Skrípaleikur í Valhöll - staða flokksins veikist

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Mér fannst blaðamannafundurinn í Valhöll, þar sem Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni mistókst að sýna að hann væri sterkur leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og sökkti sér æ neðar í pólitíska glötun, vera hreinn skrípaleikur. Það var ekkert á þessum blaðamannafundi sem benti til þess að Vilhjálmur myndi geta orðið sterkur leiðtogi að nýju og öll framganga hans og tjáning þar urðu til þess að veikja hann æ meir í sessi.

Það var líka afskaplega dapurlegt að sjá hversu illa starfsmenn Sjálfstæðisflokksins höndluðu þennan fund og ekki beint í takt við þau vinnubrögð sem einkenndu flokkinn á framkvæmdastjóraárum Kjartans Gunnarssonar. Ég ætlaði varla að trúa því þegar að loka átti fundinum af og jafnvel breyta honum í one-on-one settlegt spjall fjölmiðlamanna við leiðtoga í augljósri pólitísku krísu um þá alvarlegu stöðu sem uppi er og vofir enn sem mara yfir honum og Sjálfstæðisflokknum í höfuðvígi sínu. Algjört klúður og sérstök tilfinning að stærsti flokkur þjóðarinnar haldi blaðamannafund með þessum formerkjum.

Enn undarlegra var að Vilhjálmur hóf fundinn með þeim orðum hvort að hann ætti að segja eitthvað. Eflaust áttu þeir von á því þar sem hann boðaði til fundarins og þeir höfðu beðið í vel á annan klukkutíma þegar að hann hófst. Þetta var allt í heild sinni skelfilegt klúður og ekki nema von að sú spurning vakni hvort að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson haldi virkilega að þessi fundur og með þeim formerkjum sem einkenndu hann hafi virkilega styrkt hann og Sjálfstæðisflokkinn. Hann gerði ekkert annað en að veikja flokkinn og allt yfirbragð hans minnti á skrípaleik.

Það má vel vera að ég hafi lengi verið í Sjálfstæðisflokknum, stutt hann og unnið fyrir hann en ég mun aldrei verja vinnubrögð af þessu tagi og finnst þau til skammar þeim sem ráða för í Reykjavík. Þeir sem standa að þessum vinnubrögðum þurfa að hugsa sinn gang. Ég held að þeir tímar séu liðnir að forystumenn eins flokks geti boðið stuðningsmönnum og kjósendum sínum upp á stjórnleysi af þessu tagi og við blasir í höfuðvígi hans. Þetta hefur skaðað flokkinn og væri eðlilegt að forysta hans hugsaði sitt ráð.

mbl.is Vilhjálmur: Hamrað á því sem mér kemur verst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Ég hef líka verið lengi í floknum og alltaf kosið hann. Sagði mig að vísu úr sjálfstæðisflokknum þegar Árni Johnsen fór aftur á þing fyrir flokkinn. Staða Villa er ekki bara veik, hún er fárveik og þessi veikindi eru smitandi, þannig hefur allt liðið veikst. Borgastjórinn er læknir en hann er líka veikur.

Í Alvöru talað! 

Ólafur Þór Gunnarsson, 12.2.2008 kl. 07:44

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Allir veikir í verinu, veit ekki hvar þetta endar en ekki er ég glöð.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.2.2008 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband