Kaldhæðnisleg staða Vilhjálms - leiðtogatafl

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Það er kaldhæðnislegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur fallið í sama farið og hann gagnrýndi Þórólf Árnason fyrir í vandræðum hans sem borgarstjóra fyrir nokkrum árum. Þá sagði Vilhjálmur það svo alvarlegt að stjórnmálamenn segðu ekki satt og sagðist myndu segja af sér í sömu sporum. Það virðist hann þó ekki ætla að gera, þrátt fyrir að hann hafi misst styrk sinn sem leiðtoga með gjörðum sínum að undanförnu.

Það er illa komið fyrir Vilhjálmi þegar að eini maðurinn sem stígur fram honum til varnar sé Árni Johnsen, alþingismaður, sem sagði af sér þingmennsku fyrir nokkrum árum en endurheimti hana í þingkosningum fyrir tæpu ári. Ekki einu sinni Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, var það heiðarlegur í stuðningi sínum við Vilhjálm að lýsa því yfir að hann ætti að verða borgarstjóri aftur. Stuðningur formannsins var því mjög veikur og man ég satt best að segja ekki dæmi þess að formaður Sjálfstæðisflokksins geti ekki lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við leiðtoga flokksins í borginni sem borgarstjóraefni. Segir allt um stöðuna sem uppi er.

Það er furðuleg umræðan um val á nýjum leiðtoga í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Í forsíðuuppslætti í Fréttablaðinu talar Júlíus Vífill Ingvarsson um leiðtogakosningu innan borgarstjórnarflokksins þegar að Vilhjálmur Þ. muni hætta. Finnst það fjarstæðukennt. Það var haldið prófkjör í Reykjavík í nóvember 2005, það var fjölmennasta prófkjör sem haldið hefur verið á Íslandi og þar greiddu tæplega 12.000 manns atkvæði. Að fara gegn því er fjarstæða. Hanna Birna Kristjánsdóttir hlaut flest atkvæði í því prófkjöri; hlaut yfir 10.000 atkvæði í heildina og náði mjög góðri kosningu í annað sætið.

Það er því eðlilegast að þegar að Vilhjálmur hætti muni verða litið til prófkjörs og Hanna Birna verði leiðtogi - listinn færist upp hvað varðar embætti. Annað myndi verða vandræðagangur fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík og með því yrðu send þau skilaboð að prófkjör skipti í raun engu máli.

mbl.is Vilja endurvinna traust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Úff, veit ekki lengur hvað er best.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.2.2008 kl. 16:58

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Annað hvort er Vilhjálmur alveg skyns skropinn eða hann er að nota tækifærið til að hefna sín á Sjálfstæðisflokknum.... ég er eiginlega á því fyrrnefnda.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur opinberað alvarlegan veikleika sem flestir gerðu sér enga grein fyrir.

Formaðurinn er veikur.... höfuðvígið er logandi í sundurlyndi og síðast en ekki síst.... fylkingar berjast á banaspjótum. Fram að þessu að tjaldabaki en tjöldin eru farin að sveiflast frá og við blasir flokkur með alvarlega bresti.

Sundrungartal Sjálfstæðisflokksins um aðra flokka hefur færst að kviku hans sjálfs..

Jón Ingi Cæsarsson, 12.2.2008 kl. 17:26

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ásdís: Takk fyrir kommentið. Alveg sammála.

Jón Ingi: Varst það ekki þú sem kallaður mig blindan flokkshest? Ég held að ég hafi alveg sýnt að ég get alveg talað hreint út um eigin flokk og verið heiðarlegur í skrifum.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.2.2008 kl. 18:01

4 identicon

Lengi getur vont versnað 

 Núna lýsir Hanna Birna því yfir að Vilhjálmur geti ekki orðið borgarstjóri nema því aðeins að hann njóti trausts meirihluta borgarbúa.

Hvað þá með Ólaf F ??? hann nýtur stuðnings hvað var það aftur 10 prósent

Stefán þið verðið að fara að gera eitthvað róttækt . Þótt þið búið þarna fyrir norðan hlytur höfuðborgin að skipta máli.

Sjálfsagt endar þetta með því að Geir Harde og Ingibjörg Sólrún setjast niður og  skipa Degi og einhverjum að borgarfulltrúum sjálfstæðisflokksins að mynda starfhæfan meirihluta sem sinnir málum borgarinnar en er ekki upptekinn af innanflokksátökum eins og er i  dag .  Og einhverra hluta vegna hef ég trú á því að sjálfstæðisflokkurinn mundi treysta Degi til að verða Leiðtogi Borgarinnar.

Þá gæfist Kjallaraliðinu ( þessir sem hlaupa út um kjallara ) tækifæri á að endurskoða heilindi sín gagnvart borgarbúum, sjálfum sér og Sjálfstæðisflokknum 

Sæmundur (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 18:23

5 Smámynd: Ingólfur

Sæmundur, hvar sagði Hanna Birna þetta? Ég hef hvorki heyrt né séð frá henni síðan hún laumaðist út um kjallarann emð Gísla.

Annars langar mig til þess að taka hattinn ofan fyrir Stefáni. Ég hef lengi talið að hann væri ófær til þess að gagnrýna nokkuð sem kæmi frá Sjálfstæðisflokknum. Í raun er eina gagnrýnin sem ég man eftir frá honum er þegar þjófur var settur á framboðslistann.

En í þessu máli hefur hann verið sannur sannfæringu sinni og gagnrýnt þessa hringavitleysu, og satt að segja held ég að hann sé að hugsa mun meira um hagsmuni flokksins en forystumenn hans í borginni gera. 

Ingólfur, 13.2.2008 kl. 00:21

6 identicon

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur sýnt það á síðustu tveimur og hálfum áratug að hann er góður borgarfulltrúi og hann hefur auk þess starfað mjög vel sem formaður sambands íslenskra sveitafélaga.  Þar var hann í þeirri fáránlegu stöðu að berjast við R-listann í borginni og ríkisstjórnina þegar kom að fjármögnun sveitarfélaga. 

Það er því í raun fáránlegt að umræða um stöðu Vilhjálms skuli allt í einu fara að snúast um það að hann segi af sér sem borgarfulltrúi!  Aftur - hann hefur staðið sig vel sem slíkur!

En þegar hann varð borgarstjóri var hann greinilega kominn í starf sem hann réði alls ekki við - það blasti eiginlega strax við í hverju málinu á fætur öðru svo maður nefni bara Austurstrætisbrunann og spilakassamálið sem dæmi.   Klúðursleg meðferð hans á REI málinu var kannski bara beint framhald af því - klúður sem hann toppaði svo æ ofan í æ þegar kom að því að verja sig! 

Munum að það var ekki innbrotið í Watergate bygginguna sem varð Richard Nixon að falli heldur efturleikurinn - tilraunir hans til að hylma yfir það.

Það er því allavega lítið mál að sannfæra mig um að það sé hið besta mál að Vilhjálmur sitji áfram sem borgarfulltrúi og miðli áfram af áratuga reynslu sinni sem slíkur. 

En það er bara allt, allt annað mál hvort hann eigi að taka aftur við starfi borgarstjóra eftir rúmt ár. 

Og það er bara alls ekki Vilhjálms að ákveða það - heldur samherja hans í borgarstjórnar"meirihlutanum" í borgarstjórn Reykjavíkur.  Jú, vissulega hefur hann eitt atkvæði eins og aðrir - en eins og ég skil það þá situr Ólafur sem borgarstjóri annað hvort þangað til hann segir af sér eða annar er valinn í hans stað.  Þó svo að Vilhjálmur geti vissulega tekið af skarið og hafnað því að taka við starfi borgarstjóra að ári þá er það er því fyrst og fremst mál samherja Vilhjálms hvort þeir vilji kjósa hann til starfans - það er þeirra að taka þá ákvörðun sem hver sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum hefur krafist af Vilhjálmi!

En miðað við það sem allir þekkja af Vilhjálmi þá er hann heill og hollur Sjálfstæðismaður og sá Vilhjálmur sem við þekktum öll áður en hann varð borgarstjóri hefði aldrei gert borgarbúum og flokknum það sem hann er að gera núna með því að taka ekki af skarið.  Getur það verið að ástæðan fyrir því að Vilhjálmur taki ekki af skarið strax að hann hreinlega geti það ekki því Flokkurinn geti ekki komið sér saman um eftirmann hans? 

Ein ástæðan fyrir því gæti verið sú að enginn vilji taka við þeim Svarta-Pétri að verða borgarstjóri í rúmt ár og tapa svo borginni aftur eins og allt bendir til nú!   Eða er ástæðan sú að það sé valdatafl æðstu manna í Valhöll - valdatafl sem er í algjöru þrátefli?

Að lokum:  Stebbi - vissulega hefur þú oft á tíðum farið út fyrir venjulegu flokkslínuna og gagnrýnt Flokkinn þinn harkalega.  En alltaf heldurðu tryggð við flokkinn - er það ekki líka blindni að segja aldrei: 

Nei, nú er komið nóg!
Ég neita að styðja þennan flokk lengur!

  • Nei, ég neita að styðja mestu fjölgun öryrkja frá upphafi nútíma samfélags.
  • Nei, ég neita að styðja stærstu ríkisframkvæmdir Íslandssögunnar!
  • Nei, ég neita að styðja að aldrei hafi stærri hluti landsframleiðslunnar renni til ríkissins!
  • Nei, ég neita að styðja að menn geti ekki veitt úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar án þess að kaupa réttinn frá sérvöldum einstaklingum!
  • Nei, ég neita að styðja umbreytinguna úr öruggasta landi heims í það ofbeldisbæli sem Ísland er orðið!
  • Nei, ég neita að styðja flokk sem talaði á móti EES samningnum á meðan verið var að vinna að honum, skipti um skoðun þegar samþykkt hans var sett sem skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi!
  • Nei, ég neita að styðja flokk sem leyfir manni sem stal frá þjóðinni í umboði starfa sinna fyrir hana að bjóða sig fram til Alþingis sínu flokksins!
  • Nei, ég neita að styðja flokk sem lætur það viðgangast sem við höfum séð síðustu vikur og mánuði í borgarstjórn Reykjavíkur!

Er það ekki blindni að sjá allt það slæma sem Flokkurinn hefur staðið fyrir en neita að horfast í augu við það?

Steingrímur (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband