Sleggjan reiðir til höggs

Kristinn H.

Það kemur fáum að óvörum að Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, a.k.a. Sleggjan, tilkynni nú um leiðtogaframboð í Norðvesturkjördæmi. Það stefnir í mjög spennandi uppgjör milli Magnúsar Stefánssonar, félagsmálaráðherra, og Kristins um leiðtogastól Framsóknarflokksins í kjördæminu. Fram fer póstkosning allra flokksmanna á svæðinu. Það var mikið áfall fyrir Magnús og stjórn kjördæmisráðsins að ekki skyldi fást í gegn tillaga stjórnar um að velja frambjóðendur í efstu sæti á tvöföldu kjördæmisþingi. Hörð átök urðu milli stuðningsmanna Magnúsar og Kristins og átakakosningu um tillögu stjórnarinnar lauk með sigri liðsmanna Sleggjunnar.

Greinilegt er að Kristinn H. og hans stuðningsfólk vann merkilegan sigur á því kjördæmisþingi. Þeirra leið verður farin og við tekur póstkosning þar sem allir flokksmenn hafa jöfn áhrif. Með því verður ekki tryggður neinn fléttulisti vissra svæða og jafnt kynjahlutfall í efstu sæti eins og varð í aðdraganda þingkosninganna 2003. Engum hefur dulist samskiptaleysi þingmannanna tveggja í kjördæminu og milli þeirra hefur allt að því ríkt kalt stríð. Það hefur verið metið svo að Magnús Stefánsson hafi svo verið gerður að félagsmálaráðherra við brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum gagngert til að treysta stöðu hans í kjördæminu í pólitískum átökum við Kristinn.

Auk þeirra tveggja hefur Herdís Sæmundardóttir tilkynnt um framboð sitt í 1. sætið, en hún nefnir hið annað með í þeim efnum. Enginn vafi leikur á því að sá sem hagnast mest á póstkosningunni verður væntanlega Kristinn H. En hvort að þetta form á kosningu tryggir það mjög stöðu Kristins að hann verði leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum að vori verður að ráðast. Altént má fullyrða að félagsmálaráðherrann verði að berjast fimlega og af krafti til að halda sínu. Þetta verður mjög beitt og hressileg prófkjörsbarátta sem þarna verður háð.

Fyrst og fremst vekur mikla athygli gríðarlega hörð, allt að því óvægin, barátta fylkinga framsóknarmanna í kjördæminu og greinilegt að samstaðan þar er lítil sem engin og kristallast mjög vel í að stjórn kjördæmisráðs varð algjörlega undir með sína afstöðu til þess hvernig velja skuli efstu frambjóðendur.

mbl.is Sækist eftir fyrsta sæti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband