Merkilegar hugleiðingar Þórarins um VG

Þórarinn Hjartarson

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki daglegur gestur á vefnum Múrinn. En ég leit þangað í gær og sá þar merkilega grein Þórarins Hjartarsonar um VG, flokk Steingríms J. Sigfússonar. Það var athyglisverð lesning. Eins og margir vita er Þórarinn sonur Hjartar E. Þórarinssonar, bróður Kristjáns Eldjárns, þriðja forseta lýðveldisins. Hjörtur, sem var bóndi á Tjörn og þekktur framsóknarmaður var mikill héraðshöfðingi í Svarfaðardal allt til dánardags árið 1996. Afkomendur hans hafa þótt vera mjög til vinstri. Allir sem þekkja til Þórarins vita að pólitík hans er mjög til vinstri. Hann hefur verið stoltur af þeirri stefnu og hann hefur óhikað haft skoðanir á þjóðmálum alla tíð.

Það er mjög merkilegt að sjá skrif Þórarins um VG. Þar er að finna hárbeitta gagnrýni á starfið innan VG og skipulag á ýmsum grunni. Greinilegt er að hann telur VG ekki nógu vinstrisinnað fyrir sinn smekk og finnur að ýmsu þar innbyrðis. Mikið hefur verið rætt og ritað um málefni VG og hvernig flokkurinn starfar. Það er mikið talað um að Steingrímur J. Sigfússon miðstýri flokknum sem eigin veldi að öllu leyti. Mikið hefur heyrst um inngrip hans í framboðsmálum fyrir kosningarnar 2003, t.d. í Norðvestur- og Suðvesturkjördæmi. Flestir muna t.d. eftir darraðardansinum sem varð um leiðtogastólinn í kraganum þar sem SJS beitti sér.

Það vekur mikla athygli að stjórn kjördæmisráðs VG í Suðurkjördæmi sæki leiðtogaframbjóðanda í Atla Gíslasyni, lögmanni. Það er nokkuð merkilegt að þeir vinstrimenn sem gagnrýndu innkomu Árna M. Mathiesen inn í þingframboð í Suðurkjördæmi þar sem hann fer í prófkjör finni ekki að því hvernig rauðum dregli er hent inn fyrir Atla. En þetta er eins og það er. Það stefnir að auki í merkilegt prófkjör hjá VG í þrem kjördæmum, þar sem sameiginleg kosning verður á lista í kraganum og borgarkjördæmunum. Það eru vissulega nokkuð nýir tímar í prófkjörssögu landsins að þar sé kosið í þrem kjördæmum, en borgin er vissulega eitt sveitarfélag.

Hér í Norðausturkjördæmi verður forval skilst manni, þar sem fólk getur gefið kost á sér og flokksmenn geta nefnt ný nöfn. Er á hólminn kemur er það mál kjörnefndar að stilla upp listanum til kjördæmisþings. Ég er svolítið hissa á Steingrími J. að hafa ekki prófkjör með því lagi og þar sé gefið færi á jafnmikilli spennu og einkennir t.d. nú framboðsmálin hjá okkur sjálfstæðismönnum og samfylkingarmönnum. En kannski er það ekkert undarlegt með hliðsjón af skrifum Þórarins. Það var fróðlegt að lesa hana og sjá hvernig að vinstrisinnaður hugsjónamaður lítur á flokkinn sinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvaða VG-maður hefur gagnrýnt flutning Árna Matt milli kjördæma? Þú hlýtur að hafa eitthvert dæmi í huga - eða hvað?

Fyrir fjórum árum bauð VG í Suðurkjördæmi fram Reykvíkinginn Kolbein Óttarsson Proppé. Mér finnst því afar skrítið ef satt er að einhverjir VG-arar á Suðurlandi hafi verið að hnýta í Árna Matt.

Það getur svo sem vel verið að einhverjir Samfylkingarmenn hafi reynt að gera mál úr þessu - en hverju skiptir það í þessu samhengi?

Stefán (IP-tala skráð) 12.10.2006 kl. 21:46

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll nafni

Ég sagði vinstrimenn, hefði kannski átt að segja Samfylkingarmenn. Annars er ég ekki að hnýta í Atla, sem ég tel mjög góðan frambjóðanda og svo mikið er víst að hann yrði betri kandidat á þing í Suðurkjördæmi, en margir þeirra sem nefndir eru sem möguleg þingmannsefni Samf. í Suðrinu.

Heilt á litið er ég þeirrar skoðunar að hafi menn stuðning flokkskjarnans í kjördæmum til verka skipti engu máli hvort hann hafi lögheimili í næsta kjördæmi eða hinumegin á landinu. Þetta snýst allt um það. Ég var bara að benda á tvískinnunginn í Samfylkingarmönnum í Suðurkjördæmi sem kom fram þegar að Árni Matt færði sig.

Er á hólminn kemur tel ég það happafeng fyrir VG í S-kjördæmi að fá Atla, svo ég segi það hreint út. Annars sýnist mér VG vera að mælast mun betur allsstaðar en var í aðdraganda kosninganna 2003 svo þetta gætu vel orðið mjög góðar kosningar fyrir flokkinn, t.d. er hann á pari við SF í NA og stærri í NV.

mbk. Stefán Fr.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.10.2006 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband