Lokaorrusta Ómars austur í Hjalladal

Ómar Ragnarsson

Í kvöld horfði ég á fréttaskýringaþáttinn Kompás á Stöð 2. Hann var að þessu sinni algjörlega lagður undir Ómar Ragnarsson sem þessar vikurnar er á lokastigi síðustu orrustu sinnar til varnar Hjalladal austur á fjörðum. Þetta var vissulega nokkuð merkilegur þáttur, sem ég horfði á með nokkrum áhuga. Alla mína ævi hefur Ómar Ragnarsson spilað þar nokkuð merkilegan sess. Ég var smábarn þegar að ég átti eina mína fyrstu bernskuminningu. Það var er Hanna amma og Anton afi gáfu mér í jólagjöf plötu með barnalögum Ómars. Á fyrstu árum mínum spilaði platan stóran sess í huga mér og ég á hana reyndar enn, hún er þó niðri í kjallara núna, slitin og mjög úr sér gengin.

Ómar er á háum stalli í huga okkar flestra. Hann er vissulega goðsögn í lifanda lífi. Hann hefur með gríðarlega mikilli elju fært okkur minningar um landið okkar, minningar sem við metum mikils. Persónulega á ég gríðarlega mikið myndefni með Ómari. Við vorum minnt á fjársjóðinn sem hann hefur fært okkur öllum er um hann var gerður einn þáttur í röð þátta um sögu Sjónvarpsins nú í september. Á 40 árum Sjónvarpsins hefur Ómar verið í hlutverki íþróttafréttamanns, skemmtikrafts, íhuguls spyrils í mannlegum og heillandi viðtölum og fréttamanns sem kannað hefur landið og mannsálina í víðri merkingu þess orðs. Eftir stendur merk starfsævi sem allir virða.

Ómar á sennilega heiðurinn af einni stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu. Það var þegar að hann kynnti okkur fyrir Vestfirðingnum Gísla Gíslasyni á Uppsölum, alþýðumanni sem lifði sem á 19. öld væri en í raun var uppi á tækniáratugum 20. aldarinnar. Það var stór stund í íslensku sjónvarpi, að mínu mati sú stærsta. Hann færði okkur þennan mann heim í stofu og kynnti okkur fyrir honum, þó með nærgætni og tilfinningu. Ég horfði einmitt á þetta viðtal aftur um daginn, en ég á Stiklusafnið hér heima allt saman. Ég virði framlag Ómars í þessum efnum mikils og tel hann eiga heiður okkar allra skilið fyrir þau verk sín. Enginn hefur betur kynnt okkur fyrir svæðum, fjarlægum og fallegum.

Þrátt fyrir að ég beri virðingu fyrir Ómari fullyrði ég enn og aftur að barátta hans fyrir austan þessar vikurnar er vonlaus. Hún er töpuð. Lokaorrustan sem nú stendur, með Hálslón í myndun, er sár og erfið fyrir hann, enda ann hann landinu. Það hefur verið mín skoðun allt frá fyrsta degi að Ómar ætti að há þá baráttu með heiðarlegum og öflugum hætti. Það hafa allir vitað frá fyrsta degi að hann sýndi okkur myndefni úr Hjalladal að hann vildi ekki að Kárahnjúkavirkjun yrði að veruleika né heldur Fljótsdalsvirkjun. En það er hans réttur að hafa þá skoðun. Það voru hans stærstu mistök að segja sig ekki frá málinu sem fréttamaður í upphafi. Baráttuandi hans átti að njóta sín.

Þó að ég sé ósammála Ómari Ragnarssyni virði ég mikils framlag hans í skemmtana- og sjónvarpssögu landsins. Hún er okkur öllum ofarlega í huga. Það var mér lærdómur að kynnast hversu rík og sterk barátta hans er, hún kemur frá hjartanu hans. Þetta er barátta sem hann leggur allt í, peninga sína, vinnuþrek og allar stundir einkalífsins. Það er sárt að skynja að komið er að leiðarlokum. Þetta er töpuð lokaorrusta í erfiðum bardaga. En þrátt fyrir allt er Ómar eins og hann er. Hann er og verður eins og hann er. Þessi þáttur var vel gerður. Ég ætla ekki að amast út í einhliða frásögn eða það að Ómar og ég séum ósammála.

En þetta er bara svona. Eitt tap í einum bardaga þarf ekki að þýða endavík milli fólks, né heldur endatafl fyrir einstakling. Ómar rís yfir ágreininginn að svo mörgu leyti. Í mínum huga er Ómar maður hugsjóna sem berst sinni baráttu fyrir sínar skoðanir. Það er hans réttur og það ber að virða. Þó að skoðanir fari ekki saman er rétt að virða fólk hafi það skoðanir að láta þær í ljósi. Það átti Ómar Ragnarsson að gera frá fyrsta degi en ekki mæta í lokaorrustuna eina. Það voru hans mistök, sem enginn erfir held ég við hann í raun og veru.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband