Hið sannkallaða uppáhald kvikmyndanna



Hef oft verið spurður um hver uppáhaldsmyndin mín sé, hvort hún sé bandarísk eða bresk. Mörgum til undrunar segi ég jafnan að hún sé ítölsk. Cinema Paradiso hefur verið uppáhaldsmyndin mín síðan að ég sá hana fyrst fyrir tæpum tveim áratugum. Hún er einn ljúfasti og sannasti óður sem nokkru sinni hefur verið gerður til kvikmyndanna. Þar smellur allt einhvern veginn saman og úr verður kvikmynd sem rís upp úr öllu öðru. Fellini er auðvitað besti kvikmyndaleikstjóri Ítala og átti margar traustar myndir en Paradísarbíóið er einfaldlega einstök.

Vissulega hafa margar bandarískar og breskar kvikmyndir heillað mig en á öðrum nótum en Paradísarbíóið. Annars er evrópsk kvikmyndamenning mjög traust og sem betur fer erum við aðeins farin að líta út fyrir glampa Hollywood þegar að við metum myndir. Spænskar, franskar og ítalskar myndir eru enda mjög traustar, svo hefur mér alltaf þótt gaman af þýskum myndum. 

Hitch, Allen, Capra, Lean, Spielberg og Wilder hafa verið þeir leikstjórar sem ég met mest frá Bandaríkjunum og Bretlandi, en snilld þeirra er annars eðlis en hin evrópska. Þetta er ágætt saman í bland vissulega. Það er vonandi að evrópsk kvikmyndamenning fari að blómstra meira hérna heima en hefur lengi verið og mér finnst viss vakning vera orðin í kvikmyndamenningu með að horfa ekki bara til Bandaríkjanna.

En ég hvet alla sem ekki hafa séð Paradísarbíóið til að sjá hana. Ein traustasta stoð myndarinnar er tónlist meistarans Ennio Morricone, sem er að mínu mati besta kvikmyndatónskáld sögunnar. Ástaróðurinn hans í myndinni, sem hljómar í efri klippunni, er að mínu mati fallegasta kvikmyndatónverk sögunnar, en aðalstef myndarinnar, á neðri klippunni, er þó ekki mikið síðra.

Morricone hefur alltaf kunnað þá list að semja tónlist sem hittir í hjartastað. Eitt fallegasta kvikmyndatónverk hans, Heaven úr Days of Heaven er í tónlistarspilaranum auk hins frábæra lags Cavallina a Cavallo sem hann samdi sérstaklega fyrir Ciccolinu, og hún söng svo eftirminnilega.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Elska paradíar bíó hún er æði.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 4.3.2008 kl. 14:34

2 Smámynd: Tiger

Gamlar Ítalskar kvikmyndir eru gullmolar. Uppáhaldsleikkonan mín hér áðurfyrr og er enn, er hin gullfallega Sophia Loren - og hef ég séð mjög margar góðar myndir með henni. Þó ég hafi ekki spáð mikið í það þá gruna ég að Fellini hafi einmitt leikstýrt henni af og til.. enda stórleikkona og mikill leikstjóri. Hinu megin hafsins ræður hjarta mínu önnur gullfalleg leikkona, en það er hin sígilda drottning Elisabet Taylor. Spielberg er í miklu uppáhaldi hjá mér..

Tiger, 4.3.2008 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband