The Departed beint á toppinn í USA

The Departed

Það kemur ekki okkur kvikmyndaaðdáendum á óvart að nýjasta kvikmynd meistara Martin Scorsese, The Departed, fari beint á toppinn í Bandaríkjunum á opnunarhelgi. Mér skilst að þetta sé algjör dúndurmynd. Hún fær góða dóma og mikið lof kvikmyndaspekúlantanna vestanhafs. Þetta er stjörnum prýdd eðalmynd og gæti orðið öflug þegar að kemur að Óskarsverðlaununum í febrúarlok. Í aðalhlutverkum eru leikararnir Jack Nicholson, Leonardo DiCaprio, Matt Damon, Martin Sheen og Alec Baldwin. Þetta er víst topplöggumynd með rétta plottinu og er víst algjör gullmoli.

Ég hef allavega heyrt virkilega góðar sögur um þessa mynd og hlakka mjög til að sjá hana. Sumir spekingar vestanhafs eru þegar farnir að spá því að hún fái óskarinn sem besta mynd ársins 2006. Martin Scorsese er einn meistaranna í kvikmyndagerð síðustu áratuga í Hollywood. Ég skrifaði ítarlegan leikstjórapistil um Scorsese árið 2003 á vefinn kvikmyndir.com og fór þar yfir flottan leikstjóraferil hans með mínum hætti. Það er svona mín úttekt á þessum merka ferli fram til þess tíma.

Að baki eru meistaraverk á borð við Taxi Driver, Raging Bull, Goodfellas, Gangs of New York, The Aviator og Mean Streets. Það er þó svo að Martin Scorsese hefur aldrei fengið viðurkenningu frá bandarísku kvikmyndaakademíunni. Hann hefur t.d. aldrei hlotið leikstjóraóskarinn. Hann hefur fimm sinnum verið tilnefndur. Töldu flestir hans stund komna hið minnsta árið 2005 en þá hlaut The Aviator flest óskarsverðlaun, en ekki í stærstu flokkunum. Clint Eastwood náði þá leikstjóraóskarnum.

Það verður spennandi að sjá þessa nýju mynd og kannski verður hún sú mynd sem loksins færir honum Óskar frænda eftir allt saman. Allavega, þessi mynd lofar góðu.

mbl.is Ný mynd Martin Scorsese beint á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband