður Ríkharðsdóttir stefnir á 3ja sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband