Mýrin

Mýrin

Síðustu daga hef ég verið að rifja upp kynnin af spennusögunni Mýrinni eftir Arnald Indriðason. Að mínu mati er þetta ein allra besta bók Arnaldar, virkilega vel skrifuð og inniheldur flotta spennufléttu. Nú á næstu vikum mun sagan Mýrin birtast okkur ljóslifandi í kvikmyndahúsunum, en kvikmynd Baltasars Kormáks eftir sögu Arnaldar verður brátt frumsýnd. Nú á seinustu árum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar Indriðasonar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við.

Mýrin er vel rituð saga og það verður mjög áhugavert að sjá kvikmyndina. Þar munum við sjá rannsóknarlögreglumennina Erlend, Elínborgu og Sigurð Óla ljóslifandi í fyrsta skipti. Öll höfum við sem lesið hafa bækurnar um þetta harðsnúna þríeyki í lögreglustörfunum séð þau fyrir okkur og gert okkur í hugarlund hvernig persónur þetta séu, utan við karakterlýsingarnar sem Arnaldur hefur fært okkur. Það verður merkilegt að sjá Ingvar E. Sigurðsson í hlutverk Erlendar Sveinssonar, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur í hlutverki Elínborgar og Björn Hlyn Haraldsson sem Sigurð Óla. Hvort að þeim tekst að túlka persónur með þeim hætti sem ég ímynda mér þær verður spennandi að sjá.

Mér fannst valið á Ingvari E. í hlutverk Erlendar mjög merkilegt á sínum tíma, er Baltasar tilkynnti um leikaravalið. Í sannleika sagt hafði ég byggt mér upp tilhugsunina um Erlend sem annan karakter og nokkuð eldri en þetta. Ingvar er einn allra besti leikari landsins og hefur margoft sýnt okkur hvers hann er megnugur. Ég hef séð smá ljósmyndabrot úr kvikmyndinni og þar er Ingvar með skegg og gerður mun eldri en hann er. Væntanlega er óþarfi að efast um hvort honum gangi vel í hlutverkinu. En burðarhlutverk er þetta og það munu allir sem fara í bíó staldra við það hvernig Ingvar E. mun túlka Erlend, enda er hann með sess í huga okkar allra og mikils metinn sögupersóna.

Ég las Mýrina fyrst um jólin sem bókin kom út. Ég las hana algjörlega upp til agna þá þegar og las hana strax í gegn. Þetta er algjört meistaraverk, þó reyndar telji ég Grafarþögn og Kleifarvatn standa henni örlítið framar. En allar skapa þessar bækur magnaða heild og við munum vonandi sjá allar þessar bækur birtast okkur ljóslifandi á hvíta tjaldinu á næstu árum. Ég efast vart um að kvikmyndin Mýrin verður vel heppnuð og hlakka til að sjá hana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búsattur í Svíþjóð og hef lesið bækur hans á sænsku og ég verð að segja að ég elska bækurnar hans og ég vona að myndin verði jafn góð.

Bara svona í gamni, þá er kannski vert að segja að tveir vinnufélagar mínir (Svíar), elska bækurnar hans.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 14.10.2006 kl. 08:15

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, þetta eru alveg frábærar bækur. Mjög áhugaverðar að lesa og spennandi að sjá hvernig tekst að færa t.d. Mýrina yfir á hvíta tjaldið. Held að allir spennufíklar dýrki sögurnar hans um Erlend og félaga. Vel skrifaðar og ekta spenna með íslensku ívafi, hann er ekkert að kópera annan sakamálaheim, heldur yfirfærir þetta allt vel á Íslandi. Þess vegna eru Íslendingar svo hrifnir af þessu, og aðrir sem lesa um allan heim.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.10.2006 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband