Vandræði Ingibjargar Sólrúnar

ISG

Það var mjög athyglisvert að sjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Silfri Egils nú eftir hádegið. Það er greinilegt að hún á í verulegum erfiðleikum með svokallaða umhverfisstefnu flokksins. Það er varla við öðru að búast með fulltrúa flokksins vælandi um að álver komi í þeirra byggðir á meðan að fyrir liggur stefna flokksforystunnar um að engin stóriðja komi til sögunnar á næstu fimm árum. Vandræðin á sér greinilega engin takmörk. Þetta er erfitt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og hún virðist varla vita hverju hún eigi að svara í þessum efnum. Þessi stefna fæddist andvana, hver tekur annars mark á svona umhverfisstefnu með lykilmenn um allt að minna á að nú vilji þeir fá álver til sín?

Það var greinileg fýla á bakvið brosin á sumum leiðtogum flokkanna í stjórnarandstöðunni þegar að samkomulag þeirra um samstarf var kynnt í vikunni. Stuðningur vinstri grænna við Halldór Halldórsson í formannskjöri á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga tryggði honum sigur í spennandi slag við Smára Geirsson, bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð. Greinilegt er að vinstri grænum hugnaðist ekki að stóriðjusinnaður vinstrimaður innan úr Samfylkingunni yrði hafinn upp til vegs og virðingar með atkvæðum þeirra til öndvegis í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það blasir við öllum að mikil fýla er meðal landsbyggðarmanna í Samfylkingunni með vinnubrögð vinstri grænna.

Það er frekar skondið að fullyrða að Samfylkingin sé heilt yfir andstæðingur stóriðju. Það er enda ekki þannig og því er þessi svokallaða umhverfisstefna hjómið eitt, að mínu mati. Mér fannst Kristrún Heimisdóttir, prófkjörsframbjóðandi Samfylkingarinnar í borginni, frekar vandræðaleg við að verja stöðuna innan flokksins í Silfrinu áðan. Það er ekki undrunarefni. Þar er hver höndin upp á móti annarri. Umhverfisstefnan hélt ekki vatni heila nótt, heldur varð úrvinda eins og skot. Tilraunir hennar við að verja afstöðu Samfylkingarinnar varðandi Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma og önnur verkefni á vettvangi R-listans í borgarstjórn voru frekar máttlitlar, eins og við var að búast.

Það er alveg rétt sem að Egill Helgason sagði í Silfrinu áðan að Ingibjörg Sólrún hefur dalað mikið frá síðustu þingkosningum. Þá var hún vonarstjarna vinstrimanna eftir níu ára borgarstjóraferil og þrjá kosningasigra í Reykjavík. Staða hennar er allt önnur nú í upphafi þessa kosningavetrar. Það reynir nú á hvernig henni gengur. Hún stendur frammi fyrir erfiðu verkefni. Samfylkingin er að auki undarleg regnhlíf ólíks fólks í stjórnmálum. Umhverfisstefnan í felulitunum sýndi okkur vel þessar meginlínur á milli hægrikrata og verkalýðskomma sem þar eru saman komnir en eiga í grunninn ekki samleið. Það verður fróðlegt hvernig gengur með þennan hóp.

Meginlínur í því ráðast í prófkjörunum og hvernig listar flokksins raðast. Sérstaklega verður spennandi í borginni. Annars er mikið talað um að Ingibjörg Sólrún sé að sækja "sitt" fólk til framboðs og forystu og vilji skófla heilum slatta út af fólki, jafnvel þingmönnum sem eiga öflugt umboð að baki. Meðal þeirra er víst varaformaðurinn Ágúst Ólafur. Annars er það reyndar stórmerkilegt að sjálfur varaformaður Samfylkingarinnar hefur ekki sett markið enn á sæti og ekki virðast þeir sem koma inn úr armi Ingibjargar Sólrúnar, er sækja að þingmönnunum, ætla að hliðra til fyrir varaformanninum. Staða hans er varla alltof góð.

En þetta verður örlagavetur fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Nái hún ekki að halda Samfylkingunni hið minnsta í kjörfylginu 2003 og halda 20 þingmönnum er einsýnt hvernig fer. Þess vegna brosir hún vandræðalega til vinstri þessar vikurnar. Það er eini valkostur hennar til stjórnarforystu. Þetta blasir við.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband