Sögulega lágt áhorf á áttræðisafmæli Óskarsins

Daniel Day Lewis, Tilda Swinton, Marion Cotillard og Javier Bardem Það eru nokkuð merkileg tíðindi að aldrei hafi færri horft á Óskarsverðlaunin en nú, á áttræðisafmæli hátíðarinnar. Það þarf kannski ekki að koma að óvörum, en það vakti athygli mína að ekki var eins mikið um stór og grípandi skemmtiatriði á hátíðinni eins og oft hefur verið. Þrátt fyrir áttræðisafmælið var lítið um mögnuð söngatriði eins og var þegar að fagnað var sjötugs- og sjötíuogfimm ára afmælinu 1998 og 2003.

Það þurfti að vera mikill kvikmyndaáhugamaður til að sitja yfir prógramminu og mér persónulega fannst gaman af hátíðinni, en það er auðvitað einkum vegna þess að ég hef fylgst með óskarnum í tvo áratugi og hef gaman af þessu. Það er löngu þekkt staðreynd að fáir hafa gaman af tækni- og umgjörðarverðlaunum kvikmyndanna og því hefur verið kryddað vel inn á milli af góðri tónlist, skemmtilegum klippum og góðum atriðum þar sem fjallað er um kvikmyndir með öðruvísi hætti.

Tónlistaratriðin voru beinlínis hundleiðinleg að þessu sinni. Það voru óvenjulega slöpp lög tilnefnd sem besta kvikmyndalagið að þessu sinni og gerðu atriðin með tilnefndu lögunum lítið til að lyfta hátíðinni upp. Svo vantaði tilfinnanlega að farið væri betur yfir óskarssöguna með veglegri klippum, með því að heiðra leikara og hafa þá saman á sviðinu, eins og gert var 1998 og 2003 og var velheppnað og tónlistarupprifjun á þeim lögum sem hafa unnið óskarinn. Burt Bacharach setti saman eftirminnilegt tónlistarprógramm á óskarnum fyrir sjö árum sem lyfti þeirri hátíð vel upp og slíkt hefði verið vel þegið nú.

Það er því orðið svo að það eru allra hörðustu aðdáendur kvikmyndanna og hátískunnar sem sitja yfir prógramminu, sumir gefast upp í biðinni eftir flottustu verðlaununum og stórtíðindunum. Það gerðist reyndar nú að þeim var dreift meira um dagskrána en hefur oft verið. Með þessu fékkst ágætis dreifing á spennandi lykilatriði kvöldsins. Það sem vantaði var gott krydd inn á milli af tónlist og kvikmyndasögu og sérstaklega þar sem þetta var afmælishátíð.

Kynnirinn Jon Stewart stóð sig hinsvegar mjög vel og var með góða brandara, stóð sig mun betur en þegar hann kynnti fyrir tveim árum. Það er því ekki honum að kenna að áhorfið hafi náð botni. Það sem vantaði var almenn afþreying, enda eru ekki allir til í að sitja yfir sjónvarpinu vel á fjórða tímann yfir tækni- og umgjörðarverðlaunum kvikmyndanna í bið eftir stóru verðlaununum, án þess að fá einhverja létta og góða skemmtun inn á milli.

mbl.is Áhorf á Óskarsverðlaun í lágmarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Freyr Bergsteinsson

Er þessi skortur á afþreyingarefni bein afleiðing af nýafstaðnu verkfalli handritshöfunda? Menn höfðu bara nokkra daga til að henda saman prógram í hátíðina.

Freyr Bergsteinsson, 26.2.2008 kl. 13:59

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Í og með hafði það áhrif, en þeir sem stóðu að verðlaununum plönuðu tvær hátíðir allan tímann; þá fyrri sem fór fram með eðlilegum hætti og aðra þar sem var kvikmyndaumfjöllun um sögu akademíunnar án stóru stjarnanna (enda hefðu flestar setið heima ef verkfallið hefði staðið enn) og með lágstemmdri tilkynningu um sigurvegarana. Það var því undirbúið allan tímann vel þetta show. Það sem vantaði var bara alvöru atriði sem kengur var í, alvöru tónlist og góð kvikmyndaupprifjun. Tilnefndu lögin drógu hátíðina mjög niður, fannst mér, enda verulega leiðinleg lög öll og ekki beint til að styrkja showið.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.2.2008 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband