Mikhail Gorbachev kemur til Íslands

Mikhail Gorbachev

Í dag eru tveir áratugir liðnir frá því að Mikhail Gorbachev, þáv. leiðtogi Sovétríkjanna, kom til Íslands á leiðtogafund sinn með Ronald Reagan, þáv. forseta Bandaríkjanna. Á morgun kemur hann aftur hingað, nú til að minnast tveggja áratuga afmælis leiðtogafundarins. Mun hann dveljast hér nokkra daga. Á fimmtudag mun hann halda fyrirlestur í Háskólabíói um fundinn og áhrif hans á alþjóðastjórnmál. Sjálfur hefur Gorbachev sagt að leiðtogafundurinn í Höfða í Reykjavík í október 1986 hafi haft úrslitaáhrif um að kalda stríðinu lauk og hafi verið örlagaríkur fyrir samskipti Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, sem liðu undir lok með kalda stríðinu í byrjun tíunda áratugarins.

Það verður fróðlegt að fylgjast með komu Gorbachev til landsins, heyra boðskap hans og skoðanir t.d. á alþjóðastjórnmálum í dag, í breyttum heimi. Það er jú fátt sem að minnir á stöðuna sem uppi var októberdagana fyrir tveim áratugum þegar að hann kom hér síðast. Staða Bandaríkjanna er vissulega jafn öflug en ekki er hægt að segja annað en að staðan í austurvegi sé gjörbreytt. Sovétríkin liðuðust upp og eftir stendur breyttur heimur. Það verður því fróðlegt að heyra í Sovétleiðtoganum fyrrverandi. Ronald Reagan veiktist nokkrum árum eftir leiðtogafundinn af Alzheimer-sjúkdómi og sagði aldrei sína sögu af fundinum fyllilega. Hann lést árið 2004.

Ég hef aldrei farið leynt með að ég tel Mikhail Gorbachev einn merkasta stjórnmálamann níunda áratugarins. Hann hafði lykilstöðu í því að ljúka kalda stríðinu, fella járntjaldið og kommúnismann og síðast en ekki síst breyta heimsmyndinni. Þetta voru örlagatímar á þessum árum. Hann skipar þar sama sess og Reagan, Margaret Thatcher og Jóhannes Páll II páfi, sem þrátt fyrir að spila ekki hlutverk í stjórnmálaheiminum varð áhrifamikill um gang mála á þessum tíma. Gorbachev hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1990 fyrir framlag sitt til friðar. Vissulega er hann ekki fullkominn friðarpostuli, frekar en margir, en hans hlutverk á þessum örlagaríku tímum er nær óumdeildur.

Um er að ræða því stóran viðburð að hann komi hingað og fylgst verður vel með fyrirlestri hans. Leiðtogafundurinn 1986 hafði mikla sögulega þýðingu og fróðlegt að heyra minningar Sovétleiðtogans fyrrverandi frá fundinum í þessari Íslandsför.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband