Mögnuð rimma Guðna og Össurar

Guðni Ágústsson Össur Skarphéðinsson

Það var stór dagur í stjórnmálunum í gær þegar að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar til lækkunar matarverðs voru kynntar. Það var nokkuð magnþrungið að fylgjast með Guðna Ágústssyni, landbúnaðarráðherra, og Össuri Skarphéðinssyni, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, ræða þessar fréttir dagsins í flottri hörkurimmu í Kastljósi í gærkvöldi. Guðni og Össur voru ekki fyllilega sammála, eins og við var að búast og tókust á af krafti um matarverðið, tollana og landbúnaðarmálin. Það var reyndar Guðni sem átti reyndar orð gærdagsins er hann sagði á blaðamannafundi ráðherranna í Ráðherrabústaðnum: "Það munu allir kokkar í eldhúsum Íslands gleðjast".

Ég hef aldrei farið leynt með þá skoðun mína að Guðni Ágústsson sé nokkur fornaldarmaður í íslenskum stjórnmálum. Hann er kannski síðasti framsóknarmaður gamla tímans í forystu Framsóknarflokksins. Þó að margir telji Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, gamaldags stjórnmálamann er Guðni annað eintak. Hann er fulltrúi gömlu bændamenningarinnar og afkvæmi þeirra menningarheima innan Framsóknarflokksins. Það er óneitanlega oft skondið og skemmtilegt að heyra Guðna tala um stjórnmál frá sínu sjónarhorni. Hann er oft mjög orðheppinn og getur átt góða punkta í umræðuna. Ég er þó ekki alveg sammála honum í landbúnaðarmálunum.

Í þessari rimmu Guðna og Össurar heyrðum við tvær gjörólíkar hliðar á t.d. því hvernig koma eigi fram við landbúnaðinn. Guðni er talsmaður þess að slá upp verndarmúrum utan um allar hliðar landbúnaðarins. Það er mjög umdeild skoðun. Þessi niðurstaða stjórnarflokkanna sem kynnt er í gær er tímamótaniðurstaða, enda hefur Framsóknarflokkurinn aldrei fyrr ljáð máls fyrr á þeim meginbreytingum sem í yfirlýsingunni felast. Þetta er nokkuð í takt við það sem að Halldór Ásgrímsson sagði í kveðjuræðu sinni sem stjórnmálamaður í ágúst. Þetta er sú áhersla sem Halldór kynnti og Jón hefur fylgt eftir. Með vissum rammabreytingum fæst Guðni á þá skoðun.

Öll hljótum við að fagna þessari niðurstöðu. Hún boðar þáttaskil. Fyrst og fremst fylgdist ég ánægður með þessari rimmu Guðna og Össurar í sjónvarpssal. Það var rimma í kerskni og hressleika. Best af öllu fannst mér þó þegar að Guðni bauð Össuri með sér í sveitina til að kynna honum stöðu landbúnaðarins. Fyndið tilboð og fékk eflaust marga landsmenn til að hlæja. Það er óneitanlega fínt af landbúnaðarráðherranum að bjóða forystumönnum Samfylkingarinnar með sér í sveitasæluna. Mér skilst þó að slíkt hafi til þessa aðeins verið boðið leikskólabörnum í þéttbýlinu.

mbl.is SVÞ fagna ákvörðun ríkisstjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband