Vilhjálmur Þ. á pólitískum berangri

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Pólitísk staða Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er mjög veik - virðist bara tímaspursmál hvenær hann hættir sem leiðtogi borgarstjórnarflokksins. Er engu líkara en að helstu stuðningsmenn hans í prófkjörinu 2005 hafi skilið hann eftir á pólitískum berangri. Ef undan eru skilin Guðlaugur Þór Þórðarson, leiðtogi flokksins í RN, og Marta Guðjónsdóttir, formaður Varðar, hef ég séð fáa úr baklandi Vilhjálms Þ. koma sjálfviljuga í fjölmiðla með stuðning við hann sem borgarstjóraefni.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og leiðtogi í RS, hefur sagst styðja Vilhjálm Þ. meðan hann gegni leiðtogastörfum en gat þó ekki í sömu hendingu lýst yfir stuðningi við hann sem borgarstjóra aftur. Það eru engin dæmi um það, svo ég muni allavega eftir, að formaður Sjálfstæðisflokksins geti ekki lýst afdráttarlaust yfir stuðningi við leiðtoga flokksins í borginni sem borgarstjóraefni. Yfirlýsing Geirs átti kannski að vera stuðningur en var það ekki. Hol og innantóm yfirlýsing sem var helst minnst fyrir innihaldsleysið, það að formaður flokksins bakkaði ekki Vilhjálm upp sem leiðtoga og til að leiða flokkinn áfram mikið lengur.

Ég er ósammála því mati Bjarna Benediktssonar, alþingismanns, að það sé veikast fyrir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson að borgarfulltrúar flokksins hafi verið ósýnilegastir í að tala um stöðu hans. Það sem er veikast fyrir hann er hversu lítinn stuðning hann fær úr baklandi sínu, hjá þeim sem bökkuðu hann upp í prófkjörinu 2005 og tryggðu honum sigur í spennandi leiðtogaslag við Gísla Martein Baldursson. Staða Vilhjálms Þ. er orðin það veik heilt yfir að hann verður að fara í bakland sitt og taka púlsinn á stöðunni. Þar ráðast örlög hans umfram allt, þó mér sýnist reyndar sem mjög hafi fjarað undan honum víða.

Staða Vilhjálms væri allt önnur ef hann hefði verið óskoraður leiðtogi borgarstjórnarflokksins alla tíð og hann hefði aldrei þurft að taka slag um leiðtogastöðuna. Það vita allir hvaða bakland hann hafði til að hljóta hana. Veikur opinber stuðningur úr því baklandi vekur því mesta athygli. Í vikunni sneri Deiglan baki við Vilhjálmi Þ, eða altént gaf honum mjög pent þau skilaboð að hann ætti að fara meðan að hann gæti. Pólitísk innistæða hans væri orðin nær engin og staðan heilt yfir veik. Þar var talað um Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í þátíð pólitísks styrkleika. Greinaskrifin þar sýndu hversu veikt baklandið var orðið.

Mér finnst Vilhjálmur Þ. standa mjög illa. Hef sagt áður að hann eigi að segja af sér leiðtogastöðunni og hugsa í þeim efnum um heill og hag Sjálfstæðisflokksins. Það er reyndar sorglegt hversu illa hann hefur farið með sterkt umboð úr prófkjöri en þau mistök eru augljós og verða ekki aftur tekin, sama hversu oft beðist er auðmjúklega afsökunar. Hann brást flokksmönnum, umfram allt þeim sem hafa stutt hann.

Baklandið þegir meðan að leiðtoginn riðar til falls. Þögn þeirra þessa febrúardaga er nokkuð hávær. Sú þögn stendur eftir þegar að veik staða Vilhjálms Þ. er greind.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán.

Það er ömurlegt til þess að vita að forystuteymi Sjálfstæðisflokksins skuli ekki geta komið Vilhjálmi í skilning um að hann er að stórskaða flokkinn með þrásetu sinni sem forystumaður í Reykjavík. Ef ekki verður um stefnubreytingu að ræða hjá Vilhjálmi á næstu dögum verður borgarstjórnarflokkurinn að taka af skarið og einfaldlega velja sér nýjan oddvita.

Á meðan á þessari krísu stendur fer Samfylkingarfólk hamförum í öllum fjölmiðlum með stanslausum árásum og niðrandi tali um Sjálfstæðisflokkinn. Og enginn sjálfstæðismaður grípur til varna.

Það er tvennt sem við sjálfstæðismenn þurfum að gera í þessari stöðu. Í fyrsta lagi verður að koma forystumálum flokksins í borginni í viðunandi horf nú þegar og skiptir þá litlu hvort núverandi meirihluti lifir eða deyr og ég verð að segja eins og er að ég er alveg kominn með upp í kok yfir ríkisstjórnarsamstarfinu. Var hlyntur því í upphafi en viðurkenni fúslega að þar hafði ég rangt fyrir mér. Flokkurinn verður að losa sig við Samfylkinguna úr samstarfi sem fyrst. Þetta er samsafn af óheilindafólki sem útilokað er að vinna með og mun stórskaða flokkinn til lengri tíma litið.

Það eru aðrir og betri kostir í stöðunni. Þetta er mín skoðun hrein og afdráttarlaus.

Kveðja,

Kári Lár.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 21:48

2 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Ég hef ætíð verið þeirra skoðunnar að menn beri að sýna ábyrgð í því sem menn eru kosnir til þ.e. ef menn bregðast trausti eiga menn að segja af sér.Ef menn vilja sækjast eftir því að vinna fyrir fólk á opinberum vettfangi þá bjóða menn sig aftur fram og þá er það fólksins að ákveða hvort maður hefur traust eða ekki til þess að fara með trúnaðarstöður

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 17.2.2008 kl. 01:04

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Tek undir með Kára sveitunga mínum frá Skagaströnd.

Hjörtur J. Guðmundsson, 17.2.2008 kl. 01:12

4 identicon

Vilhjálmur Þ. er í oddastöðu eins og allir í þessum borgarstjórnarmeirihluta. Þess vegna þorir engin í borgastjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að láta verkin tala þá þannig að taka af Vilhjálmi Þ. oddvitastöðuna.

Ef Vilhjálmur Þ. fengi þær fréttir frá sínum félögum að hann væri ekki lengur oddviti Sjálfstæðismanna í borginni myndi hann hafa það í hendi sér að sprengja borgastjórnameirihlutan sem svar við því.

Vegna þassara stöðu sem Sjálfstæðisflokkurinn er í borginni nota þeir sálfræðina og beita hann þögninni með von um að það þreytti hann til uppgjafar án þess að slóðin verði rakin til þessara félaga hans.

Það verður að virða það við Vilhjálm Þ. hversu ótrauður hann heldur áfram með sín borgarmálefni og gæti það sýnt okkur hinum að hann hefði lent í blindgötu þar sem aðrir í Sjálfstæðisflokknum í höfuðborginni hefðu ratað betur þó að þeir væru alveg jafn sekir. Ég trúi því að Vilhjálmur Þ. eigi eftir að koma borginni upp úr öldudalnum. 

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 01:47

5 identicon

Tek einnig undir með Kára S.Lárussyni hvað varðar Samfylkingarliðið. Þetta er sérkennileg framkoma, svo ekki sé meira sagt, sem það sýnir  samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Þeir hefðu betur verið látnir dúsa í stjórnarandstöðu nokkra áratugi í viðbót. Þar eru þeir best geymdirog öllum gleymdir. Vinstri Grænir hefðu örugglega starfað af meiri heilindum. Legg til að kratapakkinu verði skipt út sem fyrst. Kveðja, Benjamín. 

Benjamín Baldursson (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 02:27

6 identicon

Að axla ábyrgð: kennslustund Manulea Ramin Osmundsen, ráðherra jafnréttis- og barnamála í Noregi hefur sagt af sér eftir að hafa skipað vinkonu sína í embætti umboðsmanns barna. Hún er sögð hafa hvatt vinkonuna til að sækja um starfið og síðan sökuð um að segja ósatt um vinskapinn og haldið mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir Jens Stoltenberg forsætisráðherra. Fregnir frá Noregi herma að nú hafi hin nýskipaða vinkona einnig sagt upp störfum. Báðar hafa sem sagt axlað ábyrgð. (Sjá meira neðar)


Hér á landi er upplýsingum um þjónustusamning við einkafyrirtæki, kaupréttarsamninga og vildarkjör útvalinna í REI-málinu haldið leyndum fyrir kjörnum fulltrúum borgarinnar. Enginn virðist vita hvernig eigi að axla ábyrgð. Jafnvel þótt opinberlega sé farið frjálslega með sannleikann.



En meðal annarra orða. Sextán sóttu um stöðu umboðsmanns barna hér á landi árið 2004. Það tók forsætisráðuneytið aðeins þrjá daga að ráða Ingibjörgu Rafnar, lögfræðing (og eiginkonu Þorsteins Pálssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins) í stöðuna. Enginn umsækjenda var boðaður í viðtal og ekki var haft samband við einn einasta umsagnaraðila sem umsækjendur vísuðu til eins og m.a. greint var frá í fréttum Stöðvar 2 þann 5. desember 2004. Meðal umsækjenda voru Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Guðrún Frímannsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur á Barnaverndarstofu, Jón Björnsson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og þróunarsviðs Reykjavíkurborgar, Kristín Jónasdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, Vigdís Erlendsdóttir, forstöðumaður Barnahúss. Ekkert er vitað um störf Ingibjargar í í þágu barna í þeim tímapunkti sem hún var skipuð í embættið.
Menn létu ekki svo lítið að fara yfir umsóknir og meðmæli eða kalla að minnsta kosti þá sem augljóslega voru hæfastir í viðtöl.



Hversu lengi eiga íslenskir borgarar að þola annars og þriðja flokks stjórnsýslu og úr sér gengið klíkuþjóðfélag og kunningjastjórnmál?

Get ekki stillt mig um að copy/paste af bloggi Jóhanns Haukssonar

finnst þetta orð í tíma töluð og til eftirbreytni fyrir íslenska stjórnmálamenn 

Sæmundur (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 10:46

7 Smámynd: Óðinn Þórisson

Hvað ætla menn að leyfa VÞV að halda flokknum lengi í spennutreyju. 
VÞV er að stórskaða flokkinn - umhugsunartíminn er liðinn -
Það hlítur að vera núna bara dagaspursmál hvenær formaðurinn verður einfaldlega að höggva á hnútinn.
Geir hefur sagt að enginn sé stærri en flokkurinn, ef VÞV skilur það ekki er það skilda Geirs að koma honum í skilning um það.

Óðinn Þórisson, 17.2.2008 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband