Ályktun stjórnar SUS um RÚV-frumvarp

RÚV

Við í stjórn SUS sendum í dag frá okkur þessa góðu ályktun, þar sem við lýsum sárum vonbrigðum okkar með að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins standi nú að frumvarpi sem ætlað er að efla rekstur Ríkisútvarpsins og styrkja stöðu þess á fjölmiðlamarkaði.

"Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir sárum vonbrigðum sínum með að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins standi nú að frumvarpi sem ætlað er að efla rekstur Ríkisútvarpsins og styrkja stöðu þess á fjölmiðlamarkaði. Það stangast á við grundvallarhugmyndir sjálfstæðisstefnunnar að ríkisvaldið standi í samkeppni við einkaaðila, hvort sem það er á sviði fjölmiðlunar eða öðrum sviðum atvinnulífs.

Það er sorgleg staðreynd að engin skref hafa verið stigin í frjálsræðisátt í málefnum ríkisfjölmiðlunar frá því að þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, fékk samþykkt á Alþingi frumvarp sem afnam einkaleyfi ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri. Síðan þá eru liðnir rúmlega tveir áratugir.

Varðandi menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins, ítrekar SUS fyrri afstöðu sína þess efnis að ríkisstyrkt menning kæfir frumkvæði og sköpunargleði einstaklinga. Þegar stjórnmálamenn deila fé úr sameiginlegum sjóðum til sérhagsmunahópa er slík úthlutun jafnan eftir geðþótta fremur en hæfileikum listamanna og eftirspurn. Með því eru stjórnmálamenn í raun að þröngva upp á borgarana sínum eigin smekk á því hvað skuli vera menning. Hin raunverulega menning þokar þannig fyrir ríkismenningunni.

Þær fyrirætlanir menntamálaráðherra að auka skilvirkni í starfsemi Ríkisútvarpsins með hinu nýja frumvarpi eru góðra gjalda verðar. Ríkisrekstur á fjölmiðlamarkaði er hins vegar tímaskekkja og því hefði verið eðlilegt og skynsamlegt af menntamálaráðherra að draga ríkisvaldið alfarið út úr þeim rekstri, leggja stofnunina niður og selja eignir hennar."


Ég vil auk ályktunarinnar benda á sögupistil minn um Ragnhildi Helgadóttur, fyrrum menntamálaráðherra, sem birtist á vef SUS fyrr í þessum mánuði, en eins og fyrr segir lagði hún fram þá lykilbreytingu fyrir tveim áratugum að einkaaðilum skyldi leyft að reka ljósvakamiðla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband