Mjög tvísýnar kosningar í Bandaríkjunum

Dennis Hastert

Það stefnir í mjög spennandi þingkosningar í Bandaríkjunum eftir mánuð. Staðan er slæm fyrir repúblikana. Það stefnir í að fulltrúadeildin sé töpuð nú, jafnvel öldungadeildin líka. Þetta verður harður slagur seinustu vikurnar. Foley-hneykslið hefur skaddað Repúblikanaflokkinn verulega. Flokkurinn sem hefur viljað telja landsmönnum trú um síðustu árin að hann sé táknmynd heiðarleika og virðingar í bandarískum stjórnmálum er skaddaður vegna siðferðishneykslismála og vandræðagangs. Fyrir ári hefði sá sem spáð hefði um að repúblikanar myndu missa yfirráðin í báðum þingdeildunum væntanlega verið talinn verulega galinn. Svo er ekki nú um stundir.

Það er ekki hægt að segja annað en að staða Dennis Hastert, forseta fulltrúadeildarinnar, sé verulega slæm. Hann svaf alltof lengi á verðinum í Foley-málinu og hlýtur að vera í verulega vandræðalegri stöðu gagnvart umbjóðendum sínum í Illinois þessar vikurnar. Pressan var mikil á hann um að segja af sér, en hann gerði það ekki og sneri vörn í sókn með stuðningi forsetans og lykilráðgjafa hans. Það blasir við öllum að titringur er á valdamestu stöðum í Washington þessar vikurnar með stöðuna eins og hún er. Bush, Bandaríkjaforseti, mun missa nær allt pólitískt vald sitt í raun og veru innanlands fari svo að önnur, eða jafnvel báðar þingdeildirnar tapist flokknum.

Ný skoðanakönnun sem birtist í dag sýnir vaxandi fylgi demókrata á nær öllum vígstöðvum. Fulltrúadeildin er töpuð í þeirri könnun fyrir repúblikana og öldungadeildin á ystu nöf. Meirihluti flokksins í báðum deildunum er veglegur nú. Til dæmis þurfa demókratar að bæta við sig rúmum 15 sætum í fulltrúadeildinni og 6 í öldungadeildinni til að snúa þeim við. Það virðist nú geta gerst, fari allt á versta veg. Enn er þó mánuður til stefnu og væntanlega mun Bush reyna að gera allt til að varna því að missa yfirráð þingsins. Fari svo verða seinustu tvö ár forsetaferilsins sem martröð fyrir hann, án valdsins sem fylgir yfirráðum þingdeildanna syrtir verulega í álinn.

Ég fylgdist fyrst af alvöru með þingkosningum vestanhafs árið 1994. Það voru sögulegar kosningar. Repúblikanar náðu þá yfirráðum í fulltrúadeildinni eftir áratuga minnihlutasetu þar og náði öldungadeildinni ennfremur á sitt vald. Það var á þeim árum sem að Clinton var veikastur á stormasömum valdaferli. Síðan hefur flokkurinn ráðið fulltrúadeildinni en öldungadeildin hefur rokkast á milli flokkanna, en repúblikanar hafa samfellt ráðið henni nú frá janúarmánuði 2003.

Það verður óneitanlega mjög spennandi að fylgjast með þessari pólitísku stöðu næstu vikurnar vestan hafs og hvort að repúblikanar ná að snúa vörn í sókn í þessari erfiðu stöðu. Það hlýtur að vera svo að repúblikanar búast við hinu versta en vona hið besta þessar vikur í kosningabaráttunni sem er hin erfiðasta sem þeir hafa háð til fjölda ára.

mbl.is Demókratar auka forskot sitt í aðdraganda þingkosninganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband