Bæjarstjóraembættið á Akureyri

Kristján Þór Júlíusson

Ég hef fengið margar spurningar síðustu daga hvernig verði með bæjarstjóraembættið hér á Akureyri fari svo að Kristján Þór Júlíusson sigri væntanlegt prófkjör flokksins í kjördæminu. Það er erfitt að fullyrða eitthvað um það, fyrr en að loknu prófkjöri. Mér finnst þó felast í yfirlýsingu Kristjáns Þórs að sigri hann prófkjörið muni hann hætta sem bæjarstjóri og halda algjörlega í þingframboðið. Í raun liggur með þessu öllu fyrir endanlega að hann fer ekki aftur í bæjarmálaframboð og hefur sagt skilið við bæjarmálin í raun og veru. Það vissu það í raun allir bæjarbúar þegar í vor að hann yrði ekki bæjarstjóri allt kjörtímabilið og skil væru komin á hans langa bæjarstjóraferil.

Það er vissulega nokkur óvissa í loftinu með stöðuna eins og hún er nú. Mikilvægt er að henni verði eytt sem allra fyrst eða í síðasta lagi eftir prófkjörið, sem verður væntanlega fyrir lok næsta mánaðar. Það hefur aldrei farið okkur vel að ekki sé stöðugleiki yfir. Það hefur þó í mínum huga blasað við um langt skeið að hér yrðu þrír bæjarstjórar á kjörtímabilinu. Þegar er ljóst að Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs, verður bæjarstjóri sumarið 2009 og verður bæjarstjóri því síðasta ár kjörtímabilsins. Það hefur varla þurft skynsaman stjórnmálaspekúlant til að sjá að Kristján Þór yrði vart formaður bæjarráðs eftir þá breytingu.

Við sjálfstæðismenn eigum samkvæmt meirihlutasamningi embætti bæjarstjórans í tæp þrjú ár enn. Það er okkar að taka ákvörðun um nýjan bæjarstjóra á Akureyri fari svo að Kristján Þór Júlíusson verði leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að loknu prófkjöri. Það liggur fyrir eftir viðtal Ríkisútvarpsins við bæjarstjórann að hann muni ekki vera í forystu Akureyrarkaupstaðar áfram liggi fyrir að hann taki sæti á Alþingi. Það hlýtur því að vera með þeim hætti að hann hætti sem bæjarstjóri að loknu prófkjörinu sigri hann það, enda liggur þá fyrir að hann taki sæti á Alþingi.

Í öllu falli munum við skipa embætti bæjarstjórans á næstu þrem árum. Fari svo að pólitísk þáttaskil blasi við Kristjáni Þór á næstu vikum, sem reyndar þegar hafa gerst með þessu þingframboði, mun það verða leyst fljótlega. Við eigum nóg af hæfileikaríku og öflugu fólki sem getur tekið við bæjarstjóraembættinu á Akureyri í okkar umboði. Allt mun þetta því ráðast fljótlega, að mínu mati.


Sigrún Björk, Helgi Vilberg og ég

Læt hérmeð fylgja með mynd frá fulltrúaráðsfundinum á mánudag, sem kemur úr tíufréttum Sjónvarps á mánudagskvöldið. Þarna erum við; Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Helgi Vilberg, ritstjóri Íslendings, og ég.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband