Hörð átök Hillary og Obama - sex vikna pása

Hillary Rodham Clinton og Barack ObamaHef satt best að segja ekki nennt að skrifa mikið um forkosningaslag demókrata síðan á míní ofur-þriðjudegi 4. mars, enda ljóst með sigrum Hillary Rodham Clinton þá að ekkert yrði ráðið í þessum harða og spennandi slag fyrr en í fyrsta lagi í Pennsylvaníu 22. apríl. Úrslit í Mississippi og Wyoming höfðu nær ekkert að segja og ekki spennandi að fylgjast með, enda vitað að Obama myndi sigra þar og bíða þyrfti alvöru átaka í Pennsylvaníu.

Síðustu tíu dagana hefur ekkert breyst í þessu valdatafli nema það að Hillary fékk tækifæri til að fara til Pennsylvaníu sem trúverðugur frambjóðandi. En hún þarf að sigra þar til að eiga einhvern möguleika áfram. Kannanir benda til þess að hún muni sigra þar. Það er alveg ljóst að nái Hillary að sigra í forkosningunum í Pennsylvaníu mun þessi slagur standa fram í júnímánuð hið minnsta og jafnvel allt fram að flokksþinginu í Denver í ágústlok. Hafi Hillary vonarneista eftir Pennsylvaníu munu Clinton-hjónin ekki hika við að fara með slaginn alla leið þangað. Nái Hillary að taka Pennsylvaníu með hinum stóru ríkjunum er þetta slagur upp á hvern þingfulltrúa fram að þinginu.

Það er að verða æ augljósara að hvorugur frambjóðandinn mun ná lágmarkinu til að tryggja sér útnefninguna nema með því að hafa ofurþingfulltrúana svokölluðu, kjörna forystumenn og embættismenn innan flokksins á sínu bandi. Horft er til Michigan og Flórída, þar sem forkosningar voru ógiltar, og öllum ljóst að þar verður annaðhvort að kjósa að nýju eða gera eitthvað til að láta þingfulltrúana þar verða virka á flokksþinginu. Í svo jafnri stöðu má Demókrataflokkurinn ekki við því að láta stór ríki sitja hjá, eða einhver ríki ef út í það er farið. Það er t.d. algjör skandall ef atkvæði frá Flórída munu ekki skipta máli við val forsetaefnisins.

Núningur er að verða æ meiri á milli frambjóðendanna. Eðlilegt eftir því sem ólgan eykst meira, einkum nú þegar að repúblikanar hafa valið forsetaefni sitt og hörð átök demókrata aðeins í fréttum. Geraldine Ferraro, sem er eina konan í forystu forsetaframboðs stóru flokkanna í sögu Bandaríkjanna, sem varaforsetaefni Walter Mondale árið 1984, lét hörð orð flakka um Obama í vikunni og hætti í forystu framboðs Hillary. Lykilráðgjafi Obama í utanríkismálum kallaði Hillary skrímsli og varð að hætta og nú kemur þetta frá fjölskylduklerki Obama-hjónanna og Obama reynir að sverja tal hans af sér. Harkan er áberandi í slagnum.

Nú tekur við sex vikna pása í demókrataslagnum. Það er langt í forkosningarnar í Pennsylvaníu. Oft er sagt að vika sé langur tími í pólitík, sex vikur geta verið sem eilífð í svona átökum. En á meðan að Hillary og Obama eyða fúlgum fjár í að slást um útnefninguna hefur McCain náð útnefningu repúblikana, safnar peningum í kosningabaráttuna síðla árs, velur varaforsetaefni og sameinar repúblikana alla að baki sér. Þvílíkur munaður.


mbl.is Sóknarprestur Obama veldur uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband