12.10.2006 | 15:23
Jón Baldvin og hlerunarmálið

Enn skrautlegri verður atburðarásin í hlerunarmálinu svokallaða sem snýr að Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrum utanríkisráðherra og formanni Alþýðuflokksins. Jón Baldvin hefur nú staðfest sjálfur að hann lét ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995 ekki vita af þessu og væntanlega lét hann ekki heldur samherja sína innan Alþýðuflokksins vita af því heldur. Ef marka má Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra á þeim tíma, sem var nánasti samstarfsmaður Jóns Baldvins í formannstíð hans vissi hann ekki af þessu á þeim tíma sem þetta á að hafa gerst. Þetta er því að öllu leyti verulega flókið og undarlegt mál.
Skv. upplýsingum Jóns Baldvins í viðtali í dag stendur hann fullyrðingar sínar þess efnis að tæknimenntaður maður eigi að hafa sagt við sig að skrifborðssími hans í utanríkisráðuneytinu hafi verið hleraður. Hann segist í gær hafa fengið staðfestingu þessa eftir að hafa talað við fyrrum yfirmann í tæknideild Landssímans. Þetta er nokkuð kostulegt. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvað gerist núna, heldur hvað gerðist og hvernig á þeim tíma sem upp á að hafa komist. Það er með algjörum ólíkindum að Jón Baldvin hafi ekki gert málið opinbert í utanríkisráðherratíð sinni og ekki heldur gert nánum samstarfsmönnum sínum á stjórnmálavettvangi grein fyrir því.
Jón Baldvin virðist velja morgunþátt Jóhanns Haukssonar sem vettvang uppljóstrana af svo stóru tagi. Í morgun var hann þar aftur að ræða þessi mál af krafti. Ég verð að segja það alveg eins og er fyrir mig að ég undrast framgöngu og talanda Jóns Baldvins. Hví var þetta ekki gert opinbert eða rannsakað fyrir þrettán árum? Við hvað á Jón Baldvin að hafa verið hræddur? Við erum ekki að tala um neinn undirmálsmann í íslenskum stjórnmálum. Jón Baldvin gekk frá tveimur ríkisstjórnum á sínum stjórnmálaferli, bæði ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar árið 1988 og svo hljóp hann á brott frá Steingrími og Ólafi Ragnari árið 1991 er hann gekk til stjórnarsamstarfs með Davíð Oddssyni.
Ef marka má talsmáta Jóns Baldvins segir hann nú frá því að yfirmaðurinn hjá tæknideild Símans eigi að hafa tekið eftir ókunnugum manni í tengigrindarsal Landssímans sem hefði setið þar með hlustunartæki. Yfirmaðurinn eigi að hafa hlustað á þegar að maðurinn skrapp frá og þar hafi hann heyrt samtal Jóns Baldvins við háttsettan mann. Mér finnst þetta svo alvarlegt mál að viðkomandi maður á að koma fram og greina frá því sem hann vissi um og undir nafni auðvitað. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það þarf nú allt að koma fram í þessum efnum. Mér finnst þetta vera svo alvarlegt mál í alla staði að öll atriði verði að koma fram. Það er ekki viðunandi að hafa málið svona.
Eftir stendur að Jón Baldvin sat á þessum upplýsingum með að hafa vitað af síminn eigi að hafa verið hleraður í heil 13 ár. Það er ótrúlega langur tími og með ólíkindum alveg hreint að hann hafi ekkert notað málið sér í hag, t.d. þegar að Alþýðuflokkurinn klofnaði og gekk í gegnum mörg siðferðishneykslismál. Það eru því margar spurningar sem eftir standa. Þeim verður að svara. Undarlegast af öllu er að Jón Baldvin hafi ekki greint neinum samstarfsmanni sínum frá þessu, t.d. ekki forsætisráðherranum og dómsmálaráðherranum. Þetta er svo gríðarlega stórt mál að það er engin heil brú í því að ekki hafi málið verið rætt í valdatíð þessarar ríkisstjórnar fyrir 13 árum.
Í gær gagnrýndi Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, Jón Baldvin og framkomu hans síðustu daga, enda hefði hann ekki rætt málið innan ríkisstjórnarinnar. Það vekur enda athygli t.d. að Jón Baldvin nefndi þetta mál ekki í þrengingunum í kosningabaráttunni 1995 og ekki heldur eftir að Davíð sleit samstarfinu við Alþýðuflokkinn vorið 1995. Það eru því margar spurningar í málinu.
Það er ekki nóg fyrir Jón Baldvin að gefa í skyn að samstarfið hafi verið veikt, enda vita allir að hann íhugaði annað stjórnarmynstur í miðju þessu samstarfi. Það kemur fram í ævisögu Steingríms Hermannssonar. Það verður seint sagt að Jón Baldvin hafi verið neyddur til samstarfs við Davíð. Það var jú Jón Baldvin sjálfur sem tryggði að Davíð varð forsætisráðherra árið 1991.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Facebook
Athugasemdir
Ég veit það bara að mér finnst það fyrir neðan allar hellur að Jón Baldvin hafi ekki greint samstarfsmönnum sínum frá þessu og bíða í heil þrettán ár. Það er ámælisvert, mjög einfalt mál. Ég veit ekki betur en að vel komi fram í skrifum mínum að ég vilji öll mál upp á borðið, svo að ég skil ekki skrif þín.
Stefán Friðrik Stefánsson, 12.10.2006 kl. 15:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.