Romney styður McCain - færir honum útnefninguna

Romney og McCainMitt Romney mun tilkynna opinberlega í kvöld um stuðning sinn við John McCain sem forsetaefni Repúblikanaflokksins og færa honum þingfulltrúa sína. Með því færir hann honum í raun útnefningu flokksins á flokksþinginu í St. Paul í Minneapolis í september og farmiðann í forsetakosningarnar í nóvember, enda hafði hann hlotið 286 þingfulltrúa í forkosningum innan flokksins.

Eftir þessa stuðningsyfirlýsingu hefur McCain hlotið 1113 þingfulltrúa, fyrir hafði hann 827. Vantar honum þá aðeins 78 þingfulltrúa til að hljóta útnefninguna formlega. Með þessu er forsetaframboð Mike Huckabee, sem enn berst við McCain af alvöru, sjálfkrafa búið og þarf ekkert að velta sér meira upp úr forkosningum á meðal repúblikana eða Huckabee yfir höfuð. Það var alltaf langsótt að Huckabee næði McCain og sú von dó endanlega með forkosningu á Washington-svæðinu í vikunni.

Það er því ljóst nú 40 dögum eftir fyrstu forkosningar repúblikana í Iowa að hinn 71 árs gamli John McCain verður forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins og berst fyrir því að halda Hvíta húsinu eftir átta ára forsetaferil George W. Bush, mannsins sem sigraði hann í forkosningum repúblikana fyrir átta árum. Það hefur verið ljóst frá forkosningunum í Suður-Karólínu og Flórída að McCain myndi ná útnefningunni og góður árangur hans á ofur-þriðjudegi kláraði alvöru baráttu um hnossið. Eftir að Mitt Romney gafst upp fyrir viku hefur aðeins verið tímaspursmál hvenær hann næði þessu.

Tæpum níu mánuðum fyrir forsetakosningarnar 4. nóvember er því forkosningabaráttu repúblikana formlega lokið og þeir komnir með forsetaefni á meðan að stefnir í harðan slag á meðal demókrata fram í mars eða apríl, sumir tala um slag fram á sumarið. Á meðan að Hillary Rodham Clinton og Barack Obama eyða peningum og tíma sínum í að slást hvort við annað getur John McCain slappað af; fundið sér varaforsetaefni, safnað peningum gegn öðru þeirra, fínstillt strategíuna og sameinað flokkinn að baki sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband