Prófkjör í Norðausturkjördæmi í nóvember

Sjálfstæðisflokkurinn

Samþykkt var á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldið var um helgina að Skjólbrekku í Mývatnssveit, að halda prófkjör til að velja frambjóðendur á framboðslista flokksins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar að vori. Ákveðið er að prófkjör fari fram laugardaginn 25. nóvember og talning fari fram á Akureyri sunnudaginn 26. nóvember, enda tekur tíma að flytja öll kjörgögn til Akureyrar til talningar. Á fundinum var kjörin kjörnefnd til að halda utan um allt prófkjörsferlið, en mikil vinna er framundan í þeim efnum, og var Anna Þóra Baldursdóttir, lektor á Akureyri, kjörin formaður kjörnefndarinnar.

Á fundinum tilkynntu níu um framboð í væntanlegu prófkjöri. Frambjóðendur eru: Arnbjörg Sveinsdóttir, Björn Jónasson, Kristinn Pétursson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Sigríður Ingvarsdóttir, Sigurjón Benediktsson, Steinþór Þorsteinsson og Þorvaldur Ingvarsson. Arnbjörg, Kristján Þór og Þorvaldur gefa öll kost á sér í leiðtogasætið, en hinir stefna á neðri sæti. Samkomulag er um að binda allt að sex sæti í prófkjörinu. Búast má við að fleiri framboð gætu jafnvel borist en framboðsfrestur mun renna út þann 25. október nk, eða eftir tíu daga. Það stefnir því í spennandi prófkjör, en fólk frá öllum svæðum hefur tilkynnt um framboð.

Það eru viss tímamót fólgin í ákvörðun um prófkjör. Ekki hefur farið fram prófkjör við þingkosningar í norðurhluta Norðausturkjördæmis frá árinu 1987. Prófkjör fór fram í Austurlandskjördæmi árið 1999. Í aðdraganda kosninganna 2003 var rætt um valkostina og ákveðið þá að stilla upp, en þá voru fjórir þingmenn í kjördæmahlutunum gömlu og voru þeir í efstu sætum listans. Nú eru aðrir tímar. Halldór Blöndal, leiðtogi okkar, hefur ákveðið að hætta á þingi og við eigum bara einn þingmann sem ætlar í prófkjörið, en hún tók sæti á kjörtímabilinu, enda féll hún í kosningunum 2003. Það er eðlilegt og hið eina rétta að nú fái allir flokksmenn að velja listann. Það er gleðiefni. 

Á fundinum fór fram kjör í trúnaðarstöður. Var Guðmundur Skarphéðinsson endurkjörinn sem formaður kjördæmisráðsins. Var ég endurkjörinn til trúnaðarstarfa hjá kjördæmisráði flokksins í Norðausturkjördæmi og þakka ég það traust sem mér var sýnt með kjöri þriðja kjördæmisþingið í röð. Það eru spennandi tímar framundan og verður ánægjulegt að fylgjast með því sem gerist á næstu vikum í spennandi prófkjöri.

Ég verð ekki í kjöri í prófkjörinu svo að ég hef mjög frjálsar hendur á að skrifa um menn og málefni okkar hér á vefnum. Ég mun tjá skoðanir mínar mjög vel á því sem fram fer í þeim efnum á næstunni hér á vef mínum. Þetta verður lifandi vettvangur skrifa, eins og ávallt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband